Að kenna öðrum um er auðveldara en að læra

Þegar eitthvað fer úrskeiðis – hvort sem það er harmleikur, pólitík eða einfaldur misskilningur – þá spyrjum við ekki fyrst: „Hvað getum við lært?“ heldur: „Hverjum getum við kennt um?“ 

Þægindin við einföldu söguna

Það er sálfræðilega þægilegra að trúa því að heiminum sé stjórnað af einhverju illu valdi en að horfast í augu við tilviljanir, mannleg mistök og óreiðu.

Þegar sökudólgurinn er fundinn verður sagan einföld: svart á móti hvítu, engin óvissa.

Þetta veitir falskt öryggi – en leysir ekkert. 

Erfitt að segja „ég gerði mistök“

Við eigum erfitt með að játa eigin mistök. Það krefst auðmýktar og styrks sem samfélagið okkar metur ekki alltaf. Það er einfaldara að varpa ábyrgðinni á aðra – kerfið, stjórnmálamenn eða náungann. En án þessarar einföldu viðurkenningar lærum við ekki og vöxum ekki ekki sem einstaklingar eða samfélag.

Samfélag sem byggir á ákærum

Á samfélagsmiðlum og í pólitíkinni hefur leitin að sökudólgnum orðið að okkar íþrótt. Flokkar og áhrifavaldar græða á því að mála andstæðinginn sem „allt sem okkar líkar ekki, er honum að kenna.“ Samræðan verður þar af leiðandi ekki lengur leit að lausnum heldur stöðugum réttarhöldum. Í slíku andrúmslofti minnkar traust, samkennd – og hæfileikinn til að fyrirgefa. 

Lausnin er einfaldari en við höldum

Við þurfum að rifja upp og æfa okkur í fáeinum, en mikilvægum hlutum:

  • að segja „ég hafði rangt fyrir mér“ án þess að skammast okkar,
  • að spyrja „hvernig leysum við þetta?“ frekar en „hverjum kenni ég um?“
  • og síðast en ekki síst: að kunna að fyrirgefa – og biðjast fyrirgefningar. 

Að lokum...

Það er þægilegt að finna sökudólg. En það er hvorki skynsamlegt né uppbyggilegt.

Samfélag sem vill standa upprétt og sterkt þarf minna af ásökunum – og meira af ábyrgð, fyrirgefningu og lausnum.

Annars festumst við öll í eilífu sakamáli – í stað þess að lifa í samfélagi.


Að falla fyrir eigin leikreglum

Það er athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum vinstrisins í málinu um Jimmy Kimmel. Á samfélagsmiðlum er fullyrt að „Trump hafi tekið málfrelsið“ – eins og forsetinn sjálfur hafi hringt í ABC og fyrirskipað uppsögn hans. Slík framsetning er bæði óraunhæf og fáránleg. Heldur fólk í alvöru að leiðtogi stærsta ríkis heims hafi tíma og ekkert mikilvægara að gera en að sitja yfir kvöldþáttum og ritskoða brandara? Sú mynd segir meira um hugarheim gagnrýnenda en raunveruleikann.

Staðreyndirnar eru einfaldar:

  • Kimmel fór með brandara sem sprakk í andlitið á honum.
  • Stærstu dreifingaraðilarnir neituðu að sýna þáttinn.
  • Áhorf á þætti hans voru á hraðri niðurleið.
  • FCC minnti á reglurnar um bann við klámi, grófu orðfæri, lygum og ósiðlegu efni.
  • Disney/ABC tóku viðskiptalega ákvörðun.

En auðvitað er þetta allt Trump að kenna. Í hugarheimi vinstrisins er hann persónugervingur alls sem miður fer – eins og púkinn sem býr undir rúminu.

Hér kemur kaldhæðnin: sama fólkið sem nú talar um „skert málfrelsi“ hefur sjálft cancel-að hálfan heiminn síðustu ár. Þeir sem misstu vinnuna, vettvanginn eða mannorðið fyrir að segja eitthvað sem hljómaði ekki rétt í vinstri eyrum – voru þeir ekki líka með málfrelsi? Eða gildir það bara þegar brandarinn kemur frá þeirra liðsmönnum?

Og við skulum hafa eitt á hreinu: málfrelsi þýðir ekki að segja hvað sem er án afleiðinga. Ef stjórnvöld hefðu lokað á persónulega YouTube-rás Jimmy Kimmel, þá væri verið að ráðast á málfrelsið. En þegar einkafyrirtæki segir „þetta er slæmur business“ og tekur þáttinn af dagskrá? Það eru afleiðingar, ekki kúgun.

Kannski er lærdómurinn þessi:
Þegar vinstrið finnur fyrir sömu meðferð og það hefur sjálft beitt aðra árum saman, þá er það ekki lengur „réttlæti“ heldur „árás á frelsið.“

Sannleikurinn er einfaldur: Jimmy Kimmel var ekki rændur málfrelsi – hann féll fyrir eigin leikreglum.


Hvernig tókst Charlie Kirk þetta?

Á morgun, föstudaginn 19. september kl. 14, stýri ég mínum fyrsta útvarpsþætti á Útvarpi Sögu.
Umræðuefnið verður Charlie Kirk – 31 árs leiðtogi sem stofnaði stærstu ungliðahreyfingu Repúblikanaflokksins, varð brú milli ungu kynslóðarinnar og MAGA og skildi eftir sig bæði djúpa aðdáun og mikla deilu.
 
Fjölmiðlar mála hann oftast sem „hægri öfgamann“, samsæriskenninga-smið eða jafnvel rasista og nasista. En spurningarnar sem mér finnst vanta í þá umfjöllun eru á þá leið:
  • Hvers vegna tókst Kirk að byggja upp eitt stærsta ungliðanet í bandarískum stjórnmálum?
  • Hvað var það í hans boðskap sem laðaði að sér milljónir ungra kjósenda?
  • Hvernig gat hann, aðeins þrítugur, orðið einn áhrifamesti álitsgjafi íhaldsmanna í Bandaríkjunum?
Við ræðum þetta og margt fleira – með það að markmiði að hugsa út fyrir fyrirsagnirnar.
Viðmælandi minn verður Arndís Ósk Hauksdóttir prestur.
 
Stilltu inn á Útvarp Sögu kl. 14 á morgun, föstudaginn 19. september.
 

Þögn í nafni réttlætis

J.K. Rowling orðaði þetta skýrt: (sjá mynd)

- If you believe free speech is for you but not your political opponents, you are illiberal.
- If no contrary evidence could change your beliefs, you are a fundamentalist.
- If you believe the state should punish those with contrary views, you are a totalitarian.
- If you believe political opponents should be punished with violence or death, you are a terrorist.

Þetta er fjögurra þrepa lýsing á því hvernig lýðræði getur smám saman lekið úr höndum okkar.

  • Fyrst með því að takmarka frelsi andstæðingsins.
  • Svo með því að festast í hugmyndafræðilegri blindni.
  • Því næst með því að kalla eftir refsingu ríkisvaldsins.
  • Og að lokum með því að réttlæta ofbeldi.

Leiðin frá umræðu til kúgunar er ekki löng – hún byrjar á því að þagga niður.

Tvöfeldnin afhjúpast

Önnur mynd tengir þetta beint við samtímann:

„Insanity: Thinking it’s wrong to lose your job because of what you said, but what you said was Charlie should lose his life for what he said.“

Þetta er nákvæmlega framhald af því sem Rowling varar við. Þegar frelsi er ekki lengur jafnt, heldur aðeins ætlað sumum, birtist siðferðileg mótsögn:

  • Þeir sem núna kvarta hástöfum yfir því að missa starfið sitt vegna eigin orða – eru sömu raddirnar og fögnuðu því að Charlie hafi misst lífið fyrir sín orð.
  • Sömu aðilar og andstæðingar Charlie kalla þetta „ógn við frelsið“ þegar þeir sjálfir verða að taka ábyrgð á eigin orðum. En þegar hann er myrtur fyrir sín orð, þá er það talið réttlæting.
  • Getur siðferðisleg tvöfeldni orðið sýnilegri? Þetta er ekki lengur umræða um tjáningarfrelsi – þetta er hræsni og mannvonska af verstu sort.

Þarna birtist siðferðilegt gjaldþrot: umburðarlyndi er orðið valkvætt, réttlæti að vopni, og hatrið dulbúið sem siðferðileg reisn.

Þögnin sem vopn

Það sem ætti að vera samræða um hugmyndir hefur breyst í baráttu þar sem markmiðið er ekki lengur að sannfæra með rökum, heldur að þagga niður andstæðinginn og fagna falli hans.

Þegar samfélag réttlætir þöggun er næsta skref refsivæðing. Þegar það verður að vana að sjá andstæðinginn sem „hættulegan“ eða „ómannlegan“, þá er stutt í að réttlæta ofbeldi. Þetta er ekki ímyndað hættusvið – þetta er að gerast.

Lokaorð

Lýðræði lifir ekki af ef það er aðeins ætlað vinum okkar. Það lifir aðeins ef við verjum frelsi þeirra sem við þolum síst.

Ef við gerum það ekki, þá erum við ekki að tala um lýðræði heldur rétttrúnað – þar sem þögnin verður að lögum og frelsið að glæp.

Spurningin er einföld: höfum við hugrekkið til að standa vörð um frelsi allra, líka þeirra sem við erum ósammála?

Tíminn til að svara er ekki einhvern tíma í framtíðinni – hann er hér og nú.


Samfélag með lokuð eyru, og opið veski

Þegar eðlilegar spurningar eru stimplaðar sem hatursorðræða

Á hverjum degi eru birtar greinar, fluttar ræður og skrifaðar færslur þar sem því er haldið fram að áhyggjur almennings séu byggðar á fordómum eða illvilja. Jafnvel saklausar spurningar um stefnumótun eru oft flokkaðar sem hatursorðræða.

En ein spurning heyrist sjaldan – og fær enn sjaldnar svar:

Af hverju má fólk ekki hafa áhyggjur?

Þetta er ekki popúlismi – þetta er ábyrgð

Það er ekki popúlismi að velta fyrir sér hvert samfélagið stefnir. Það eru ekki fordómar að spyrja:

  • Hver eru áhrifin á skólakerfið?
  • Hvernig stendur heilbrigðiskerfið undir hraðri fjölgun notenda?
  • Hver ber kostnaðinn?

Það er ekki ómannúðlegt að ræða hvernig tryggja megi aðlögun, tungumálakunnáttu og virka þátttöku – sérstaklega þegar ljóst er að sumir hafa engan áhuga á að verða hluti af íslensku samfélagi.

Að spyrja um afleiðingar er ekki andúð – það er ábyrgð.

Spurningar sem fá ekki svör

Hlutfall erlendra ríkisborgara hefur margfaldast á fáum árum. Í sumum leikskólum, sérstaklega í Breiðholti og Reykjanesbæ, tala nær öll börn annað móðurmál en íslensku. Á sumum stöðum er ekkert barn sem talar íslensku heima.

Það er ekki fordómafullt að benda á þetta. Það er staðreynd.

Þeir innflytjendur sem læra málið, leggja sig fram og vilja verða hluti af samfélaginu – þeir eru ekki vandamálið. Þeir eru hluti af lausninni. Þeir eiga virðingu og stuðning skilið.

En það breytir ekki því að hluti fólks hafnar ábyrgð. Lærir ekki málið. Vinnur ekki. Fylgir ekki reglum. Og lifir árum saman á bótakerfinu.

Það kostar. Og það þarf að ræða – ekki þegja.

Í einum bekk – tólf tungumál

Í einum bekk í Breiðholtsskóla voru töluð tólf mismunandi tungumál.

Slík staða er kynnt sem „fjölbreytileiki“ í fjölmiðlum – en hvað með barnið sem ekkert skilur? Hvað með kennarann sem á að kenna lestur og stærðfræði á tungumálum sem hann kann ekki? Hvað með íslenska barnið sem fær ekki nægilega athygli – því tíminn fer í grunnkennslu fyrir aðra?

Þegar íslenskan verður undantekning – ekki reglan – þá erum við ekki á leið í fjölmenningu. Við erum á leið úr okkar eigin menningu.

Hver má spyrja – og hver á að svara?

Í stað þess að ræða málin af yfirvegun eru þeir sem spyrja oft stimplaðir sem popúlistar, fordómafullir eða jafnvel öfgamenn.

Það er bæði óheiðarlegt og ólýðræðislegt.

Við verðum að spyrja hreint út:

  • Hversu marga innflytjendur getur Ísland tekið á móti næstu árin?
  • Hver greiðir fyrir þjónustuna, húsnæðið og tungumálanámið?
  • Hvernig tryggjum við að íslenskan lifi áfram sem sameiginlegt mál?

Ef enginn má spyrja – hver á þá að svara?

Það má segja sannleikann

Það eru til einstaklingar sem koma til landsins með þann tilgang að nýta kerfið – ekki leggja sitt af mörkum. Þeir sýna engan vilja til aðlögunar, læra ekki málið, virða ekki reglur eða grunngildi og lifa árum saman á opinberri framfærslu.

Það að segja þetta er ekki hatursorðræða.

Að þegja um þetta er ábyrgðarleysi.

Kerfi sem hvetur til óvirkni og aðskilnaðar grefur undan samheldni, réttlæti og framtíðarsýn.

Ef við höfum ekki kjark til að ræða þetta heiðarlega – þá glötum við því sem virkar.

Tvískinnungur í umræðunni

Þegar kallað er eftir opnum landamærum og fjölbreytileika er það kallað mannúð.
En þegar spurt er um afleiðingarnar – er það kallað popúlismi eða fordómar.

Popúlismi er ekki hlutlaust hugtak. Það er orð sem notað er til að þagga.

Það er ekki öfgafullt að vilja viðhalda menningarlegri samheldni, sterkri íslensku og samfélagi sem virkar.

Það er ekki andúð. Það er skynsemi.

Mannúð án stjórnleysis

Sumir halda því fram að við berum siðferðislega ábyrgð vegna þátttöku í alþjóðlegum stofnunum og samningum.

Kannski. En við verðum líka að spyrja:

  • Hver ber ábyrgð gagnvart íslenskum skattgreiðendum?
  • Gagnvart börnunum okkar?
  • Gagnvart tungumálinu sem við erfðum – og eigum að varðveita?

Við getum verið góð – án þess að vera stjórnlaus.
Við getum hjálpað öðrum – án þess að glata okkur sjálfum.
Við getum sýnt manngæsku – en sett skýr mörk.

Hver verndar það sem virkar?

Ísland hefur byggst á sameiginlegu tungumáli, menningararfi, grunngildum og félagslegri samstöðu.

En ekkert af þessu heldur sér sjálfkrafa.

Að spyrja hvernig við verndum þetta áður en við breytum því – er ekki afturhaldsemi.
Það er forsenda þess að við eigum samfélag sem virkar.

Við höfum ekki efni á að þegja

Við þurfum hugrekki til að ræða erfið mál – af sanngirni, raunsæi og virðingu.

Ef við neitum að ræða fjölda, aðlögun og samfélagsleg áhrif – þá töpum við lýðræðinu.

Ef við stimplum allar eðlilegar spurningar sem fordóma – þá höfum við þegar tapað samræðunni.

Og án samræðu – hver verndar þá mannúðina?


Tjáningarfrelsi – aðeins þegar þér hentar?

„Er þetta tjáningarfrelsið sem hægrið metur svo mikils?“ spurði einhver á samfélagsmiðlum í vikunni.

Ástæðan? Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, skipaði ráðuneytinu að kemba samfélagsmiðla hermanna og starfsmanna. Safna saman nöfnum þeirra sem fögnuðu, gerðu lítið úr morðinu á Charlie Kirk eða sýndu fjölskyldu hans virðingarleysi. „Þeim skal refsað,“ voru skilaboðið. Þegar NBC spurði nánar, var svarið stutt: við fylgjumst með og grípum inn í tafarlaust.

Og nú allt í einu er „góða fólkið“ farið að tala um tjáningarfrelsi.

  • Núna er það orðið dýrmætt.
  • Núna er það orðið nauðsynlegt.
  • Núna er það brotið niður af valdinu.

En hvar var þetta sama fólk þegar aðrir misstu vinnuna fyrir „rangar“ skoðanir eða útskúfað úr samfélaginu?
Hvar var hávaðinn þegar fólk var cancelað og kastað fyrir ljónin á samfélagsmiðlum?
Þá var það ekki áfall heldur sjálfsagt — jafnvel talið réttlæti.

Kjarni málsins er einfaldur:

  • Þegar valdinu er beitt gegn íhaldsfólki er það „nauðsynlegt.“
  • Þegar valdinu er beitt gegn góða fólkinu er það „óásættanlegt.“

Tvöfalda siðgæðið blasir við.

En það er meira. Sumir reyna að réttlæta morðið með því að vísa í afstöðu Kirk til vopnaeignar. Hann studdi stjórnarskrárbundinn rétt Bandaríkjamanna til að eiga byssur – til að verja heimili sitt og fjölskyldu. Það er grundvallarhugsunin í 2. viðauka stjórnarskrárinnar.

Andstæðingar hans snúa þessu á haus: „Hann bað um þetta.“
Það er jafn fráleitt og að segja að sá sem styður ökurétt beri ábyrgð á hryðjuverkum þar sem bíll er notaður til að drepa.

Charlie Kirk sagði aldrei að fólk ætti að ganga út á götu með vopn til að drepa. Hann talaði um rétt fólks til að verja sig. Að hunsa þann mun er ekki rökræða heldur pólitískt hatur.

Og við skulum hafa eitt á hreinu:
Charlie Kirk var ekki rekinn úr vinnu.
Hann var ekki bannaður á samfélagsmiðlum.

Hann var myrtur. Fyrir skoðanir sínar.

Tjáningarfrelsi er ekki skjól aðeins fyrir sjálfan þig. Það er fyrst og fremst vernd fyrir þann sem þú ert ósammála.
Ef þú notar það aðeins þegar það hentar þér, ertu ekki að verja tjáningarfrelsi. Þú ert bara að verja eigin forréttindi.

Við þekkjum dæmin nær okkur. Hér á landi hafa einstaklingar verið dregnir til saka fyrir skoðanir sínar. Í Evrópu hafa dómstólar fangelsað borgara fyrir orð sem talin eru „óviðeigandi.“ Þetta er þróun sem allir ættu að hafa áhyggjur af – sama hvaða skoðanir þeir hafa.

Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú fagnar því að aðrir séu þaggaðir.
Næst getur komið að þér – og þá verður enginn eftir til að verja þig.


Moskva eða Brussel – hvar liggur raunverulega hættan?

Ný skýrsla þingmanna segir að Rússar séu aðalógnin. Innan tveggja ára geti þeir ráðist á Eystrasaltsríki, innan fimm ára – styrjöld í Evrópu. Ísland verði að grípa til aðgerða, auka fjárframlög og verja lýðræðið.

Þetta hljómar dramatískt. En leyfið mér að spyrja:

Af hverju ættu Rússar að ráðast á Evrópu?

Þeir hafa verið þrjú ár að naga sig í gegnum hluta af Úkraínu. Ef þeir ráða ekki við það, hvernig eiga þeir að leggja undir sig álfuna alla? Með hvaða her og hvaða vopnum?

Rússar dæla fjármunum í herinn en glíma samt við manntjón, gæðaskort og brothættar birgðakeðjur. Ef þeir væru ofurveldi, væri Kiev ekki löngu fallið?

Og hvað hefðu þeir að sækja?

Evrópa er ekki gullkista heldur byrði:

  • Skuldir upp í rjáfur.
  • Innflytjendavandi, óeirðir og klofning milli hópa.
  • Iðnaður á undanhaldi og orkuháð erlendri framleiðslu.

Rússar eiga sjálfir gas, olíu, korn og málma. Af hverju ættu þeir að sækjast eftir franska skuldafjallinu eða sænskum óeirðarhverfum?

Raunverulegi hvati Kreml

Það sem þeir vilja er ekki Berlín heldur veikara NATO í austri og áhrif á eigin nágrannasvæðum. Það er önnur saga en sú sem okkur er sögð.

Ísland sem „skotmark“

Við heyrum um sæstrengi, Keflavík og GIUK-hliðið. Jú, Ísland er mikilvægt á kortinu. Ísland er herlaust, en með varnarsamningnum við Bandaríkin stöndum við undir verndarhlíf öflugasta og tæknivæddasta herafla heimsins. Hvort sem við setjum 2% eða 5% af VLF í varnir breytir engu – Washington myndi aldrei láta landið renna Kremlverjum í hendur.

Stóra spurningin

Hverjum þjónar þessi frásögn? Er hún til að verja okkur, eða til að réttlæta meiri vígvæðingu, skuldbindingar og skuldir? Er þetta jafnvel liður í að þrýsta okkur nær Evrópusambandinu, þar sem samræming í öllu er orðið markmið í sjálfu sér?

Raunsæi fremur en hræðsluáróður

Ógnin í Úkraínu er raunveruleg. En sagan um að Rússar ætli sér Evrópu alla er álíka trúverðug og sagan um að bankarnir ætli að bjarga almenningi. Kannski er mesta ógnin ekki í Moskvu – heldur í Brussel?


mbl.is Ógnin er raunveruleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt eða áróður?

Ungur tveggja barna faðir var skotinn til bana í gær, á sviði í Utah fyrir framan þúsundir áhorfenda. Nafn hans var Charlie Kirk. Harmleikur, sama hvaða skoðanir menn kunna að hafa haft á honum. En hvernig fjalla íslenskir fjölmiðlar um þetta?

Vísir birtir grein sem ber yfirskriftina „Hver var Charlie Kirk?“ – en í stað þess að gefa lesendum raunhæfa mynd af manni sem hafði mikil áhrif á milljónir ungra kjósenda í Bandaríkjunum, er textinn nýttur sem pólitískt áróðursvopn.

Það sem stendur eftir er ekki lýsing á manneskju, lífshlaupi hennar eða þeirri spurningu af hverju svona margir litu upp til hans. Nei – það sem stendur eftir er löng upptalning á „samsæriskenningum“, „ósannindum“, „rasískum skoðunum“ og öllu því sem höfundur vill hengja á hann. Engar frumheimildir, engar tilvitnanir í samhengi – aðeins gildishlaðinn texti sem dregur upp eins neikvæða mynd og hægt er.

Það er ekki hlutverk fjölmiðla að „elska“ eða „hata“ þá sem þeir fjalla um. En það er hlutverk þeirra að reyna að setja atburði í samhengi. Í þessu tilfelli hefði verið eðlilegt að spyrja:

  • Hvers vegna tókst Kirk að byggja upp eitt stærsta ungliðanet í bandarískum stjórnmálum?
  • Hvað var það í hans boðskap sem laðaði að sér milljónir ungra kjósenda?
  • Hvernig náði hann að verða einn áhrifamesti álitsgjafi íhaldsmanna í Bandaríkjunum, aðeins þrítugur?

Þessar spurningar eru ekki spurðar. Þess í stað er dauði hans notaður til að ýta undir ákveðna pólitíska mynd: að sá sem hefur kristin- og fjölskyldu gildi, trú á hefðir og stendur með Trump sé í grunninn öfgamaður og hættulegur.

Væri sama nálgun notuð um vinstri leiðtoga? Getum við ímyndað okkur að ef ungur umhverfisleiðtogi, t.d Greta Thunberg hefði verið myrt, væri minningargreinin römmuð inn með upptalningu á öllu því sem hún hefði sagt sem hægt væri að túlka sem villandi eða öfgakennt? Við vitum svarið.

Þessi tvöfalda siðferðiskrafa, þessi skrumskæling – er ástæðan fyrir vantrausti á fjölmiðlum. Fólk sér í gegnum þetta. Það veit að þegar dauði manns er ekki notaður til að sýna siðferði, samvisku og mannlega hlið, heldur sem tækifæri til að hnýta í pólitíska óvini, þá erum við ekki að lesa frétt heldur áróður.

https://www.visir.is/g/20252774102d/hver-var-charli-e-kirk-?fbclid=IwY2xjawMvoU5leHRuA2FlbQIxMABicmlkETA2NEJ1UzRHTFpxcVR5anJIAR7GZ0kaAi8tNz_gwcHchVuo4VNN-RbkePECfsaVoVZ7310KybfGtZZplekQCg_aem_0134D_s0SMUuVawbOTDfuQ


Þegar friðar­sinnar grípa til byssunnar

Charlie Kirk, stofnandi Turning Point USA og einn af áberandi ungu íhaldssömu röddum í Ameríku, var skotinn í dag (uppfært hann er dáinn fyrir að tala fyrir rökhugsun og almennri skynsemi)) á meðan hann talaði á háskólaviðburði í Utah. Glæpur hans? Að þora að segja upphátt það sem milljónir venjulegs fólks hugsa: að frelsi, ábyrgð, trú og fjölskylda skipti enn máli.

Árásin á Kirk er ekki einstakt atvik. Hún er hluti af uggvænlegu mynstri. Það eru einmitt þeir sömu sem ganga undir fána „friðar“, „umburðarlyndis“ og „réttlætis“ sem í vaxandi mæli eru að ógna, þagga niður, hóta, skemma, og, eins og við sáum í dag – skjóta.

Hræsni „friðar­sinna“ vinstrisins

  • Þeir segjast vera fyrir friði, en þeir eru fyrstir til að grípa til óeirða, brenna og eyðileggja eignir þegar þeir ná ekki sínu fram.
  • Þeir segjast vera fyrir umburðarlyndi, en þeir hrópa niður og aflýsa öllum sem eru ósammála.
  • Þeir segjast vera fyrir réttlæti, en þeir fagna þegar andstæðingar missa störf, mannorð eða – eins og nú blasir mögulega við – líf.
  • Þeir kalla sig verndara lýðræðisins, en þeir hafa tvisvar reynt að ráða Donald Trump af dögum og nú hafa þeir ráðist að einum af nánum bandamönnum hans.

Hver er þá ófyrirgefanlegi glæpurinn sem réttlætir þetta ofbeldi í þeirra augum? Að segja það sem eitt sinn var talið sjálfsögð skynsemi: að kynin séu tvö, að fólk eigi að vinna og axla ábyrgð, að stjórnvöld eigi að þjóna fólkinu en ekki drottna yfir því.

Skynsemi stimpluð sem „öfgastefna“

Við lifum á tímum þar sem sannleikur er kallaður hatursorðræða og heilbrigð skynsemi er kölluð öfgahyggja.

  • Ef þú trúir á persónulega ábyrgð, ertu „niðrandi“.
  • Ef þú segir að karlar séu ekki konur, ertu „hættulegur“.
  • Ef þú vilt örugg landamæri, ertu „fasisti“.

Og ef þú hefur kjark til að standa á sviði og segja þessi orð frammi fyrir ungu fólki? Þá, eins og Charlie Kirk upplifði í dag, ertu orðinn skotmark. 

Viðvörun til allra

Árásin á Kirk ætti að vera áfall fyrir alla sem bera hag lýðræðisins fyrir brjósti – hvort sem þeir eru til vinstri, hægri eða á miðjunni. Því þegar ofbeldi verður sjálfgefið svar við skoðunum sem okkur líkar ekki, þá hrynur sjálfur grunnur frelsisins.

Sannleikurinn er einfaldur: þeir sem háværast hrópa um frið eru allt of oft þeir fyrstu til að grípa til byssunnar.


mbl.is Charlie Kirk skotinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refsiaðgerðir sem bitna á Íslandi

Sama dag og palestínskir hryðjuverkamenn drápu sex borgara í Jerúsalem og særðu átta til viðbótar, var íslenskur utanríkisráðherra önnum kafinn við að kynna aðgerðir sem áttu að „refsa“ Ísrael. Aðgerðir sem, að eigin sögn ráðherrans, munu ekki hafa nein áhrif á Ísrael. En þær eiga víst að sýna „vilja“.

Það sem gleymist í þessari sýndarmennsku er einfalt: Ísrael verður ekki fyrir tjóni – en Ísland gæti orðið það.

Utanríkisráðherra talar eins og hún sitji við hlið stórveldanna í Öryggisráðinu og geti lagt Miðausturlöndum línurnar beint úr skrifstofu í Reykjastræti. Þetta mikilmennskubrjálæði, að halda að táknræn refsimennska frá smáríki með 400 þúsund manns hafi bæði viðskiptalegt vægi og pólitískt bit, er ekki annað en sjálfsskaði. Ísraelsmenn halda áfram sínum aðgerðum óáreittir, en Ísland stendur eftir sem smáríki sem vill sýna sig og sanna á kostnað sjálfs síns.

Viðskiptin skipta líka máli. Ísrael flytur til okkar hátækni, lyf og vörur sem nýtast almenningi. Að setja slíkt í hættu til þess eins að senda „merki“ sem enginn tekur alvarlega er ekki utanríkisstefna – heldur sjálfsskaði.

Það er aldrei hugsað til framtíðar. Stríðinu lýkur. Nýir aðilar taka við, bæði hér og í Ísrael. Brýr sem hefðu getað nýst verða brenndar. Ísland situr eftir á hliðarlínunni, með laskað orðspor og enga rödd, ekki aðeins í friðarviðræðum, heldur líka í viðskiptum, tækniþróun, öryggismálum og öðrum alþjóðlegum samskiptum sem skipta máli fyrir framtíð okkar.

Ef markmið íslenskrar utanríkisstefnu og utanríkisráðherra er að safna óvinum, skaða eigin viðskipti og tryggja að Ísland hafi ekkert að segja þegar friður rís að nýju – þá er hún á réttri leið.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hvers vegna spyr enginn af hverju?

Höfundur

Arnar Freyr Reynisson
Arnar Freyr Reynisson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 230
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 181
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband