Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Við munum verja lýðveldið Ísland“ – en fyrir hvern?

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti hátíðlega yfirlýsingu á Alþingi þar sem hún sagði:

Ég lýsi því yfir fyrir hönd meirihlutans að við munum verja lýðveldið Ísland, við munum verja stjórnarskrána og heiður Alþingis.

Það hljómar fallega – en við skulum hætta að láta blekkjast af svona orðum þegar verkin segja annað.

Verja lýðveldið – með því að framselja völd?

Hvernig ætlar ríkisstjórnin að „verja stjórnarskrána“ á sama tíma og hún er hlynnt því að Ísland aðlagi sig enn frekar að Evrópusambandinu og alþjóðlegum reglum sem takmarka tjáningarfrelsi?

Við skulum tala um Bókun 35 – viðbót við Mannréttindasáttmála Evrópu sem á að berjast gegn hatursorðræðu. Í framkvæmd getur hún auðveldlega orðið verkfæri til að þagga niður pólitískar skoðanir. Í löndum Evrópu hafa menn þegar verið ákærðir fyrir skoðanir, brandara eða pólitíska gagnrýni.

Er það „lýðræði“? Er það „að verja stjórnarskrána“?

Tjáningarfrelsi ekki lengur sjálfsagt

Sama ríkisstjórn sem þykist verja heiður Alþingis er hlynnt Digital Services Act Evrópusambandsins – kerfi sem beinlínis krefst ritskoðunar á netinu og refsar þeim sem leyfa „óviðeigandi“ umræður. Þau kalla það „öryggi“ en það er í raun pólitísk stýring umræðu.

Það sem var einu sinni grundvallarréttindi – að segja hug sinn frjálst – er orðið varasamt ef það móðgar „rétta“ hópa eða öfluga hagsmuni.

Alþingi eða útsölustaður?

Þegar Kristrún talar um að verja Alþingi ætti hún að byrja á því að spyrja sig: Hver á að ráða Íslandi? Alþingi eða embættismenn í Brussel og Strassborg?

  • Þegar Alþingi samþykkir að laga íslensk lög að erlendum regluverkum sem takmarka tjáningarfrelsi, þá er það ekki að „verja lýðveldið“ heldur aflétta því sjálfstæði sem við fengum 1944.
  • Þegar ríkisstjórn boðar aðildarviðræður eða aukið samstarf við ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu, er það ekki að „virða lýðræðið“ heldur sniðganga þjóðina.

Falleg orð, en hvað með verkin?

Það er ekki nóg að veifa íslenska fánanum á Austurvelli og lofa að „verja stjórnarskrána“.

Þau sem stjórna þurfa að svara:

  • Eruð þið reiðubúin að standa gegn því að Ísland taki upp löggjöf sem getur verið notuð til að þagga niður óþægilegar skoðanir?
  • Viljið þið halda fullveldi Alþingis yfir íslenskum lögum?
  • Ætlið þið að virða þjóðina og leyfa henni að kjósa um svona stór mál?

Það væri sannur heiður Alþingis – og það væri að verja lýðveldið Ísland í alvöru.

Að lokum

Ég hef fulla trú á að Íslendingar skilji þessa mótsögn. Það þarf að segja hlutina hreint út: Það er ekki lýðræði að framselja valdið en halda áfram að predika um fullveldi.

Þangað til pólitíkusar hætta að þjóna Brussel á undan Reykjavík og erlendum alþjóðastofnunum á undan íslensku fólki – þá eru svona yfirlýsingar bara orðin tóm.


mbl.is „Við munum verja lýðveldið Ísland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjögur svör stjórnmálamanna til að slá ryki í augu fólks

Það er sama hvað við ræðum í stjórnmálum, alltaf virðist umræðan enda á sömu fjórum setningunum. Þetta eru eins konar sjálfvirkt stoppmerki sem loka á gagnrýna umræðu og gera ráð fyrir að enginn spyrji erfiða spurninga:

1. Þetta er Trump að kenna.

Hvaða vanda sem Evrópa glímir við má alltaf skella skuldinni á Trump. Þægileg leið til að kenna öðrum um – helst einhverjum fjarlægum Bandaríkjamanni sem hefur ekkert vald yfir Evrópu. Með þessu þarf enginn að ræða eigin stefnu, mistök eða spillingu.

2. Pútín ætlar að sigra Evrópu.

Hver sá sem gagnrýnir Evrópusambandið er sakaður um að vera nytsamt fífl Kreml. Þessi áróður merkir andstæðinga sem hættulega og óábyrga. Allar spurningar um lýðræði, fullveldi eða spillingu innan ESB eru afgreiddar sem „rússnesk áróðurslína“.

3. Fjölmenning er okkar styrkleiki.

Þetta er eins og trúarjátning sem má ekki efast um. Ef þú spyrð um samfélagsleg átök, kostnað, menningarlega samloðun eða glæpatíðni ert þú stimplaður sem vondur eða fáfróður. Engin rök, engin gagnrýnin umræða – bara heilagt orð sem á að loka málinu.

4. Pólitíkusar segja „Rannsóknir segja…“ til að koma í veg fyrir andstöðu

Klassísk lokasetning sem á að loka umræðunni. Ef þú spyrð hvaða rannsóknir, hver borgaði fyrir þær, hverjir unnu þær – þá ert þú ekki vísindalegur og á móti framförum samfélagsins. Þetta er orð sem þjónar því að gera gagnrýni ólögmæta.

---- 

Það er dapurlegt hvað þessi fjögur svör eru orðin sjálfvirk og þægileg afsökun. Þau leysa ekkert, reka fólk frá pólitískri umræðu og grafa undan lýðræðinu.

Ef við viljum vera lýðræðisríki verðum við að hætta þessu og tala hreint út um það sem skiptir máli: lýðræðishalla ESB, spillingu, sjálfstæði ríkja, efnahagslega samkeppnishæfni, öryggismál og samfélagslega samþættingu.

Ef við gerum það ekki, þá erum við ekki sjálfstæð og lýðræðisleg samfélög – heldur bara hópur sem lætur stjórnast af fjórum þreyttum afsökunum.


Þreyttur – en á réttu hlutunum.

Ég skil vel að fólk eins og Jasmina sé þreytt á að vera sett undir sama hatt og allt sem fer úrskeiðis. Það er ósanngjarnt að kenna heiðarlegu vinnandi fólki um vanda sem það skapaði ekki.

En ég er líka þreyttur. Þreyttur á því að það sé þaggað niður að ræða raunverulegan mun á innflytjendum og hælisleitendum.

Já við innflytjendum sem koma hingað til að vinna, borga skatta, læra íslensku og verða hluti af samfélaginu eru ekki vandamálið. Þeir eru hluti lausnarinnar og eiga þakkir skilið.

Nei við hælisleitendum sem koma í stórum hópum án stjórnunar, með allt annan menningarlegan bakgrunn, oft án raunverulegra tækifæra eða vilja til að aðlagast – það hefur skapað vandamál sem önnur Evrópulönd eru nú föst í:

  • Gettó og félagslegan klofning.
  • Aukið öryggisleysi og glæpi.
  • Trúarleg átök og höfnun á jafnrétti.
  • Vantraust milli hópa og á stjórnvöld.

Þetta er ekki fordómar heldur staðreyndir. Evrópa er að glíma við afleiðingar stefnu opinna landamæra og stjórnlausrar hælisumsókna.

Ég vil að Ísland læri af þeim mistökum áður en það er of seint. Ég vil land sem getur sagt:

  • Já við fólki sem vill vinna og verða hluti af okkur.
  • Nei við stefnu sem afnemur mörk, gerir engar kröfur um aðlögun og breytir samfélaginu á kostnað þeirra sem búa hér fyrir.

Við verðum að mega ræða þetta heiðarlega. Það er ekki hatur – það er ábyrgð!


Hvernig vinstri og hægri nálgast samfélagið, samskipti og skilaboð

Við tölum oft um vinstri og hægri eins og þetta snúist bara um skatta, útgjöld eða ríkisafskipti. En djúpi munurinn er ekki bara í því hvað þau vilja gera heldur hvernig þau líta á samfélagið sjálft, hvernig þau vilja að við tölum saman og hvaða skilaboð þau leggja áherslu á.

Hvernig þau skilja samfélagið. 

  • Vinstri sér samfélagið sem samofinn vef fólks sem ber sameiginlega ábyrgð.
  • Markmiðið er að jafna stöðu fólks og draga úr aðgreiningu.
  • Sér vald, ójöfnuð og kerfisbundið óréttlæti sem vandamál sem þarf að laga.
  • Vill sterkara kerfi, reglur og stuðning sem tryggja að enginn verði skilinn útundan.

Hægri sér samfélagið sem safn einstaklinga og fjölskyldna sem bera ábyrgð á sér sjálfir.

  • Leggur áherslu á frelsi og frumkvæði einstaklingsins.
  • Vill sem minnst af óþarfa afskiptum frá ríkinu.
  • Sér persónulega ábyrgð og sjálfstæði sem lykil að heilbrigðu samfélagi.

Hvernig þau nálgast samskipti og umræðu.

Vinstri notar oft siðferðislega röksemdafærslu: Hvað er rétt.

  • Kallar eftir samúð og skilningi.
  • Leggur áherslu á sögur af þeim sem þurfa hjálp eða verða fyrir óréttlæti.
  • Er viðkvæm fyrir tungumáli sem útilokar eða særir minnihlutahópa.
  • Vill að samfélagið endurspegli virðingu og umhyggju í tali og hegðun.

Hægri notar oft raunhæfa eða nytsemislega röksemdafærslu: Hvað virkar.

  • Beinir spurningum að ábyrgð og skilvirkni.
  • Spyr: „Hver borgar? Er þetta sanngjarnt fyrir alla?“
  • Gagnrýnir pólitíska rétthugsun sem tilraun til að stjórna umræðunni.
  • Vill opinskáa umræðu, jafnvel þótt hún sé óþægileg.

Hvaða skilaboð þau senda.

Vinstri skilaboðin eru oft:

  • Við erum öll saman í þessu.
  • Við verðum að hugsa um veikustu hlekkina.
  • Við þurfum að breyta kerfinu svo enginn verði skilinn útundan.

Hægri skilaboðin eru oft:

  • Þú berð ábyrgð á þínu lífi.
  • Við verðum að vernda frelsi og sjálfstæði.
  • Við getum ekki reddað öllum með peningum sem við höfum ekki.

Kjarni málsins.

Þetta snýst ekki bara um tvær leiðir til að setja fjárlög eða ákveða skattaprósentu. Þetta eru tvær djúpar og ólíkar hugmyndir um hvernig samfélag á að vera, hvernig við eigum að tala saman, og hver gildi okkar eiga að vera.

Vinstri sér réttlæti í sameiginlegri ábyrgð og jöfnuði, jafnvel þótt það krefjist meira af öllum. Hægri sér réttlæti í frelsi og persónulegri ábyrgð, jafnvel þótt það kosti ójafna útkomu.

Hvort sjónarmiðið er „réttara“? Það ræðst af því hvaða gildi við setjum í forgang. En ef við skiljum þennan mun getum við loksins rætt af alvöru – í stað þess að afskrifa hvort annað sem heimsku eða illsku.

Ef við gerum það byrjar raunveruleg samræða – og þá getum við fundið bestu lausnina fyrir samfélagið.

 


Hvað í ósköpunum gerðist? Af hverju birtist allt í einu jákvæð frétt um Trump á Íslandi?

Við getum líklega verið sammála um að þetta kom svolítið á óvart. Ísland hefur verið nokkurs konar DTS-land (Donald Trump Syndrome): hann birtist í fjölmiðlum helst sem ógn, trúður eða fyrirboði heimsendans.

Svo sér maður á mbl.is fyrirsögnina: „Trump gerði allt rétt“. Ha? Var ritstjórnin sofandi við stýrið í dag eða í jólaskapi um hásumar?

En þegar maður les nánar sér maður að þetta er viðskiptagrein. Markaðurinn metur ekki persónuleika heldur peninga: lægri skatta, hækkandi hlutabréfavísitölur. Fjárfestar eru ekkert að velta sér upp úr upphrópunum eða fyrirsögnum — þeir sjá dollara og segja „já takk“.

Kannski er þetta líka bara klókt trikk til að fá smelli. Það selur að ögra fólki sem er vant að sjá Trump sem holdgerving endaloka lýðræðisins.

Eða — og nú leyfi ég mér alveg villta kenningu — kannski vill einhver minna okkur á að það er til annað sjónarhorn. Bara svona til að hrista upp í umræðunni. En nei, það væri líklega of róttækt.

 


mbl.is Trump gerði allt rétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru skoðanir þínar raunverulega þínar eigin?

Við höfum öll sterkar eða veikar skoðanir á ýmsum málum – stundum lærðar frá foreldrum, vinum eða samfélaginu, stundum fengnar beint frá fréttamiðlum eða samfélagsmiðlum. Við höldum oft að þessar skoðanir séu okkar eigin, mótaðar af frjálsum vilja. En hvað ef stór hluti þeirra er bara niðurstaða þess sem okkur hefur verið leyft að sjá – og þess sem okkur hefur ekki verið leyft að sjá?

Ég hef orðið sífellt meðvitaðri um þetta. Hver ræður umræðunni? Hver ákveður hvaða sjónarmið eru sýnileg? Það eru hefðbundnir fjölmiðlar sem velja hvað telst „fréttnæmt“ – en líka samfélagsmiðlar sem stjórna því hvað fær athygli með flóknum reikniritum. Þeir ákveða hvað þú sérð – og hvað þú sérð ekki. Þeir ákveða hverjir eru gerðir að fórnarlömbum sem við eigum að vorkenna, og hverjir verða hlægilegir eða þaggaðir niður.

Við fáum oft bara sneið af raunveruleikanum. Sumt er markvisst falið eða litað. Það gerir það auðveldara að móta „réttu“ skoðunina ef fólk sér aldrei hina hliðina á heildstæðan og mannlegan hátt – eða ef andstæð sjónarmið eru aðeins sýnd í afskræmdum, klipptum eða háðslegum búningi.

Ég get nefnt sjálfan mig sem dæmi. Ég var lengi með klassískt „DTS“ – Donald Trump Syndrome, hugtak yfir fólk sem fyrirlítur hann skilyrðislaust. Ég skammaðist næstum fyrir að hlusta á hann. Það byggðist ekki á eigin rannsókn heldur á því sem ég sá í hefðbundnum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum – alltaf klippt, aflagað og gert hlægilegt, eða hann sýndur sem illmenni.

Meginástæðan fyrir því að ég „læknaðist“ af DTS var að ég hafði lengi fylgst með World Economic Forum og áttað mig á hversu ágeng hugmyndafræði þeirra er: alþjóðavæðing, afsal fullveldis til ólýðræðislegra stofnana, opin landamæri, WOKE-hugsun og „sameiginlegar lausnir“ sem hunsa staðbundinn veruleika. Þessi hugmyndafræði er sterk í Demókrataflokknum og vinstri hreyfingum í Evrópu.

Mér fannst skýrt að undir veikri stjórn Bidens hefði heimurinn farið í ranga átt – (og það tóku fleiri en ég eftir því). Ég fór því að fylgjast mjög vel með forsetakosningunum 2024. Ég horfði á ræður og viðtöl við Kamölu Harris, sem talaði mjög í anda WOKE – ef hún náði að gera sig skiljanlega (þeir sem hafa hlustað á hana vita hvað ég á við).

Í þessum undirbúningi sá ég að Trump tók skýra afstöðu gegn WEF og þeirri hugmyndafræði. Þegar ég áttaði mig á þessu ákvað ég að hlusta á hann sjálfan – ekki bara á það sem aðrir sögðu um hann eða hvernig hann var sýndur í fjölmiðlum. Ég horfði á ræður í heild, ekki aðeins klippt brot. Ég horfði, hlustaði á, og las frumheimildir.

Það sem vakti mesta athygli mína var hvernig reikniritið breyttist. Þegar ég byrjaði að skoða þetta efni fékk ég allt í einu aðra sýn: mannlegri hlið á Trump – viðtöl og greiningar sem ég hafði aldrei séð áður. Það sem áður var útilokað af minni tímalínu varð allt í einu sýnilegt. Ég fékk að sjá annan raunveruleika. Þetta var mjög lærdómsríkt.

Ég þarf ekki að vera sammála öllu sem Trump gerir eða segir. Enda er enginn er alltaf sammála sínum stjórnendum, leiðtogum eða jafnvel foreldrum. Það sem skiptir máli er að ég fékk loksins að sjá báðar hliðar málsins.

Þetta var dýrmæt kennslustund um áhrif fjölmiðla og samfélagsmiðla á skoðanir okkar. Þegar ég sá hina hliðina varð mér ljóst hvernig fjölmiðlar búa til mjög neikvæða og ósanngjarna mynd af Trump. 

Að mínu mati ætti þetta að vera eitthvað sem allir hugsa um. Þú þarft ekki að vera sammála mér, Trump eða öðrum. En spurðu sjálfan þig:

  • Af hverju trúi ég þessu?
  • Hef ég séð andstæð rök?
  • Hef ég séð frumheimildir?
  • Hef ég reynt að skilja andstæðu hliðina á eigin forsendum?

Við skuldum okkur sjálfum að hugsa sjálfstætt. Að reyna að sjá heildarmyndina. Að leyfa ekki fjölmiðlum, stjórnmálamönnum, fyrirtækjum eða reikniritum að ákveða fyrir okkur hvað við megum sjá og hugsa.

Að mínu mati er það eina leiðin til að eiga skoðanir sem eru í raun okkar eigin.


Öfund sem þjóðaríþrótt

Það er vinsælt þessa dagana að skamma kapítalisma. Hann er sagður rót alls ills, misréttis, græðgi, ójafnaðar. En mér sýnist stundum að umræðan snúist ekki um kapítalisma í sjálfu sér heldur eitthvað miklu dýpra og persónulegra: öfund.

Við virðum ekki lengur þann sem nær árangri. Við öfundum hann. Við drögum hann niður í stað þess að læra af honum. Það er eins og það hafi orðið þjóðaríþrótt að tortryggja velgengni. Sá sem gengur vel hlýtur að hafa svikið einhvern, platað einhvern, verið „gráðug/ur“.

Í stað þess að segja: „Vel gert. Hvernig gerðirðu þetta? Hvað get ég lært af þér?“ segjum við: „Viðkomandi á ekki skilið meira en ég.“

Ég man þegar það þótti dyggð að gleðjast með öðrum. Þegar það var hvati til eigin umbóta að sjá einhvern ná árangri. Nú virðist algengara að fólk leiti sér afsökunar fyrir eigin aðgerðaleysi með því að rakka niður þá sem standa sig.

Auðvitað á að gagnrýna spillingu og svindl. En við erum farin að setja alla í sama hóp. Við höfum búið til menningu þar sem það er synd að skara fram úr. Þar sem metnaður er talinn ósiðlegur. Þar sem það að leggja meira á sig er ástæða fyrir háði og hatri.

Öfund er ekki gagnrýni á kapítalisma. Hún er eitur innan hans. Hún drepur metnað og ábyrgð. Hún hvetur ekki til umbóta heldur stöðnunar. Hún segir: „Ef ég get það ekki, á enginn að geta það.“

Í kjarna sínum þá gleðst Kapítalismi með öðrum, sem vill læra, sem hvetur til nýsköpunar og vinnu. Þar sem við spyrjum: „Hvernig get ég sjálf/ur bætt mig?“ í stað þess að spyrja: „Hvernig get ég dregið viðkomandi niður?“

Við stöndum frammi fyrir spurningu: Viljum við samfélag sem lyftir fólki upp eða samfélag sem rífur allt niður í sama skurð?

Ég held að við þurfum að endurvekja eina einfalda en sterka reglu sem hefur meira gildi en margir átta sig á:

Að elska náungann eins og sjálfan sig.

Það þýðir ekki bara að sýna góðvild við þá sem eiga minna – heldur líka að gleðjast með þeim sem gengur vel. Læra af þeim. Leyfa þeim að sýna okkur hvað er mögulegt.

Kannski byrjar allt á okkur sjálfum. Að hætta að afsaka eigin aðgerðaleysi með hatri á þeim sem hafa lagt hart að sér. Að spyrja: Hvernig get ég sjálf/ur bætt mig?

Getur verið að fólk finni beiskju eða öfund gagnvart einhverjum bara af því að viðkomandi á meiri pening og hefur náð meiri árangri? 


"Við erum hér til að taka yfir" – Og þá trúi ég þér

Ég sá þetta myndband. Og þetta er ekki það fyrsta.
Ég hef séð fleiri slík, þar sem sambærileg yfirlýsing er gefin.
Í þessu stendur maður í miðri götu, með hljóðnema í andlitinu og segir hátt og skýrt:

"We are here to take over."
– Shakeel Afsar, frambjóðandi í breskum þingkosningum, stofnandi „Islamic Independent Candidates Alliance“.
(Myndband: 2024, Birmingham)

Það sem áður var kallað "samsæriskenning" er nú sagt beint út. Ekki af einhverjum jaðarpredikara. Heldur manni sem bauð sig fram til þings.
Hann komst ekki inn, en hann fékk hljómgrunn. Framboð hans fékk umtalsverða athygli í fjölmiðlum, bæði vegna umdeildra yfirlýsinga og stefnu sem margir upplifðu sem ögrandi. Sumir lýstu yfir áhyggjum af orðræðu hans, en aðrir lýstu yfir stuðningi, sérstaklega innan ákveðinna trúar- og samfélagshópa. Þögn stjórnmálamanna um yfirlýsinguna vakti enn meiri spurningar: Af hverju má ekki ræða þetta opinberlega?
Ekki í reiði. Heldur með sjálfsöryggi. Eins og þetta sé sjálfsagt.

Þetta er ekki einstakt tilvik

Ef þetta væri einangrað dæmi, þá væri hægt að skella þessu á vitleysing.
En það væri sjálfsblekking. Þetta er hluti af mynstri sem hefur endurtekið sig um alla Evrópu síðasta áratuginn.
Og þeir segja það aftur og aftur, núna á opnum vettvangi, án þess að nokkur leiðtogi þori að mótmæla:

"We will conquer Europe not with swords, but with birth rate."
– Úr prédikun imams í Al-Aqsa moskunni, birt af MEMRI 2015 (heimild).

"Sweden belongs to Muslims - its only a matter of time."

– Orð frá Imam Basem Mahmoud í Malmö, skráð í frétt frá The European Conservative árið 2023. Þar segir hann meðal annars: „Svíþjóð er okkar, hvort sem [Svía] líkar það eða ekki. Eftir tíu til fimmtán ár verður hún okkar.“

Þetta kom fram í hatursfullri ræðu þar sem hann sakaði sænsk stjórnvöld um að ræna börnum múslima, lýsti yfir fyrirlitningu á sænskum stofnunum og kallaði skólakerfið „skömmina í sænsku samfélagi“. (Heimild – The European Conservative)

"Molenbeek is a no-go zone run by Sharia law."

– Umfjöllun um Molenbeek, hverfi í Brussel sem hefur lengi verið tengt við róttækar íslamskar hreyfingar, má finna í ítarlegri grein hjá ABC News. Þar segir frá samfélagslegri spennu, tengslum við hryðjuverk og ásökunum um að svæðið fylgi eigin reglum og hafni vestrænum gildum. (Heimild – ABC News)

Ertu enn að efast?

Þeir segja það. Þeir meina það. Og þeir vinna að því – markvisst.
Ekki með sprengjum eða vopnum, heldur með lýðfræðilegum yfirtökum, menningarlegri niðurrifsstefnu og hugmyndafræðilegri útþenslu sem nýtir veikleika vestræns sjálfstrausts. Þetta er ekki árás í hefðbundnum skilningi, heldur innri uppbygging nýrrar valdapíramída, studd af trúarlegri samstöðu sem hafnar samruna við heimafólk.

Samt er okkur sagt að það sé hatursfullt að nefna þetta.
Að benda á staðreyndir sé ómannúðlegt.
Að spyrja sé hættulegt.
Við eigum að þegja, jafnvel þegar allt bendir til þess að spurningarnar séu réttmætar og brýnar.

En ég spyr

Ef maður sem býður sig fram til þings, með stuðning úr samfélagshópum og pólitískum baklandi, stendur á götu í Bretlandi og segir að hann sé hér til að taka yfir, og við eigum ekki að bregðast við – hver bregst þá við þegar tekið hefur verið yfir?

Þetta snýst ekki um hatur. Þetta snýst um vernd.
Og þetta snýst ekki um einhvern óljósan ótta eða ímyndaða öfgamenn, heldur menn sem stíga fram fyrir opnum tjöldum og segja hvað þeir ætla sér.
Þetta er ekki bara einhver maður. Þetta er fulltrúi hreyfingar.
Þetta snýst ekki um að útiloka, heldur að skilgreina:
Fyrir hverja á Evrópa að vera?
Hver ræður framtíð álfunnar – og af hverju er bannað að spyrja?

Niðurstaða

Ég trúi þeim.
Ekki fjölmiðlunum sem þegja.
Ekki stjórnmálafólkinu sem afsakar.
Ekki akademíunni sem snýr öllu upp í "fordóma".

Ég trúi þeim sem segja það beint:

"We are here to take over."

Ef þú trúir þeim ekki – hlustaðu þá betur.


Náttúruvernd eða valdbeiting?

Við fáum í fréttum:

"Við höfum aðeins 5 til 10 ár." "Ef við gerum ekkert núna, þá verður jörðin óbyggileg." "Þetta er stærsta ógn sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir."

Við höfum heyrt þetta áður. Og aftur. Og aftur.

Í meira en 60 ár hefur verið lýst yfir heimsendum af ýmsum toga, loftslagsbreytingum, mengun, hækkun sjávarmáls, skógareyðingu, offjölgun mannkyns, súru regni og götum á ósonlaginu, alltaf með sama mynstri: "innan fimm til tíu ára". Og alltaf með sömu lausninni: tafarlausar aðgerðir, skattahækkanir, frelsisskerðing og aukin miðstýring.

En eitt er merkilegt: Aldrei gengur þetta eftir.

Náttúuruvá sem stjórntæki

Síðustu áratugir sýna mynstur: (vandamál) eru mögnuð upp og notuð til að réttlæta vaxandi miðstýringu. Dæmin tala sínu máli:

Ísöldin kemur!

Á áttunda áratugnum birtu tímarit eins og Time og Newsweek forsíður með jöklum sem runnu yfir Manhattan. Loftslag var að kólna, og ný ísöld sögð yfirvofandi.

Tónninn var skýr: Við verðum að grípa inn í, takmarka iðnað, minnka orkunotkun, áður en allt frýs.

Og hvað gerðist svo? Engin ísöld skall á. Engar borgir fóru undir jökla. En almennir borgarar voru hræddir til hlýðni, fjölmiðlar mögnuðu hræðsluna og stjórnvöld nýttu tilefnið til að kynna nýjar aðgerðir. Hræðslan fjaraði út án þess að spáin rættist, og umræðan færðist hljóðlega yfir á næstu ógn.

Heimurinn fer undir vatn

Á tíunda áratugnum og upp úr aldamótum snérist spáin við: Nú var jörðin að hitna, jöklar að bráðna og stórborgir að hverfa í sjóinn.

Al Gore sagði árið 2006 að við hefðum tíu ár til að bjarga heiminum. Þeim tíu árum lauk 2016. Borgirnar standa enn.

Þrátt fyrir að spárnar rættust ekki, fengu þær sífellt meiri hljómgrunn í fjölmiðlum og stjórnkerfi. Myndir af flóðum, loftmyndir af ísjökum og dramatísk myndbönd voru endurtekin dag eftir dag. Skólar stóðu fyrir hræðsluáróðri fyrir nemendur, þar sem þau voru látin horfa á myndbönd af bráðnandi jöklum og drukknandi dýrum. Fréttastofur fluttu hverja hitabylgjuna sem „merki um endalokin“, oft með dramatískum myndskreytingum og vísindamönnum í beinni að tala um hættuna. Stjórnmálamenn notuðu tækifærið til að leggja fram ný lög, reglugerðir, skattkerfi og eftirlitsúrræði sem stýrðu daglegri hegðun fólks, allt í nafni plánetunnar.

Óttinn varð gagnlegur: hann samræmdi hugmyndir, þaggaði gagnrýni og ýtti undir samþykki. Hann gerði það sem rökræður áttu að gera: sannfæra fólk, en með tilfinningum í stað rökum.

Og hvað gerðist svo? Engin lönd eða borgir fóru undir vatn. Hræðslan fjaraði út án þess að spáin rættist. En myndirnar lifðu áfram, löggjöfin sat eftir, og fólk hafði lært lexíuna: ekki spyrja, bara hlýða. Mynstrið hélt áfram: ógn, viðbrögð, stjórn, og síðan þögn.

Súrt regn

Skógar áttu að hverfa, vötn að verða eitruð. Raunverulegur vandi, sem var leystur með tækni og staðbundnum aðgerðum. En áður en lausnin kom, var almenningur skelfdur með myndum af skógarbruna, brúnu regni og brennandi húsum. Fjölmiðlar endurtóku spár um hrun vistkerfa, stjórnvöld héldu blaðamannafundi og kröfðust skyndiaðgerða. Þó engin skattheimta eða eftirlitskerfi hafi verið sett á, var þetta mikilvægt próf í að virkja ótta sem stjórntæki, og æfing í samstillingu valds og miðla.

Og hvað gerðist svo? Loftið varð hreinna, regnið minna súrt, en á meðan á stóð voru borgarar skelfdir með dökkum fréttum, dramatískum myndum og endurteknum spám um vistkerfashrun. Þeir voru hvattir til að samþykkja neyðarástand, þó lausnin hafi síðar reynst einföld, tæknileg og staðbundin, framkvæmd af sérfræðingum. En óttinn hafði skilað sínu: almennir borgarar höfðu lært að hlýða og forðast spurningar. Æfingin í samstillingu valds og miðla hafði heppnast.

Ósonlagið

Gat í ósonlaginu olli áhyggjum, (réttilega). Alþjóðlegt samkomulag bannaði CFC-efni og ósonlagið er að jafna sig núna. En áður en lausnin kom, birtu fjölmiðlar myndir af eyðileggingu húðfrumna, húðkrabbameini á börnum og sólargeislum sem bræddu allt sem fyrir varð. Valdhafar lýstu yfir neyðarástandi og beittu dramatískri orðræðu um „vernd barna gegn ósýnilegum óvini.“ Engin skattlagning á almenning. Engar ferðatakmarkanir. En óttinn var virkjaður, og fólk hrætt aftur til hlýðni.

Og hvað gerðist svo? Vandinn minnkaði, en ekki án þess að almenningur hafi verið hræddur til hlýðni með dramatískum myndum, neyðarklippum og hrópandi fyrirsögnum. Þó lausnin hafi síðar verið tæknileg, þá hafði almenningur þegar gengist undir boðvald og viðbrögð sem áttu eftir að verða að vana. Þetta var enn eitt skrefið í að kenna fólki að samþykkja yfirvald í nafni velferðar, og próf fyrir samspil fjölmiðla, vísindaráðgjafa og stjórnvalda.

Árþúsundavandinn - árið 2000 er að ganga í garð

Tæknilegt vandamál var gert að heimsendi. Flugvélar áttu að hrapa, bankar að lokast. Fjölmiðlar sýndu sviðsmyndir af rafmagnslausum sjúkrahúsum og hrapandi flugvélum. Opinberir aðilar sendu frá sér viðvaranir og öryggisleiðbeiningar í massavís, og fólk var hvatt til að búa sig undir verstu mögulega atburðarás. Valdið talaði með einni röddu, og hræddi fólk til undirgefni. Að lokum gerðist ekkert. En þetta var enn einn nytsamlega æfingin í að kalla fram hlýðni og próf á hversu hratt hægt væri að virkja óttann til að samhæfa viðbrögð almennings.

Og hvað gerðist svo? Kerfin héldu áfram að virka, og þeir sem höfðu grætt á óttanum sneru sér að næstu spá. Það kom engin endurskoðun, engin afsökun. Bara ný bylgja óvissu, ný skilaboð: „trúðu, og ekki segja neitt.“

Loftslagsvandinn – tæki til stjórnunar

Þessi hræðsluáróður er sá sem mest fer fyrir í dag, en samt er umræðan ótrúlega þröng. Hún horfir aðeins örfá ár aftur í tímann og metur breytingar út frá áratugum, jafnvel bara nokkrum árum. En ef við lítum lengra – hvað þá??

Á 15. öld var hlýnun á norðurhveli meiri en víða í dag, samkvæmt rannsóknum á jökulkjörnum og trjáhringjum (sjá t.d. Ljungqvist, 2010). Á 10.–13. öld ríkti svokölluð „miðaldahlýnun“ (Medieval Warm Period), þar sem vínrækt þreifst á Suður-Englandi, korn var ræktað á Grænlandi og gróðurbeltið náði norðar en í dag (Lamb, 1965; Grove & Switsur, 1994). Á 17. öld tók við „litla ísöldin“ (Little Ice Age), sem einkenndist af köldum vetrum, skemmdum uppskerum og tíðum harðindum víða um Evrópu, með tilheyrandi mannfalli (Fagan, 2000).

Í stað þess að skoða þetta í víðu sögulegu samhengi, er almenningi sagt að hver veðuratburður staðfesti heimsenda. Hvert flóð, hver hitabylgja og hver stormur er tengdur „loftslagsbreytingum af mannavöldum“, og notaður til að undirstrika nauðsyn tafarlausra aðgerða. Það er eins og hlýnun loftslagsins sé orðin orsök alls veðurs, allrar váar og allra náttúruhamfara, og þar með réttlæting fyrir endalausum stjórnunaraðgerðum. Sagan segir annað. Loftslag breytist, og það hefur alltaf gert það. Spurningin er hvort lausnir samtímans séu skynsamar, eða einfaldlega nýtt tækifæri til að stýra hegðun fólks í nafni óttans. Því aldrei hefur jafnmikil samþjöppun valds og dreifing ótta gengið í takt og í loftslagsmálum nútímans. Hræðslan hefur orðið til þess að fólk samþykkir reglur sem það hefði aldrei fallist á við röklega umræðu. Lausnirnar hafa ítrekað verið notaðar til að réttlæta mörg öflugustu stjórnunartæki samtímans:

  • Kolefnisskattar
  • Ferðatakmarkanir
  • Matvælaskömmtun
  • Orkueftirlit
  • Kolefnisapp sem fylgist með hegðun

Engin af þessum aðgerðum hefur stöðvað hlýnun. En spyrja má: er hlýnun sjálfkrafa slæm? Sögulega hefur mannlíf þrifist á hlýindaskeiðum, með meiri uppskeru, minni vetrahörku og færri hungursneyðum. Hlýnun getur haft neikvæð áhrif á ákveðin svæði, en hún ber einnig með sér tækifæri sem lítið er rætt um opinberlega.

Aukið magn CO2 í andrúmslofti hefur sýnt fram á jákvæð áhrif í formi örvunar ljóstillífunar, aukins gróðurvaxtar og meiri uppskeru, sérstaklega á þurrum og jaðarsvæðum. Þetta er kallað „CO2 fertilization effect“. Jafnframt sýna rannsóknir að mannkynið hefur dafnað betur á hlýjum tímabilum en köldum. Þetta þýðir ekki að áhættan sé engin, en hún er flóknari og fjölbreyttari en einhliða myndin sem er dregin upp.

Í stað þess að meta bæði hættur og möguleika, er hlýnun sett fram sem algild vá sem réttlætir miðstýringar og inngrip. Þær hafa ekki einungis breytt umræðunni, heldur hvernig stjórnvaldið hefur umsjá með þér.

Og þó – aldrei gengur spáin eftir

Spáin segir alltaf: "Við höfum fimm til tíu ár." Svo líða fimm ár, tíu ár. Ekkert stórt gerist. Engar borgir hverfa í sjóinn, engar þjóðir þurrkast út. En í stað þess að líta um öxl og meta hvað fór úrskeiðis, kemur ný spá. Með nýju tímamarki. Nýju skattkerfi. Nýjum boðum og bönnum.

Með aðstoð fjölmiðla og „vísindasamstöðu“ er hræðslan endurnýjuð, og almenningur látinn bera ábyrgð. Þeir sem spyrja eru kallaðir afneitendur, óábyrgir eða jafnvel hættulegir. Fólk er hvatt til að skammast sín fyrir að spyrja og kennt að þögn sé dyggð.

Aldrei afsökun. Aldrei viðurkenning á mistökum. Aldrei hlé á hræðslunni, því hún þjónar tilgangi: að viðhalda stjórn og undirgefni.

Heimildaskrá:

  • Ljungqvist, F. C. (2010). A new reconstruction of temperature variability in the extra-tropical Northern Hemisphere during the last two millennia. Geografiska Annaler: Series A, Physical Geography, 92(3), 339–351.

  • Lamb, H. H. (1965). The early Medieval warm epoch and its sequel. Palaeogeography, Palaeoclimatology, Palaeoecology, 1, 13–37.

  • Grove, J. M., & Switsur, R. (1994). Glacial geological evidence for the medieval warm period. Climatic Change, 26(2–3), 143–169.

  • Fagan, B. (2000). The Little Ice Age: How Climate Made History 1300–1850. Basic Books.

 


1984 var viðvörun – ekki leiðarvísir

Fleiri og fleiri vísa í bókina 1984 eftir Orwell og sjá í henni skýra samlíkingu við samtímann, en fæstir átta sig á því að hann var ekki að spá fyrir um framtíðina. Hann varar við þeirri þróun sem á sér stað nú þegar: Þar sem orð fá nýja merkingu, sannleikur er ákveðinn ofan frá, og frelsið hverfur, ekki með byltingu, heldur í hljóði.

Og við sjáum þetta í dag, ekki í einræðisríkjum, heldur á Vesturlöndum, þar sem fólkið horfir aðgerðalaust á, stundum í meðvirkni, stundum í vanþekkingu, en sjaldan með upplýstu samþykki.

Lýðræðishalli og yfirþjóðleg valdataka

Í dag hefur ESB þróast úr efnahagssamstarfi í pólitískt kerfi sem grefur markvisst undan þjóðríkjum og lýðræði. Íslendingar verða fyrir áhrifum af þessu í gegnum orkupakka, reglur ACER og Bókun 35, þar sem evrópsk lög fá forgang fram yfir íslensk, jafnvel stjórnarskrá Íslands.

Stjórnvöld fá áminningar og þrýsting frá stofnunum eins og ESA þegar þau fara ekki eftir hinum nýju viðmiðum. Við sáum þetta í Landsréttarmálinu. Samhliða er gagnrýni á þróunina brennimerkt sem afturhald eða öfgar.

Þegar þjóðernissinnar sækja í sig veðrið, eins og í Rúmeníu eða með AfD í Þýskalandi, grípa yfirvöld til þess að stimpla þá sem ógn við lýðræði, þrátt fyrir lýðræðislegan stuðning. Þetta er ekki lengur samstarf, heldur hugmyndafræðileg mótun valds sem byggist á samræmingu, stöðugleika og baráttu gegn „hatursorðræðu“ – en í reynd felur í sér þöggun á skoðunum sem ganga gegn ráðandi hugmyndafræði.

WHO, heimsfaraldur og samningsbundið valdaleysi

Í dag stendur lítil þjóð eins og Ísland frammi fyrir nýrri heilbrigðisstefnu á grundvelli samninga sem WHO undirbýr, þar á meðal svokallað "Pandemic Agreement" sem áætlað er að undirrita í ár. Ef hann verður samþykktur, fær WHO beina heimild til að skilgreina hvað telst heimsfaraldur, mæla fyrir um inngrip, og jafnvel hafa áhrif á innlendar takmarkanir á ferðafrelsi og skyldur ríkja til að innleiða t.d. stafræna vottun.

Í stað lýðræðislegs samtals um heilbrigðisstefnu, verður til yfirstjórn frá stofnun sem enginn kýs, og sem er fjármögnuð að stórum hluta af einkaaðilum eins og Bill & Melinda Gates Foundation og stærstu lyfjafyrirtækjum heims.

Sá sem þorir að trufla leikinn

Það er kaldhæðni samtímans að sá sem þorir að stíga fram og mótmæla þessari þróun, er sá sem fjölmiðlar, valdakerfið og Íslendingar fordæma harðast: Donald J. Trump.

Hann dró Bandaríkin úr WHO. Hann hafnar þátttöku í alþjóðlegum samningum sem ganga gegn hagsmunum Bandaríkjanna. Hann gagnrýnir opinberlega World Economic Forum og vekur athygli á því hvernig Davos- og ESB Elítur móta heiminn að eigin höfði, án samþykkis fólksins.

Hann talar fyrir vernd landamæra, endurheimt verksmiðja, þjóðlegri menningu, kristnum gildum, fjölskyldu og frelsi einstaklingsins. Hann hafnar hugmyndinni um að þjóðir eigi að lúta „global governance“.

Fyrir þetta er hann kallaður fasisti. Einræðisherra. Lýðræðisógn.

Á sama tíma og hann er sakaður um að taka lýðræðið af fólki, fylgir sjaldnast rökstuðningur – aðeins frasar og viðtekin ímynd. Þegar spurt er hvernig hann geri það, kemur lítið annað fram en tilfinningalegar ásakanir og tilbúnar fyrirsagnir. Um leið starfar kerfið sjálft markvisst að því að færa völdin frá almenningi til yfirþjóðlegra stofnana sem enginn kýs.

Þetta birtist skýrt í Evrópu: í lýðheilsustefnu heimsfaraldursins, samræmdum fjölmiðlaflutningi og regluverki sem teygir sig inn í íslenska lagasetningu. Samt sem áður sjá Íslendingar, líkt og margir Evrópubúar, aðeins fyrirsagnirnar: „Trump er hættulegur.“ Þeir samþykkja ímyndina – og á meðan styrkir kerfið vald sitt með ESB-samræmingum, WHO-samningum, orkupökkum og hugmyndafræðilegri miðstýringu.

En hverjir taka raunverulega lýðræðið af fólki?

Við verðum að spyrja: hverjir færa raunveruleg lýðræðisleg völd frá almenningi? Þeir sem kalla sig verndara frelsis, en styrkja stofnanakerfi án lýðræðislegs umboðs? Þeir sem segjast berjast gegn öfgum, en stimpla alla gagnrýni sem hatursáróður?

Við þurfum að hætta að horfa á einstaklinga og beina athyglinni að kerfinu sjálfu. Það eru ekki endilega háværir leiðtogar sem ógna frelsinu, heldur þöglir samningar, samræmdur fjölmiðlaflutningur og kerfisbundin mótun á hugsun, máli og menningu.

Frelsið glatast ekki vegna eins manns. Það glatast þegar fólk hættir að spyrja hver stjórnar – og samþykkir að aðrir hugsi fyrir sig.

Lokaorð: Verðum við ekki að vakna?

Á Íslandi sjáum við þessa þróun birtast í smáum skrefum:

  • ESB-innleiðingar sem afsakaðar eru sem „tæknileg aðlögun“, en fela í sér raunverulegt framsal valds
  • Miðstýring hugmynda sem snúa að loftslagsmálum og menntastefnu sem eru mótaðar utan lýðræðislegs ramma
  • Vaxandi ritskoðun og sjálfsritskoðun í nafni fjölbreytileika og umburðarlyndis
  • Hræðsluáróður sem dregur úr mótmælum og úthýsir óhefðbundnum skoðunum
  • Tjáningarfrelsi sem sett er í skilyrðisbundinn ramma og háð samræmdri túlkun

Við verðum vitni að samfélagi þar sem fólk dregur sig í hlé, talar í hálfum orðum og lærir að þegja, ekki vegna laga, heldur vegna félagslegs- og hugmyndafræðilegs þrýstings.

Þannig hverfur frelsið – ekki með hvelli, heldur í þögninni.

Orwell skrifaði ekki 1984 sem handbók fyrir framtíðina.
Hann skrifaði hana sem viðvörun.

Ef við opnum ekki augun núna – vöknum við síðar í heimi þar sem við segjum með tómu brosi:

„Við höfum alltaf verið án frelsis.“


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hvers vegna spyr enginn af hverju?

Höfundur

Arnar Freyr Reynisson
Arnar Freyr Reynisson

Bloggvinir

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 196
  • Sl. sólarhring: 228
  • Sl. viku: 770
  • Frá upphafi: 6674

Annað

  • Innlit í dag: 145
  • Innlit sl. viku: 572
  • Gestir í dag: 140
  • IP-tölur í dag: 137

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband