Mánudagur, 9. júní 2025
Þegar Evrópusambandið refsar eigin borgurum fyrir skoðanir
(Pistill 6 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um) Í maí 2025 tók Evrópusambandið fordæmalaust skref. Í fyrsta sinn í sögu sambandsins voru einstaklingar, þar á meðal eigin ríkisborgarar, settir á refsiaðgerðarlista, ekki fyrir glæpi eða ofbeldi, heldur fyrir skoðanir.
Á listann voru meðal annars þrír fjölmiðlamenn: Thomas Röpper og Alina Lipp, þýskir ríkisborgarar, og Hussein Dogru, fjölmiðlamaður af tyrkneskum uppruna sem starfar í Evrópu. Sameiginlegt með þeim öllum er að þau hafa gagnrýnt stefnu Vesturlanda í Úkraínustríðinu, tjáð sig með efasemdum um úkraínsk stjórnvöld og deilt efni sem ESB telur fela í sér rússneskan áróður.
Refsing án dóms
Viðurlögin voru samþykkt af ráðherraráði ESB að tillögu nýs utanríkismálastjóra, Kaju Kallas. Engin dómstólsmeðferð fór fram. Engin sönnunarfærsla. Enginn réttur til varnar. Framkvæmdavaldið ákvað og dæmdi, og útkoman var ferðabann innan ESB, frysting eigna og bann við fjárstuðningi.
Með öðrum orðum: Þeir sem veita þessum blaðamönnum fjárhagslegan stuðning, jafnvel óafvitandi, geta átt yfir höfði sér refsingu.
Hvað var sagt og af hverju má það ekki?
Samkvæmt skjölum ESB voru þau sökuð um að kerfisbundið miðla rangfærslum, grafa undan lögmæti úkraínskra stjórnvalda og dreifa áróðri. Enginn fullyrðir að öll þeirra ummæli hafi verið sönn, en síðan hvenær hefur það verið refsivert í lýðræðisríki að hafa rangt fyrir sér?
Alina Lipp hefur áður sætt rannsóknum í Þýskalandi vegna ummæla sinna og telur sjálf að hún sé ofsótt fyrir að tjá hina hliðina á átökunum.
Hættulegt fordæmi
Þessi aðgerð markar hættuleg tímamót. Hún sýnir að sambandið telur sig nú hafa rétt til að skilgreina hvað sé rétt túlkun á alþjóðlegum átökum, og beita refsingu gegn þeim sem víkja frá þeirri túlkun. Þetta er ekki lengur barátta gegn hatri eða ofbeldi, þetta er barátta gegn óþægilegum skoðunum.
Þöggun undir fána réttlætisins
Í orði kveðnu er þetta liður í að vernda lýðræðið. En þegar ríkisvald fer að dæma um hvað megi segja og refsa þeim sem segja eitthvað annað þá hefur lýðræðið sjálft verið svipt kjarnanum: frelsi til að tjá sig, frelsi til að efast, frelsi til að mótmæla.
Þetta skapar kælingaráhrif á fjölmiðlaumfjöllun um alla Evrópu. Skilaboðin eru skýr: Tjáðu þig rangt og við frystum bankareikninginn þinn.
Réttarríkið hunsað
Það sem gerir þetta sérstaklega alvarlegt er að framkvæmdavaldið, sem hvorki er dómstóll né lýðræðislega kosið beint, fer nú með vald til að ákvarða sekt einstaklinga og setja viðurlög án dóms og laga. Slík framkvæmd gengur þvert á meginreglur réttarríkisins.
Hver er næstur?
Ef blaðamenn mega ekki tjá sig um stríð, má þá gagnrýna loftslagsstefnu ESB? Innflytjendamál? Efnahagsstefnu? Er næsta skref að setja aðra óábyrga borgara á lista í nafni samfélagslegs stöðugleika?
Niðurstaða
Þegar lýðræðisríki fara að refsa borgurum sínum fyrir skoðanir sem víkja frá opinberri stefnu, þá er hættan ekki bara fólgin í því sem gerðist. Hún felst í fordæminu. Fordæminu sem opnar dyr fyrir vald sem getur, þegar því hentar, skilgreint gagnrýni sem glæp.
Evrópusambandið segist standa vörð um lýðræði og frelsi. En nú verður það að svara einni einfaldri spurningu:
Er frelsi aðeins leyfilegt þegar það er samþykkt af yfirvöldum?
Heimild:
¹ Council of the EU press release 386/25 (20. maí 2025)
Föstudagur, 6. júní 2025
Heimilið sem þagði - sagan af Lindu og Óskari
Linda og Óskar voru ekki þekkt fólk. Ekki hávær, ekki róttæk. Þau voru þessi týpíska fjölskylda sem gerði allt rétt. Greiddu skatta, ólu upp börnin af virðingu, mættu á foreldrafundi, gáfu í hjálparsjóði og reyndu alltaf að vera skilningsrík gagnvart öðrum.
Þegar ungur maður bankaði á dyrnar var strax ljóst að hann var ekki héðan. Hann var vel snyrtur, með nýjan síma í hendinni, en engan farangur. Ekki tösku, ekki bakpoka, ekkert nema slétt útlit, lokuð svipbrigði og ákveðin krafa í augnaráðinu. Hann horfði beint á þau og sagði einfaldlega:
Ég þarf að komast inn.
Þau voru ekki viss. Óskar tautaði: Við eigum varla fyrir okkur sjálfum, og Linda dró andann djúpt. En hún hafði lesið greinar. Hún vissi hvað fólk sagði í athugasemdum. Hún hafði séð hvernig þeir sem höfðu efasemdir voru rifnir í tætlur. Sá sem lokaði dyrunum, hann var kaldhjartaður, fordómafullur, rasisti.
Linda fann ónotalega þögn hellast yfir.
Það þurfti bara einn vinkonuhóp á Facebook, eina athugasemd við kaffiborðið, og þú varst komin með stimpil sem fylgdi þér út lífið. Linda var ekki tilbúin í það.
Þau hleyptu honum inn. Bara tímabundið. Bara til að gera sitt.
Stuttu seinna var aftur bankað á dyrnar.
Þetta voru bræður hans. Tveir, með sömu augnaráð og hann, fámálir, en vissu nákvæmlega hvað þeir vildu. Svo kom pabbi hans, með ákveðna framkomu og símanúmer á blaði sem hann bað þau um að hringja í. Þá komu frændur hans, þrír saman, og sögðust vera hluti af fjölskyldunni. Afi hans birtist næst, þögull en með yfirbragð þess sem gerir ráð fyrir að fá þjónustu. Að lokum kom amma hans, lítil og kreppt, með tau í hárið og þögn sem sagði: þú ætlar ekki að loka á mig.
Linda stóð við gluggann eftir síðasta bankið og hugsaði: Ég hef lesið um þetta. Hún vissi hvað þetta var. Fjölskyldusameining. Það var kallað mannúð. Þetta var það sem samfélagið kallaði réttláta framtíð.
En eitthvað innra með henni hvíslaði: Hvar endar þetta?
Með hverjum nýjum gesti vaknaði spurning: ætlum við að segja nei? Ætlum við að stoppa þetta? En þá komu orðin, ekki frá gestunum sjálfum, heldur frá vinum, kunningjum, samfélaginu:
Allt fólk á rétt.
Umburðarlyndi kostar.
Við þurfum að vera betri.
Hugsaðu þér að þetta væri þú.
Enginn spurði: Hversu mikið getið þið borið?, heldur: Hvers vegna ætlið þið ekki að bera þetta?
Linda eldaði og skipulagði, sveitt í eldhúsinu á meðan ókunnir menn hrópuðu til hennar frá stofunni, um hvað mátti og hvað mátti alls ekki setja í pottinn. Hún mátti ekki nota ákveðin hráefni lengur. Eldunartímar voru gagnrýndir. Diskar voru lagðir til hliðar með fyrirlitningu ef maturinn var ekki í samræmi við nýja regluna sem enginn hafði sagt upphátt en allir virtust nú fylgja.
Eldhúsið, sem áður hafði verið hjarta heimilisins, varð vettvangur áminninga og þöggunar. Það sem áður var ilmur af lambakjöti og nýbökuðu brauði, varð nú varkár tilraun til að þóknast þeim sem höfðu tekið sér pláss en ekkert þakklæti sýnt.
Linda heyrði eigin börn hvísla í svefnherberginu um að þau vildu flytja út þegar þau yrðu stór. Ekki vegna gestanna einna, heldur vegna þess að þau fundu að þau tilheyrðu ekki lengur. Heimilið hafði breyst í eitthvað sem þau þekktu ekki.
Óskar þagði meira og meira. Hann hafði verið stoltur maður, verkamaður með reisn, sem vann sína átta tíma og kom heim með hreinan svita á enninu og virðingu fyrir eigin lífi. En svo fór hann að vinna meira. Fyrst eina auka vakt í viku, svo tvær. Svo varð það helgarvinna. Á endanum var hann kominn í þrettán tíma á dag, ekki lengur bara til að standa undir eigin reikningum, heldur til að borga fyrir þessa nýju fjölskyldu, sem hafði ekki beðið um leyfi, heldur einfaldlega mætt, sest niður og sett sínar reglur.
Þegar hann kom heim var húsið ekki lengur hans. Borðstofan sem hann hafði smíðað sjálfur úr furu fyrir tuttugu árum var nú notuð af mönnum sem litu á hana eins og hún hefði alltaf verið þeirra. Enginn spurði hvernig honum liði. Enginn þakkaði fyrir sig.
Næsta dag í vinnunni, með rykið í lungunum og skurði á höndum sem ekki höfðu fengið að gróa, tók Óskar loksins til máls. Hann stóð við kaffivélina með manninum sem hafði verið besti vinur hans í áraraðir. Þeir höfðu unnið saman á verkstæðinu síðan fyrir hrun, farið í veiði saman, spilað golf, hjálpað hvor öðrum að byggja palla og lagfæra húsin.
Hann sagði það ekki hátt. Bara í hvísli, hálfpartinn eins og afsökun.
Við getum þetta ekki lengur. Ég get þetta ekki.
Vinnufélaginn leit frá sér, þagnaði í smástund og sagði svo, án þess að horfa beint á hann:
Þetta hljómar dálítið hægrisinnað og fordómafullt hjá þér, ekki satt?
Þetta var ekki sagt með illvilja, heldur með varfærni, eins og maður sem vill ekki smitast. Eins og hræðslan við að vera tengdur röngum skoðunum væri sterkari en áratugur af vináttu.
Þá vissi Óskar að hann stóð einn. Ekki af því að hann væri vondur maður. Heldur vegna þess að enginn þorði lengur að standa með þeim sem spurði:
Hversu mikið má ætlast til af venjulegu fólki áður en það brotnar?
Skömmin var orðin sterkari en þreytan.
Linda reyndi að leita eftir hjálp, hún sem alltaf hafði staðið með kerfinu, greitt sitt, stutt réttindabaráttur, greitt í sjóði og mætt á fundi. En kerfið hafði breyst. Forgangurinn var ekki lengur þeirra. Hann var annarra, þeirra nýkomnu, þeirra viðkvæmu. Hún var orðin forréttindaborgari, samkvæmt skilgreiningu sem hún hafði aldrei beðið um, þótt hún svæfi nú á gólfinu, á milli ókunnugra veggja í eigin húsi.
Þegar hún grét í símtali við félagsráðgjafa fékk hún kurteislegt svar:
Við verðum að forgangsraða með mannúð og umburðarlyndi að leiðarljósi.
Það var sagt með rólegri rödd, eins og hún væri ósanngjörn að biðja um eitthvað. Eins og hennar neyð væri ekki nægilega siðferðilega rétt.
Og á meðan ástandið versnaði heima fyrir, meðan börnin lokuðu sig af, Óskar þagnaði og hún sjálf horfði á tilveruna leysast upp í þögn, þá héldu þau áfram að hlýða. Ekki af því þau vissu ekki betur, heldur af því þau þorðu ekki lengur að spyrja. Því allir sem spurðu voru stimplaðir. Útskúfaðir. Úthýst af samfélaginu, sem óvinir réttlátrar framtíðar.
Svo kom dagurinn.
Óskar mætti ekki til vinnu. Hann sat á rúmstokknum, hreyfingarlaus, horfði út í tómið með augum sem höfðu slokknað. Hann hafði ekkert meira að gefa. Linda reyndi að fá tíma hjá lækni fyrir hann, enginn laus tími í sex mánuði. Hún reyndi fyrir börnin, en þau höfðu vikið frá plássinu. Annar hópur, önnur forgangsröðun. Það var þeirra röð núna.
Allur heimurinn virtist hafa farið fram hjá þeim, og tekið heimilið þeirra með sér.
Um kvöldið bankaði aftur á dyrnar. Ekki með hávaða, heldur með sjálfsögðu yfirbragði.
Nýir aðilar. Nýr réttur. Ný skylda.
Og Linda stóð kyrr. Hún vissi. Ef hún segði nei núna, ef hún lokaði dyrunum, þá myndi enginn vorkenna henni. Enginn myndi hlusta.
Það eina sem hún myndi fá, væri stimpill.
Þannig brotnaði heimili þeirra.
Ekki af illvilja, ekki af ómannúð, heldur af þeirri byrði að þora ekki að segja nei.
Ekki vegna haturs, heldur vegna samfélagslegrar skömm og úthýsingar sem þau óttuðust meira en allt annað.
Skömm sem þau þorðu ekki að takast á við, og þögðu, þar til allt varð hljótt.
Þögnin þeirra var ekki samviskubit. Hún var sjálfsbjargarhvöt.
En hún kom of seint.
Spurningin er:
Hversu lengi getur venjulegt fólk þagað, borgað, hlýtt og gefið, áður en það má loksins spyrja:
Hvað með okkur?
Miðvikudagur, 4. júní 2025
Rasisti eða landvörður?
(Pistill 5 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um) Ef það að verja þjóð sína er rasismi, hvað kallast það þá að vinna gegn henni?
Undanfarin ár hefur orðið rasisti orðið eitt áhrifamesta og jafnframt misnotaðasta skammaryrði í vestrænni umræðu. Því er nú beitt gegn hverjum þeim sem tjáir sig um málefni sem áður töldust til eðlilegrar samfélagsumræðu: innflytjendamál, þjóðarvitund, sameiginleg gildi og tengsl eða öryggi ríkisins. Ekki vegna haturs, heldur einfaldlega vegna þess að viðkomandi leyfði sér að spyrja:
Hvernig tryggjum við framtíð þjóðarinnar og öryggi almennings?
Orð sem þagga
Stimplun sem rasisti er ekki lengur takmörkuð við þá sem aðhyllast kynþáttahyggju eða hvetja til haturs. Hún beinist nú að:
- Fólki sem vill að innflytjendur aðlagist menningu landsins
- Einstaklingum sem hafa áhyggjur af öryggi eða kostnaði í velferðarkerfinu
- Þeim sem vilja ræða tölfræði um glæpatíðni eða menningarárekstra
- Rithöfundum, fræðimönnum og stjórnmálamönnum sem spyrja erfiðra, en löglegra spurninga
Þetta er ekki tjáningarfrelsi. Þetta er ekki lýðræði. Þetta er stýrt þöggunarkerfi, þar sem siðferðileg útilokun tekur við af rökum og skynsemi.
En hvað með hina?
Á sama tíma og þjóðrækni er úthrópuð sem rasismi, njóta andþjóðleg sjónarmið aukinnar virðingar. Þeir sem:
- Afneita tilvist þjóðríkja sem nauðsynlegra eininga
- Gera lítið úr eigin menningu eða krefjast þess að hún víki
- Sýna óþreytandi virðingu fyrir öllum þjóðum nema sinni eigin
...eru hylltir sem framsæknir hugsuðir. Þeir fá sviðsljós, styrki og virðingu, jafnvel þegar stefna þeirra beinist að því að gera þjóð sína ógreinanlega, óbundna og að lokum óþarfa.
Ef sá sem ver þjóð sína er kallaður rasisti á þá sá sem vinnur gegn henni ekkert heiti yfir sína afstöðu?
Er það ekki í það minnsta andþjóðlegt? Og í vissum tilvikum: föðurlandssvik?
Tvöfalt siðferði
Í lýðræðissamfélagi hlýtur að vera leyfilegt að gagnrýna opinbera stefnu. Það hlýtur að mega ræða hvernig við tryggjum samstöðu, hvernig við mótum framtíð án þess að rýra sjálfsmynd. Þjóðríki eru ekki tilviljun, þau eru söguleg, menningarleg og tilfinningaleg samheldni sem hefur byggst upp í aldaraðir.
Að verja hana er ekki hatursverk það er ábyrgð.
Niðurstaða: Vörn er ekki árás
Að elska þjóð sína er ekki hatursorðræða.
Að vilja verja menningu sína er ekki kynþáttafordómar.
Að gagnrýna stefnu er ekki öfgahyggja.
Ef það að verja þjóð sína er rasismi hvað kallast það þá að vinna gegn henni?
Kannski er kominn tími til að við snúum spurningunni við.
Ekki: Af hverju ertu svona þjóðrækin/n?
Heldur:
Af hverju ert þú það ekki?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. júní 2025
Réttarsakamál gegn einstaklingum fyrir skoðanir: Þegar frelsið sjálft fer í réttarsal
(Pistill 4 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um) Þegar skoðanir verða sakarefni þá er ekki lengur frjálst samfélag.
Við höfum lengi litið á Evrópu sem vígi lýðræðis og tjáningarfrelsis. En undir formerkjum laga gegn hatursorðræðu, mismunun og óvísindalegum skoðunum eru nú einstaklingar dæmdir ekki fyrir hótanir, heldur fyrir að hugsa á annan hátt.
Tommy Robinson Þú mátt fjalla um málin, nema þau sem snerta yfirvöld
Tommy Robinson, raunverulegt nafn Stephen Yaxley-Lennon, hefur tvívegis setið í fangelsi ekki fyrir ofbeldi, heldur fyrir að fjalla um dómsmál sem stjórnkerfið vildi halda í skugga.
Árið 2024 var Tommy Robinson dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að birta heimildarmynd sem afhjúpar hvernig yfirvöld og fjölmiðlar brugðust við kynferðisbrotamálum tengdum innflytjendum.
Þetta er myndin sem hann var fangelsaður fyrir. Taktu þér tíma, horfðu og dæmdu sjálf(ur): Tommy Robinson Silenced (YouTube)
Í opinberum dómi segir:
The court finds Mr. Yaxley-Lennon disregard for judicial authority as a threat to public confidence in the rule of law.
En hver veldur meira vantrausti, sá sem segir frá yfirhylmingu eða sá sem þaggar niður í honum?
Heimildir:
The Guardian: Tommy Robinson jailed for 18 months after admitting contempt of court
AP News: Founder of far-right English Defense League gets 18 months in prison for court contempt(theguardian.com, apnews.com)
Päivi Räsänen Þegar Biblíuvers verða kæruefni
Hvað gerist þegar þingmaður vitnar í ritninguna? Í Finnlandi var læknirinn og fyrrum innanríkisráðherrann Päivi Räsänen ákærð fyrir hatursorðræðu, vegna þess að hún tísti eftirfarandi:
How does the Churchs support of Pride align with the Word of God?
Í ákærunni sagði saksóknari að ummælin væru:
Likely to cause intolerance and contempt against sexual minorities.
Þetta var hvorki áróður né ögrun, heldur einfaldlega kristileg skoðun byggð á siðferðislegri sannfæringu. Räsänen var sýknuð í héraðsdómi, en ákæruvaldið áfrýjaði og mál hennar var tekið fyrir af Hæstarétti Finnlands árið 2025. Þrátt fyrir sýknu beittu yfirvöld þrýstingi áfram. Það dugði ekki að hún hefði ekki brotið lög, því það var pólitískt mikilvægt að refsa eða gefa fordæmi.
Heimildir:
ADF International: Finnish parliamentarian found not guilty of 'hate speech' for Bible tweet
ADF International: Bible-tweet case to be heard at Finnish Supreme Court(adflegal.org, adfinternational.org)
Enoch Burke Fangelsaður fyrir að mæta til vinnu
Á Írlandi var Enoch Burke, kristinn kennari, fangelsaður, ekki fyrir ofbeldi eða hótanir, heldur fyrir að neita að nota nýtt fornafn nemanda. Hann fylgdi einfaldlega eigin trúarlegri sannfæringu og hélt áfram að mæta til vinnu eftir að hafa verið settur í leyfi, án þess að brjóta neitt annað en valdakerfið sem krafðist undirgefni.
Þegar hann neitaði að yfirgefa skólann, í samræmi við trúarlega sannfæringu sína, var hann dæmdur fyrir dómstólsfyrirlitningu. Hann sat mánuðum saman í fangelsi og var sektaður um 79.000, sem yfirvöld tóku beint af bankareikningi hans, án samþykkis eða dómsúrskurðar um eignaupptöku.
Dómari sagði:
This is not about beliefs its about disobeying a lawful order.
En hvaðan kom sú skipun? Hún kom frá menntastofnun sem krafðist þess að einstaklingur svíki eigin samvisku, og fékk síðan dómstóla landsins til að framfylgja henni.
Heimildir:
Reuters: Irish teacher jailed for third time for breaching court order
AP News: Irish teacher jailed for third time after defying order to stay away from school(reuters.com, apnews.com)
Kathleen Stock Rekin fyrir að hugsa rökrétt
Prof. Kathleen Stock var heimspekingur við University of Sussex. Hún hélt því fram að kyn væri ekki eingöngu félagslegt hugtak, og talaði fyrir vernd rýma sem ætluð voru eingöngu konum. Fyrir það mætti hún ofbeldi, hótunum og mótmælum.
Á endanum sagði hún af sér og lýsti háskólasamfélaginu sem
miðalda dómstóli þar sem rétttrúnaður ræður, ekki rök.
Breska háskólaráðuneytið sektaði stofnunina síðar, ekki fyrir að vera ósammála skoðunum hennar, heldur fyrir að bregðast skyldu sinni til að vernda rétt hennar til að tjá þær án ógnana, útilokunar eða ofbeldis.
Þetta gerðist í lýðræðisríki, þar sem engin formleg lög voru brotin, en þar sem hugmyndafræðilegt ofbeldi bar sigur.
Heimildir:
The Guardian: University of Sussex fined £585,000 for failing to uphold freedom of speech
Lawyer Monthly: University of Sussex Fined £585,000 for Free Speech Violation(theguardian.com, lawyer-monthly.com)
Wojciech Sadurski Þegar stjórnvöld höfða mál gegn gagnrýni
Wojciech Sadurski, virtur stjórnlagaprófessor við Háskólann í Varsjá og Sydney, var kærður fyrir meiðyrði af pólsku ríkisstöðinni TVP og valdhöfum í stjórnarflokknum PiS, einfaldlega fyrir að gagnrýna valdbeitingu stjórnvalda og kalla ríkisfjölmiðlana það sem þeir í reynd eru: áróðursverkfæri ríkisins. Hann hafði sagt einfaldlega:
Polish public media are an instrument of propaganda.
Fyrir þessi orð var hann kærður fyrir meiðyrði, af ríkisfjölmiðli sem notaði dómskerfið til að bregðast við pólitískri gagnrýni með lagalegri þöggunartilraun.
Málið vakti alþjóðlega athygli og mannréttindasamtök lýstu því sem:
A textbook case of strategic litigation against public participation (SLAPP).
Málið gegn Wojciech Sadurski var ekki hefðbundin meiðyrðakæra, heldur dæmigerð SLAPP-málsókn, markviss aðför að tjáningarfrelsi þar sem réttarkerfið er notað sem vopn til að kæfa gagnrýni og hræða aðra til þöggunar.
Þegar virtur stjórnlagaprófessor má ekki segja að ríkisfjölmiðlar hegði sér eins og áróðursvél án þess að vera dreginn fyrir dóm, þá er ekki lengur verið að verja orð. Þá er verið að refsa fyrir þau.
Og þessi skilaboð eru ekki tilviljanakennd. Þau eru kerfisbundin og einföld:
Ekki gagnrýna vald. Ekki stíga fram. Næst ert það kannski þú.
Þetta er hin nýja ritskoðun, ekki beitt með ritskoðunarstimpli, heldur í gegnum málaferli og lagalega óvissu.
(Hvað eru SLAPP-mál?
SLAPP stendur fyrir Strategic Lawsuit Against Public Participation. Þetta eru málsóknir sem eru ekki höfðaðar til að vinna, heldur til að bregða skugga á þá sem tjá sig, með fjárhagslegum, sálrænum og samfélagslegum þrýstingi. Þeir sem lenda í þeim eru oft:
- Blaðamenn og ritstjórar
- Fræðimenn
- Mannréttindasinnar
- Umhverfisverndarfólk
- Pólitískir andófsmenn
Með langvinnum ferlum, háum kostnaði og óvissu er byrðin færð yfir á þann sem gagnrýnir, jafnvel þótt málið byggi ekki á traustum lagagrundvelli. Þetta er valdbeiting í dulargervi réttlætis.)
Heimildir:
ARTICLE 19: Poland: Court of Appeal dismisses SLAPP lawsuit against Professor Wojciech Sadurski
ARTICLE 19: Poland: The Court acquits Professor Wojciech Sadurski in a criminal defamation lawsuit(article19.org, article19.org)
Kerfisbundin kæling ekki mistök, heldur stefna
Þetta eru ekki einangruð atvik eða tilviljanakennd mistök. Þetta er markviss kæling á umræðu, mótuð af lögum, reglugerðum og réttarstefnu sem gerir gagnrýni að áhættu.
Segðu eitthvað sem fer gegn línunni og lögfræðingurinn fær orðin þín í hendurnar.
Of oft er mönnum sagt:
Auðvitað máttu hafa skoðun en ekki ef hún móðgar einhvern.
En tjáningarfrelsi sem gildir aðeins fyrir vinsælar, samþykktar skoðanir er ekki frelsi, heldur leyfi, veitt af þeim sem eru við völd. Og leyfi má alltaf afturkalla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. maí 2025
Tjáningarfrelsi í skugga stafrænna risa: Hver ræður umræðunni?
(Pistill 3 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um) Undanfarin ár hafa tæknirisarnir Meta (Facebook), Google (YouTube), X (Twitter) og TikTok öðlast áhrifastöðu sem jafnast á við stórveldi. Þeir stjórna ekki aðeins því hver fær að tala, heldur líka hvernig, hvenær og með hvaða orðalagi. Upphaflega voru þessir vettvangar kynntir sem opin torg lýðræðisins. En í dag gegna þeir hlutverki eftirlitsaðila, túlka og dómara. Þeir ritskoða ekki lengur aðeins samkvæmt eigin reglum, heldur í vaxandi mæli í samstarfi við evrópsk stjórnvöld og stofnanir. Þannig verða þeir miðlar, sem áður voru tæki almennings til tjáningar, að tækjum stjórnvalda til skilyrtra samskipta.
Hvernig tæknirisarnir urðu netlögregla Evrópu
Fyrstu skrefin voru tekin árið 2016 þegar helstu samfélagsmiðlar undirrituðu hegðunarreglur gegn hatursorðræðu í samstarfi við Evrópusambandið. Fljótlega komu lög eins og NetzDG í Þýskalandi, sem ákváðu einfaldlega að ef Facebook, Twitter, YouTube o.fl. fjarlægðu ekki "ólöglegt efni" innan 24 klukkustunda, mættu þau búast við sektum upp á allt að 50 milljónir evra.
Árið 2022 setti Evrópusambandið á laggirnar Digital Services Act (DSA), umfangsmikla og bindandi reglugerð sem skuldbindur stafræna vettvanga til að innleiða skilvirk, skýr og rekjanleg kerfi til að greina og fjarlægja efni sem talið er ólöglegt, hættulegt eða samfélagslega skaðlegt. DSA kveður á um að fyrirtækin verði að svara innan skamms tíma beiðnum frá svokölluðum traustum aðilum, s.s. netlögreglu, embættum ríkisins, stjórnvöldum eða sérstökum eftirlitsstofnunum. Slíkar beiðnir ná til efnis sem telst fela í sér hatursorðræðu, hvatningu til hryðjuverka, heilsufarslegar rangfærslur eða tjáningu sem er talin grafa undan lýðræðislegum gildum. Þau fyrirtæki sem verða ekki við þessu standa frammi fyrir sektum sem geta numið allt að 6% af veltu eða takmörkunum á starfsemi innan ESB. DSA krefst jafnframt að fyrirtækin haldi skrá yfir allar slíkar aðgerðir, geri viðeigandi útskýringar opinberar, og stuðli að gagnsæi, þó í framkvæmd hafi þessi upplýsingagjöf til almennings verið afar takmörkuð og óljós.
Margir tæknirisarnir tóku sjálfir frumkvæði að samstarfinu, jafnvel áður en þeir urðu lagalega skyldugir til þess. Facebook stofnaði sérstakt ritskoðunarteymi í Þýskalandi, YouTube virkjaði gervigreindarkerfi til að skanna og taka niður umdeilt efni, og Twitter (X), eftir að Elon Musk tók við, lenti strax í átökum við Evrópusambandið. Thierry Breton, framkvæmdastjóri innan ESB og helsti ábyrgðarmaður Digital Services Act, minnti Musk opinberlega á að Twitter væri bundið evrópskum lögum og bæri ábyrgð á að fjarlægja ólöglegt efni og hindra útbreiðslu rangfærslna. Breton sagði: Þú getur ekki látið eins og þú sért í villta vestrinu á evrópskum markaði. Áhyggjur höfðu vaknað um að ný stefna Musk sem fól í sér aukið tjáningarfrelsi og endurheimt lokaðra reikninga gæti stangast á við DSA. Ef Twitter fylgdi ekki reglunum, stóð fyrirtækið frammi fyrir hárri veltusekt og jafnvel takmörkunum á starfsemi sinni innan Evrópu.
Raunveruleg dæmi og raunveruleg afleiðing
Árið 2018 lokaði Twitter á reikning þýska tímaritsins Titanic eftir að það birti skopmynd sem gerði gys að rasískum ummælum þingmanns. Sjálfvirkt kerfi Twitter flokkaði póstinn sem hatursorðræðu. En hann var í raun gagrýni og háð. Ákvörðunin vakti reiði: Hver má gagnrýna hvern? Hver má skopast að valdi? Og hver tekur ákvörðunina? algóritmi? Stjórnvald? Eða bæði?
Eftir að stríðið í Úkraínu hófst, tók Evrópusambandið þá fordæmalausu ákvörðun að banna rússnesku ríkismiðlana RT og Sputnik innan ESB. Þetta var í fyrsta sinn sem sambandið beitti formlegum lögum til að útiloka fjölmiðla að fullu, með rökstuðningi um að þeir væru áróðursvettvangar í þágu stríðsreksturs. Öll stærstu netfyrirtækin, Google, Meta, TikTok og Twitter fylgdu skipuninni samstundis, lokuðu aðgangi Evrópubúa að þessum miðlum og fjarlægðu jafnvel eldri efni þeirra af vefsíðum og leitarkerfum. Þó tilgangurinn hafi verið talinn réttlætanlegur í ljósi stríðsins, markaði þessi ákvörðun skýrt brot á fyrri reglu: hér var ekki um huglægt mat eða sjálfvirka síu að ræða, heldur beina pólitíska ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB, framkvæmd í gegnum einkaaðila sem hefur mikið vald yfir upplýsingaflæði til almennings.
Sjálfvirkni, notendavöktun og "stafrænt svigrúm"
Stærsti hluti þessarar ritskoðunar fer fram í þögn. Sjálfvirk síukerfi, byggð á gervigreind, skanna milljónir færslna á sekúndu og meta innihald þeirra á grundvelli huglægra viðmiðana sem eru oft eru ekki sýnileg. Setningar eins og COVID lygi voru fjarlægðar sjálfkrafa á fyrstu stigum faraldursins, þar sem slíkar kenningar þóttu ganga gegn ráðandi sjónarmiðum stjórnvalda. Þegar slíkar fullyrðingar síðar fengu vísindalega umfjöllun og jafnvel stuðning, höfðu upprunalegu færslurnar löngu horfið og engin leið var að endurheimta þær. Þannig mótast minnið og umræðan af stýrðri forritun, byggðri á fyrirfram ákveðnum forsendum sem skilgreina hvað fær að lifa í umræðunni og hvað hverfur úr sögunni.
En sjálfvirknin starfar ekki ein og sér. Í síauknum mæli grípa einstaklingar sjálfir inn í umræðuna með því að taka að sér hlutverk óformlegrar netlögreglu. Ekki endilega vegna brota á lögum eða reglum, heldur af pólitískri samstöðu, eigin sannfæringu eða einfaldlega tortryggni. Þessir notendur merkja færslur sem hatur, rangfærslur eða hættulegt efni og valda þannig því að síukerfin virkjast. Algóritmarnir eru hannaðir til að bregðast hratt við slíkum tilkynningum, án þess að greina á milli skaðlegra og löglegra skoðana. Lögleg umræða getur því horfið, einfaldlega vegna kvartana. Færsla hverfur, reikningur lokast, og enginn veit hver kvartaði, né á hvaða forsendum. Það ríkir þögn sem enginn einstaklingur ber fulla ábyrgð á, en samfélagið viðheldur samtímis, með vanrækslu, samvinnu og ómeðvitaðri þátttöku.
Sama má segja um umræðu um loftslagsmál, bóluefni, innflytjendamál og meginstefnur vestrænna stjórnvalda. Þegar umræðan sker þvert á ríkjandi hugarfar eða andrúmsloft sem litað er af pólitískum gildum og viðkvæmni, grípur kerfið inn, hvort sem það gerist með beinum hætti (í gegnum lög og reglugerðir), óbeint (með þrýstingi frá yfirvöldum) eða með því að skapa andrúmsloft þar sem ákveðnar skoðanir teljast óæskilegar. Þessu má líkja við stjórn á upplifun: val á því sem sést og heyrist, til að viðhalda ákveðinni ímynd og forðast umræðu sem gæti skapað óþægindi, tortryggni eða mótstöðu.
Tjáningarfrelsisspurningin
Þetta samstarf stjórnvalda og tæknirisa kallar fram grunnspurningu: Hver ræður tjáningu í okkar tíma?
Ef ríkisvald hefur ekki bein afskipti, en stórfyrirtæki framkvæma ritskoðun af ótta við sektir, lagalega ábyrgð eða í kjölfar beinna tilmæla stjórnvalda, má þá tala um raunverulegt tjáningarfrelsi? Þegar fyrirtæki framkvæma ritskoðun fyrir hönd ríkisins, án þess að lagaframkvæmd sé opinber eða andmælaréttur tryggður, verður frelsið að nafninu einu. Þá er það ekki lengur val einkaaðila, heldur óformleg framlenging af ríkisvaldi sem starfar í gegnum einkafyrirtæki sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð.
Notendur sem lenda í banni á Facebook fá sjaldnast að vita hvort um var að ræða brot á lögum, brot á samfélagsreglum, kvörtun frá yfirvöldum eða mistök gervigreindarinnar.
Afleiðingin er ekki aðeins sýnileg, bann, lokun, þöggun, heldur einnig ósýnileg og útbreidd. Hún birtist sem sjálfsritskoðun, óvissa og hljóðlátur ótti við afleiðingar. Þegar einstaklingur er ekki viss um hvort orð hans, spurningar eða gagnrýni séu leyfileg, fer hann að velja orð sín vandlega eða þegir alfarið. Færri tjá hugsanir sínar, færri deila upplýsingum, og sífellt fleiri hika við að segja það sem áður þótti eðlilegt. Smám saman dregur úr hugrekki, ekki vegna beinna refsinga, heldur vegna yfirvofandi óvissu. Þannig nær ritskoðun ekki aðeins til orðanna, heldur smýgur inn í meðvitund fólks, þar sem hún mótar hegðun áður en nokkur hefur talað.
Þögnin og reglurnar
Evrópa er að móta stafrænt umhverfi sem ætlað er að vernda borgara gegn hatri, rangfærslum og ofbeldi, markmið sem fáir eru ósammála. En þó tilgangurinn sé réttlætanlegur, þarf að staldra við og spyrja: Hverju erum við að fórna í leiðinni? Og hver ákveður hvað telst hatur, ósannindi eða ofbeldi, og í hvaða tilgangi?
Ef tjáningarfrelsinu er fórnað fyrir reglufestu, ef sannleikurinn má ekki heyrast fyrr en hann hefur fengið samþykki, og ef almenningur veit ekki af þeim afskiptum sem eiga sér stað bak við tjöldin, þá er netið ekki lengur frjálst svæði. Það hefur þá breyst í rími undir eftirliti, þar sem sýnilegt frelsi hylur ósýnileg mörk.
Og þegar tölurnar, reglurnar og síurnar hafa tekið við stjórn, er engu mótmælt sem enginn veit að hafi verið til. Það sem hverfur í hljóði, án þess að neinn taki eftir því, vekur enga andstöðu, aðeins hlédræga samvinnu.
Þess vegna ættum við öll að vakna. Og spyrja: Hver ritar reglurnar? Og fyrir hvern?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. maí 2025
Núverandi löggjöf um hatursorðræðu og upplýsingastýringu í Evrópu
(Pistill 2 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um) Þú mátt segja hvað sem er, nema það sem öðrum finnst óæskilegt
Við segjum oft: Auðvitað höfum við tjáningarfrelsi.
En hvað ef ég segi eitthvað sem einhver annar túlkar sem hatur?
Eða ef ég spyr spurninga sem einhver stofnun kallar upplýsingaóreiðu?
Eimitt þetta er að breytast í Evrópu. Ekki í einu lagi, heldur í röð af lögum, reglugerðum og samkomulögum sem smá saman þrengja að umræðu. Og fæstir átta sig á því eða þora ekki að segja það upphátt.
Þegar lögin snúa ekki lengur bara að glæpum, heldur skoðunum
Hugtakið hatursorðræða hjómar í fyrstu eins og eitthvað sem allir ættu að vera sammála um að stöðva. Enginn vill hatursfulla umræðu. En vandinn er að þetta hugtak er óljóst, og verður sífellt víðara.
Í dag er ekki bara verið að banna útlendingahatur, kynþáttaníð eða kynbundið ofbeldi í tali, heldur er gagnrýni á ákveðin stefnumál stundum líka flokkuð sem hatursorðræða.
Tökum dæmi:
- Spurningar um afleiðingar innflytjendastefnu? Hættuleg orðræða.
- Gagnrýni á kynjastefnu eða námskrár í skólum? Hatursorðræða.
- Skoðanir sem stangast á við ríkjandi nálgun á loftslagsmálum eða bóluefni? Geta verið skaðlegar.
Og þegar þetta er komið á þetta stig, þá er ekki lengur verið að vernda fólk gegn hatri.
Þá er verið að vernda valda hugmyndafræði gegn gagnrýni.
Lög sem þú kaust ekki en sem hafa áhrif á hvað þú mátt segja
Nýjar reglugerðir í Evrópu veita yfirvöldum og tæknifyrirtækjum áhrif á umræðuna, ritskoðun sem fer fram undir formerkjum ábyrgðar og öryggis
1. NetzDG ( Þýskaland )
- Samþykkt árið 2017. Skyldar samfélagsmiðla til að fjarlægja "ólöglegt efni" innan 24 klst. eða borga háar sektir.
- Vandinn: Hver ákveður hvað er ólöglegt? Ekki dómstóll, heldur fyrirtækið sjálft.
- Útkoman: Löglegar en óþægilegar skoðanir hverfa og samfélagsmiðlar fjarlægja frekar of mikið en of lítið, af ótta við sektir og refsiaðgerðir.
2. Digital Services Act (DSA Evrópusambandið)
- Tók gildi 2024. Markmið: vernda notendur gegn "skaðlegu efni".
- En hvað er skaðlegt?
- ESB getur krafist þess að efni sé fjarlægt, jafnvel þótt engin lög hafi verið brotin og byggt á þeirra túlkun á því hvað telst skaðlegt.
Stofnanir ESB hafa nú aðgang að bakenda samfélagsmiðla, þar sem þær og áhrifavaldar geta falið, takmarkað eða stimplað umræðu sem skaðlega.
Ef þú heldur að þetta snúist bara um hatursorðræðu, skoðaðu eftirfarandi:
- Umræða um afleiðingar bólusetninga → merkt sem rangfærsla
- Gagnrýni á innflytjendastefnu ESB → takmörkuð dreifing
- Gagnrýni á loftslagsráðstafanir → merkt sem villandi eða óábyrg umræða
- Skoðanir sem stangast á við ríkjandi stefnu → gerðar ósýnilegar
Sjálfritskoðun: Öflugasta form þöggunar
En það alvarlegasta eru ekki lögin sjálf.
Það er hvernig lögin og menningin breyta okkur sjálfum.
Tökum sem dæmi, þegar fólk:
- segir ekki það sem það hugsar
- þorir ekki að læka eða deila greinum
- þaggar niður eigin efasemdir
- hugsar: "Ég veit að ég mætti segja þetta, en kannski er betra að þegja."
- kennir sjálfu sér að segja minna til að forðast kastljósið
Þá er þöggunin orðin innvortis. Og þegar svo er, þá þarf enginn að ritskoða þig. Þú gerir það sjálf/ur.
Við vöxum ekki með samstöðu heldur með deilum
Lýðræði þarf átök hugmynda. Ekki samræmda hugsun.
Ekki samræmdan sannleika.
Ekki samræmda umræðu sem samþykkt hefur verið af Meta, ESB, Google, eða "æskilegum" vefstjóra.
Ef við ætlum að verja tjáningarfrelsið, verðum við að verja réttinn til að segja það sem er óvinsælt, óþægilegt, umdeilt og jafnvel særandi.
Því annars verður tjáningarfrelsi aðeins frelsi til að segja það sem enginn mótmælir. Og þegar enginn óttast skoðanir, af því enginn þorir að segja þær, þá er þöggunin orðin fullkomin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. maí 2025
Hvernig varð tjáningarfrelsi að grundvallarrétti og af hverju er það nú í hættu?
(Pistill 1 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um). Við hugsum oft um tjáningarfrelsi sem eitthvað sjálfsagt. Rétturinn til að segja það sem maður hugsar, gagnrýna valdhafa, skiptast á skoðunum, efast, spyrja, vekja umræðu, þetta tilheyrir lýðræðisþjóðfélagi. Það er súrefni samfélagsins.
En þetta frelsi kom ekki til okkar sem gjöf.
Það varð til í sársauka. Í skugga stríðs, ritskoðunar og ótta. Það varð til vegna þess að fólk vissi hvernig það er að búa í samfélagi þar sem ekkert má segja.
Og það sem fæstir átta sig á: þetta sama frelsi, sem Evrópa barðist fyrir í áratugi, er í dag að veikjast, ekki í einum hvelli, heldur í rólegheitum. Í nafni góðra markmiða.
Eftir stríðið: Þegar Evrópa sagði aldrei aftur
Eftir gjöreyðingarstríðið 19391945, með ritskoðun, þöggun andófs og niðurbroti sjálfs hugsunarfrelsis, sögðu þjóðir Evrópu: Aldrei aftur.
Það var ljóst að lýðræði og mannréttindi eru ekki sjálfgefin. Þau þurfa að vera skráð, vernduð og minnt á þau.
Þess vegna var árið 1950 undirritaður Mannréttindasáttmáli Evrópu. Þar var kveðið á um margt, rétt til lífs, vernd gegn pyndingum, og réttláta málsmeðferð.
En líka: tjáningarfrelsi. Í 10. grein stendur að hver maður eigi rétt á að tjá sig, að veita og þiggja upplýsingar, án afskipta yfirvalda.
Og síðar bætti Evrópudómstóllinn við:
Tjáningarfrelsi á ekki aðeins við um hugmyndir sem fallið geta í kramið heldur líka þær sem móðga, hneyksla eða stuða.
Það er kjarninn í frjálsu samfélagi.
Því samfélag sem þolir ekki að heyra það sem það vill ekki heyra, þolir í raun ekkert nema samhljóm.
En frelsið fékk líka skorður
Evrópa vissi líka af biturri reynslu að orð geta kveikt í heilu samfélagi.
Að frjáls tjáning má ekki verða frjálst að hatast.
Þess vegna tóku mörg ríki upp strangari lög en t.d. Bandaríkin. Þýskaland bannaði nasískan áróður og afneitun helfararinnar. Frakkland og Austurríki settu sambærilegar takmarkanir.
Markmiðið var réttmætt:
Að koma í veg fyrir að orð yrðu vopn til útrýmingar. Að sögulegur hryllingur endurtæki sig ekki með því að leyfa sömu hugmyndum aftur að taka rætur, undir verndarvæng frelsis.
Þetta var ekki vantrú á frelsi. Þetta var varúð. En varúð getur snúist í ofvarkárni.
Tjáningarfrelsi sem jafnvægi milli hugrekkis og ábyrgðar
Í Evrópu hefur tjáningarfrelsi alltaf verið frelsi með ábyrgð.
- Þú mátt segja það sem þú vilt en þú mátt ekki hvetja til ofbeldis.
- Þú mátt gagnrýna trúarbrögð en ekki kalla til útrýmingar.
- Þú mátt ögra en ekki misnota.
- Þetta hljómar eins og heilbrigt jafnvægi.
Og lengi vel virkaði það. Umræðan blómstraði. Gagnrýnin hugsun fékk rými. Margt var deilt um, margt þoldi dagsljós. Lýðræðið varð sterkara með því að leyfa ólíkar skoðanir, líka þær sem fóru gegn straumnum.
En eitthvað hefur breyst...
Á síðustu árum hefur þetta jafnvægi farið að hallast.
Hugtökin sem áður voru til verndar, eins og hatursorðræða, upplýsingaóreiða eða skaðlegt efni hafa víkkað út.
- Það sem áður var bara ögrandi skoðun er í dag kallað óábyrgt.
- Það sem áður mátti deila um er í dag merki um öfga.
Þessi breyting á sér stað alls staðar:
- Í nýrri löggjöf sem þrengir ramma umræðu á netinu
- Í samstarfi stjórnvalda og samfélagsmiðla sem stýra sýnileika
- Í fjölmiðlum sem forðast umdeild viðfangsefni af ótta við skítkast
- Í háskólum þar sem ögrandi skoðanir þola ekki lengur dagsljósið
- Og hjá venjulegu fólki sem lærir að segja minna, bara til að eiga frið
Við köllum það oft virðingu, samfélagsábyrgð, öruggt rými en stundum er þetta einfaldlega þöggun.
Og það gerist án þess að við tökum eftir því
Það hættulegasta er ekki beint bann á tjáningu einstaklingsins. Það hættulegasta er hversu eðlilegt þetta fer að virðast.
Við segjum:
- Auðvitað á að passa að enginn móðgist.
- Auðvitað á að fjarlægja villandi upplýsingar.
- Auðvitað má ekki dreifa óábyrgum skoðunum.
Og smám saman hættum við að spyrja:
En hver ákveður hvað er móðgandi? Hver skilgreinir hvað er villandi? Hver hefur rétt á að þagga niður?
Þetta skiptir öllu máli
Tjáningarfrelsi er ekki lúxus. Það er ekki einhvers konar auka krydd í lýðræðissamfélagi.
Það er súrefnið.
Án þess getum við ekki rætt lausnir. Við getum ekki sagt frá ranglæti. Við getum ekki andmælt valdinu.
Við getum ekki vaxið sem samfélag, heldur einungis þagað, samþykkt og fylgt eftir.
Og sú staðreynd að þessi þróun gerist á friðartímum, í nafni öryggis, kurteisi og ábyrgðar, gerir hana bara hættulegri.
Þetta er ástæða þess að ég skrifa þessa röð færslna.
Við þurfum að rifja upp hvers vegna við fengum tjáningarfrelsi í upphafi.
Hvers vegna það var svo mikilvægt að tryggja að enginn gæti stjórnað umræðunni, slökkt á röddum eða mótað sannleikann eftir hentugleika.
Og því þurfum við að spyrja sjálf okkur:
Erum við að verja frelsið eða hjálpa til við að afnema það, brosandi, í nafni upplýsingaöryggis og mildrar umræðu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. maí 2025
Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um
Við teljum okkur búa í frjálsum, opnum og lýðræðislegum samfélögum þar sem rétturinn til að tjá skoðanir sínar á að vera er sjálfsagður. En á undanförnum árum hafa æ fleiri Evrópubúar og líka Íslendingar, farið að þegja.
Þeir segja minna. Þeir skrifa varlega. Þeir láta ekki í ljós efasemdir eða skoðanir sem kunna að stangast á við ríkjandi línu, ekki endilega vegna þess að þeir hafi rangt fyrir sér, heldur vegna þess að þeir hræðast viðbrögðin:
missa vinnuna, verða stimplaðir, kallaðir öfgafullir, útilokaðir eða jafnvel bannaðir.
Og það sem verra er: Almenningur veit oft ekki lengur hvar línan liggur, því hún færist stöðugt lengra.
Er tjáningarfrelsið enn til staðar, ef enginn þorir að nota það?
Hvers vegna hverfa saklausar færslur af netinu, þótt þær brjóti engin lög? Hvers vegna eru ákveðnar spurningar um faraldra, innflytjendamál, Evrópusambandið, jafnréttisstefnu eða trúarbrögð nánast orðnar óumræðanlegar nema með fyrirfram samþykktri afstöðu?
Og hvers vegna spyr enginn fjölmiðlanna: Hvað má í raun segja og hver ákveður það?
Þetta er ekki ímyndun heldur róleg bylting
Á næstunni mun ég birta röð bloggfærslna þar sem ég rek á eftirtektarverðan og vanræktan sannleika:
Tjáningarfrelsið í Evrópu er að minnka, hægt og hljótt, og nánast enginn fjallar um það.
Þróunin er ekki augljós, því hún á sér stað í smáum en ákveðnum skrefum. Undir yfirskini baráttu gegn hatursorðræðu, rangfærslum og samfélagslegum ógnum hafa ríki, alþjóðastofnanir og tæknirisarnir byggt upp kerfi sem stýrir því hvað má segja, hver má segja það, og hvenær.
Í þessum greinaflokki mun ég meðal annars fjalla um eftirfarandi atriði:
- Löggjöf og reglugerðir eins og Digital Services Act (ESB) og NetzDG (Þýskaland), sem gera samfélagsmiðla að lögbundnum ritskoðunarvettvangi.
- Hvernig stjórnvöld og alþjóðastofnanir hafa fundið leiðir til að þagga niður gagnrýni, ekki með því að banna skoðanir beint, heldur með því að útvista ritskoðun til fyrirtækja.
- Hlutverk tæknirisa á borð við Meta, YouTube, Google og TikTok, sem í síauknum mæli stjórna því hvaða rödd fær að heyrast og hvaða rödd deyr út í þögn.
- Raunveruleg dæmi um löglegar, en óþægilegar skoðanir sem eru teknar niður, merktar villandi eða gerðar ósýnilegar, jafnvel þótt þær byggist á opinberum gögnum eða vísindalegri umræðu.
- Sjálfritskoðun og félagslegur þrýstingur, sem veldur því að venjulegt fólk hættir að tala. Þú mátt segja skoðun þína, en þú mátt bera afleiðingarnar einn.
- Og loks: Afleiðingarnar fyrir lýðræðið sjálft. Hvað gerist þegar aðeins samþykkt sjónarmið fá að lifa? Þegar fjölræði víkur fyrir samhljómi? Þegar hræðslan við að segja eitthvað rangt verður sterkari en viljinn til að segja það sem er satt?
Þetta er ekki kenning. Þetta eru staðreyndir.
Þetta er ekki huglægt mat. Það eru til skýr gögn, staðfest lög, opinberar tilskipanir, tilvísanir í dóma, samninga og skýrslur sem sýna hvernig hugtök eins og upplýsingastjórnun, öruggt stafrænt umhverfi og barátta gegn hatri eru notuð, oft af góðum ásetningi, til að móta ramma umræðunnar og útiloka skoðanir sem eru pólitískt, hugmyndafræðilega eða siðferðilega óæskilegar.
Það er ekki spurning um hvort tjáningarfrelsið sé að veikjast.
Heldur hvort við tökum eftir því í tæka tíð.
Fyrsta færslan birtist á mörgun. Hún fjallar um uppruna tjáningarfrelsis í Evrópu:
Hvernig varð þetta frelsi að grundvallarrétti, og af hverju er það nú aftur í hættu?
Ef þú telur að umræðan í samfélaginu sé að þrengjast, þá hefur þú rétt fyrir þér. Ef þér finnst þú ekki lengur mega segja það sem þú hugsaðir áður, þá ertu ekki ein/n.
Tími er kominn til að tala um þetta, áður en við hættum alveg að tala.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. maí 2025
Við erum bara eldsneyti
Hvernig leiðtogar Hamas viðurkenna að fórna eigin fólki
Í umræðu um átökin milli Ísraels og Hamas eru menn fljótir að lýsa yfir samúð með þjáningu almennra borgara í Gaza. Það er eðlilegt. En það sem sjaldnar kemst á yfirborðið og ætti að fá miklu meiri athygli, eru bein ummæli leiðtoga Hamas, þar sem þeir viðurkenna sjálfir að þeir nota eigið fólk sem mannlega skildi, áróðursvopn eða hráefni í píslarvottamenningu samtakanna.
Þetta eru ekki ásakanir frá andstæðingum þeirra. Þetta eru viðurkenningar þeirra sjálfra.
Fyrir hvern líkama munu konur okkar fæða fleiri píslarvotta
Sami Abu Zuhri, maí 2025
Í viðtali sem birt var í maí 2025 lýsti háttsettur talsmaður Hamas, Sami Abu Zuhri, því yfir að mannfall væri í raun aukaatriði:
Fjöldi látinna skiptir ekki máli. Þeir sem deyja verður skipt út. Konur okkar munu fæða fleiri píslarvotta. Meira en 50.000 börn hafa fæðst í Gaza frá upphafi stríðsins.
MEMRI TV, 2025
Ummælin vöktu reiði meðal íbúa Gaza, sem lýstu því á samfélagsmiðlum að þeir væru ekki verndaðir heldur notaðir.
Við erum bara eldsneyti fyrir stríð þeirra.
New York Post, 20. maí 2025
Við notum konur og börn sem mannlega skildi
Fathi Hammad, Hamas MP, 2008
Í ræðu árið 2008 lýsti Fathi Hammad, þáverandi innanríkisráðherra Hamas, því hvernig konur og börn væru kerfisbundið notuð sem mannlegir skildir:
Fólk okkar er orðið að iðnaði. Dauðinn hefur orðið að iðnaði Konur okkar, börn og öldungar eru notuð sem skjöldur gegn sprengjuvélum Síonista.
MEMRI TV, 29. febrúar 2008
Hér er ekki verið að lýsa neyðarúrræði. Hér er lýst aðferð.
Þessi göng eru ekki fyrir almenning
Mousa Abu Marzouk, Hamas stjórnmálaleiðtogi, október 2023
Í viðtali við rússneska sjónvarpsstöðina RT sagði háttsettur leiðtogi Hamas:
Þessi neðanjarðargöng er ekki byggð fyrir borgara. Þær eru eingöngu til að vernda bardagamenn. Vernd borgara er á ábyrgð Sameinuðu þjóðanna og Ísraels.
MEMRI TV
Ef borgarar deyja, þá er það ekki okkar ábyrgð.
India Today, 30. október 2023
Þessi orð afhjúpa kaldan og skipulagðan skort á siðferðislegri ábyrgð.
Við hvetjum fólk til að standa gegn árásum með berum brjóstum
Sami Abu Zuhri, 2014
Í sjónvarpsviðtali árið 2014 lýsti Sami Abu Zuhri því sem sigri þegar fólk stendur sem mannlegur skjöldur:
Þetta er það sem við gerum og það hefur skilað árangri.
- Middle East Media Research Institute (MEMRI)
Það að lýsa mannlegum skildi sem árangursríkri hernaðarstefnu sýnir að viðkomandi hefur engin áform um að vernda eigin borgara.
Skólar, moskur og sjúkrahús sem hernaðarsvæði
Alþjóðleg mannréttindasamtök eins og Human Rights Watch og Amnesty International hafa ítrekað gagnrýnt Hamas fyrir að notfæra sér borgaralega innviði sem hernaðarlega skildi.
Hamas hefur ítrekað skotið eldflaugum úr íbúðarhverfum, skólum, moskum og jafnvel sjúkrahúsum meðvitað að stefna borgurum í hættu.
Human Rights Watch, 2009
Þetta er brot á alþjóðalögum og siðferðisleg martröð.
Hver þjónar hverjum?
Í stað þess að verja sína eigin þegna, virðast margir leiðtogar Hamas líta á þá sem hráefni í píslarvottahugmyndafræði, og sem áróðurstæki fyrir alþjóðasamúð.
Þeir kalla það frelsisbaráttu. En frelsi sem byggist á vísvitandi fórnum barna og óbreyttra borgara, er ekki frelsi. Það er grimmd.
Tími sannleikans
Það er ekki lengur Ísrael sem heldur því fram að Hamas fórni eigin borgurum. Það eru þeir sjálfir sem segja það. Og það eru borgararnir í Gaza sjálfir sem segja:
Við erum bara eldsneyti.
Við skuldum þeim meira en þögn. Við skuldum þeim sannleikann.
Og nú er kominn tími til að raddir fólksins, fjölmiðlar og alþjóðastofnanir geri það sem þeir ættu að hafa gert fyrir löngu:
að fordæma Hamas af fullri hörku.
Ekki með hálfkveðnum vísum. Ekki með undanbrögðum. Heldur með siðferðislegri staðfestu sem verndar þá sem enginn verndar.
Ef við hunsum vitnisburð þeirra sem lifa þetta á eigin skinni, þá höfum við brugðist.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 12:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 18. maí 2025
Karlmennska og skynsemi Tími til að hætta alhæfingum
Undanfarin ár hefur umræðan um karlmennsku orðið æ háværari og jafnframt einhliða. Hugtök á borð við eitruð karlmennska og feðraveldi eru orðin að einhliða skýringum á vanda samfélagsins, á sama tíma og sífellt fleiri telja sig þurfa að afsaka það eitt að vera karlkyns. En hér er grundvallaratriði sem margir þora ekki að segja upphátt: það er ekkert sem heitir eitruð karlmennska né heldur eitraður kvenleiki. Það er bara eitruð hegðun. Og hún getur birst hjá bæði körlum og konum.
Frá fordæmum til fordóma
Í gegnum vestræna sögu hefur karlmennska verið skilgreind sem dygð, ábyrgð og þjónusta:
Í Grikklandi fornu var andreía hugrekki og sjálfsagi talin dygð borgarans.
Í Róm var virtus ekki bara vald heldur siðferðileg ábyrgð.
Í kristinni arfleifð var þjónandi leiðtogi fyrirmynd karlsins.
Í nútíma lýðræðisríkjum var karlmennska tengd borgaravitund og fórnfýsi.
Í dag hefur þessi mynd verið afbökuð og í staðinn hefur rutt sér til rúms hugmyndafræði sem lítur á karlmennsku sem óvin samfélagsins. En slík nálgun er hvorki fræðilega heiðarleg né siðferðilega sanngjörn.
Hvers vegna skiptir þetta máli?
Ef við kennum ungum drengjum að karlmennska sé mein, þá skerum við á leið þeirra til sjálfsvirðingar. Strákar þurfa ekki að vera minna karlmennskir, þeir þurfa að vera heilbrigðir, ábyrgir og sterkbyggðir ekki brotnir og skammaðir fyrir kyn sitt.
Það sem við köllum eitruð karlmennska er í raun oft skortur á leiðsögn, fyrirmyndum, tilgangi og aga. Sama má segja um það sem kallað er eitraður kvenleiki það eru ekki kvenleikinn sjálfur sem er vandamálið heldur hegðun sem byggist á stýringu, bælingu, fórnarlambshlutverki eða tilfinningalegri stjórnun. Þetta er ekki eitraður kvenleiki, einfaldlega: eitruð hegðun.
Eitruð hegðun er mannleg, ekki kynbundin
Við verðum að hætta að líta á skaðlega hegðun sem einkennismerki tiltekins kyns. Eitruð hegðun er ekki karlleg eða kvenleg hún er mannleg. Hún birtist í mismunandi myndum:
Karlar geta beitt ofbeldi og það geta konur líka, bæði líkamlega og andlega.
Karlar geta verið stjórnsamir, fjarlægir og valdbeitingarmiklir en konur geta einnig beitt stjórnun, útilokun, baktali og félagslegri kúgun.
Konur geta nýtt tilfinningalega nánd til að stjórna rétt eins og karlar geta bælt eigin og annarra tilfinningar með hörku.
Eitruð hegðun getur verið hljóðlát eða hávær, líkamleg eða andleg, skýr eða lúmsk en hún er ekki kynbundin. Hún á rætur í skorti á sjálfsþekkingu, siðferðisvitund og heilbrigðum mörkum.
Mikilvægast er þetta: Við eigum að gagnrýna hegðun, ekki kyn. Ef við gerum það ekki, þá erum við ekki að leita lausna, heldur að festa í sessi kynbundna sekt og sundrung.
Innviðir samfélagsins Hin gleymda ábyrgð
Í umræðu um þriðju vaktina sem snýr að ósýnilegri umönnunarvinnu kvenna gleymist sú staðreynd að karlar axla meginábyrgð á innviðum samfélagsins:
Flest hlutverk sem halda rafmagnskerfum, sorphirðu, vegakerfi og grunnþjónustu gangandi eru karlmenn.
Þeir sinna störfum sem eru hættuleg, krefjandi og ósýnileg oft á kostnað heilsu og frítíma.
Þetta er ekki minna virðingarvert en ólaunuð vinna inni á heimilinu. Bæði skipta máli sérstaklega þar sem í dag sinna margir feður einnig heimilisverkum og taka virkan þátt í áhugamálum og daglegu lífi barnanna sinna.
Sálfræðin: Það sem karlar þurfa
Rannsóknir sýna að:
Strákar sem hafa föður eða fyrirmynd sem kennir þeim aga og tilgang eru líklegri til að sýna samkennd og ábyrgð.
Karlar sem fá viðurkenningu fyrir krafta sína verða ekki kúgarar heldur verndarar.
Það er ekki karlmennskan sjálf sem skapar vandamál heldur þegar samfélagið veitir engin viðmið, enga virðingu og enga leiðsögn.
Við þurfum nýja samtalsskrá ekki nýtt stríð
Það er kominn tími til að hætta þessari keppni um fórnarlambastöðu. Kynin eru ekki í stríði. Þau eru samverkandi og þau þurfa hvort annað!
Hættum að rífa niður karlmenn til að lyfta konum
Hættum að gera lítið úr framlagi kvenna og setja þær í ábyrgð á öllum tilfinningalegum þörfum sambandsins.
Hættum að skamma kyn og förum að ræða ábyrgð.
Hættum að byggja umræðu á sektarkennd og förum að byggja hana á virðingu.
Fyrir manneskjulega nálgun, ekki kynbundin skotmörk
Við eigum ekki að spyrja hvort karlmennska sé eitruð heldur hvort samfélagið okkar rækti dygð og ábyrgð. Það sem við þurfum er:
Heilbrigð karlmennska. Heilbrigður kvenleiki.
Sterka sjálfsmynd sem byggir á tilgangi og þjónustu ekki forréttindaflótta eða sektarkennd.
Vandamálið er ekki karlmennskan sjálf heldur hvernig við höfum afmyndað hana, afneitað dygðum hennar og kennt hana í neikvæðum búningi sem eitthvað varasamt eða skaðlegt.
Um bloggið
Hvers vegna spyr enginn af hverju?
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.9.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 435
- Frá upphafi: 9680
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 325
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar