Ég nenni ekki – andlit meðalmennskunnar í menntakerfinu

Meðalmennska er ekki bara vandamál í íslenska menntakerfinu – hún er orðin stefna. Hún hefur nú fengið táknrænt andlit í mennta- og barnamálaráðherra landsins, Guðmundi Inga Kristinssyni. Maður sem hefur hvorki menntun, reynslu né sýn til að leiða menntakerfið, en talar af kæruleysi um próf, málfar og framtíð barna okkar.

Æviágrip sem spegill kerfisins

Guðmundur Ingi lauk gagnfræðaprófi í trésmíði og stuttu iðnnámi, vann sem lögreglumaður og afgreiðslumaður í rúman áratug, áður en hann sneri sér að verkalýðsstörfum og stjórnmálum. Engin háskólamenntun, engin reynsla af skólastarfi, engin tenging við faglega stefnumótun í menntamálum.

Sá sem leiðir menntakerfið hefur sjálfur aldrei tekið þátt í því nema á grunnstigi. Það er í senn táknrænt og alvarlegt.

Málfar og kæruleysi

Í viðtali á Bylgjunni sagði hann: „mér hlakkar til“, „ég vill“ og talaði um „einkanir“. Þegar hann var gagnrýndur svaraði hann:

„Ef ég hefði áhyggjur af því þá myndi ég ekki tala neitt.“

Þetta er ekki aðeins málfarslegt atriði. Þetta er viðhorf. Viðhorf þess sem lætur sér nægja lágmarkið og sér enga ástæðu til að leggja sig fram. Nákvæmlega sama viðhorf og hefur grafið undan íslenska skólakerfinu um árabil.

Ég nenni ekki

Guðmundur Ingi, segir að gömlu samræmdu prófin hafi verið hætt að virka. Þegar hann var spurður af hverju það væri, svaraði hann einfaldlega:

„Ég nenni ekki einu sinni að gá að því hvers vegna.“

Þessi setning er sennilega besta lýsingin á stjórnun menntamála á Íslandi í dag: áhugaleysi, stefnuleysi og sinnuleysi.

Varnir meðalmennskunnar

En það sem gerir þetta enn alvarlegra er að hann á varnarmenn. Fyrrverandi þingmaður, Helgi Hrafn Gunnarsson, ritar að það sé rangt að tala um „rétta íslensku“. Engin íslenska sé réttari en önnur, ráðherrann sé ekki að tala „vitlaust“, aðeins öðruvísi.

Með öðrum orðum: í stað þess að hvetja til metnaðar og krafna er málinu snúið þannig að engar kröfur gildi. Allt sé jafngilt, allt sé í lagi. Þetta er nákvæmlega sama viðhorfið og við sjáum í menntakerfinu: allir eiga að dragast niður á sama plan, enginn má standa framar.

Að lokum

Menntakerfi sem er þegar í hnignun, með versnandi árangur í Pisa, versnandi læsi og aukið brottfall drengja, fær nú ráðherra sem er holdgervingur þeirrar meðalmennsku sem það hefur alið af sér.

Og þegar hann er spurður af hverju eitthvað virkar ekki, svarar hann einfaldlega:

„Ég nenni ekki að gá að því.“

Það er svarið sem íslenskt samfélag fær frá æðsta manni menntamála. Spurningin er því ekki lengur hvort við eigum við vandamál að stríða, heldur: ætlar þjóðin virkilega að sætta sig við að meðalmennskan stýri framtíð barna hennar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Galli á gjöf Njarðar er að kennaraforystan aðhyllist miðjumoðið. Því miður vantar metnað í forystuna fyrir þau börn sem eru tilbúin að ræða. Alls konar stefnur og straumar eru í skólakerfinu sem draga úr aðalatriðum menntunar. Alltof mikil áhersla lögð á þætti sem skipta litlu eða engu máli.

Helga Dögg Sverrisdóttir, 22.8.2025 kl. 18:21

2 Smámynd: Arnar Freyr Reynisson

Ég er sammála, Helga Dögg. Þetta er einmitt kjarni málsins: forystan í skólakerfinu hefur fest sig í miðjumoði. Í stað þess að stilla kröfunum skýrt upp í íslensku, stærðfræði og lestrarfærni, þá fer orkan í síbreytilega strauma og aukaatriði. Þannig sitja bæði börn sem eiga í erfiðleikum og þau sem eru tilbúin að skara fram úr eftir, kerfið þjónar í raun engum hópi til fulls. 

Arnar Freyr Reynisson, 24.8.2025 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hvers vegna spyr enginn af hverju?

Höfundur

Arnar Freyr Reynisson
Arnar Freyr Reynisson
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 291
  • Frá upphafi: 10293

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 205
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband