Sekt fyrir suma, sakleysi fyrir aðra: Tvöfaldir mælikvarðar í deilunni um Ísrael og Hamas

Þegar alþjóðasamfélagið beitir lýðræðisríki harðari mælikvörðum en hryðjuverkasamtökum, er réttlætinu fórnað fyrir pólitíska þóknun.

Í seinni tíð hafa orðið æ háværari kröfur um að Ísrael verði útilokað frá alþjóðlegum vettvangi, allt frá íþróttaviðburðum og menningarhátíðum (Eurovision) til þátttöku í alþjóðastofnunum. Slíkar kröfur byggja oft á þeirri forsendu að Ísraelsríki beiti Palestínumenn ofbeldi og að þjóðin öll beri ábyrgð á þeirri stefnu.

En ef slíkt mat á sameiginlegri ábyrgð á að gilda, hvers vegna er þá sjaldan beitt sömu mælikvörðum gagnvart íbúum Gaza og stjórnarháttum Hamas?

Árið 2006 vann Hamas kosningar á Gazasvæðinu og hefur síðan stjórnað þar. Samtökin eru á hryðjuverkalista Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og margra annarra ríkja. Þau hafa ítrekað hafnað samningum um varanlegan frið og lýst yfir markmiðum sínum opinberlega.

Hvað stendur Hamas fyrir?

Það þarf ekki að giska á hvað Hamas vill – þeir hafa sjálfir gert það opinbert.

Í stofnskrá Hamas frá 1988 segir meðal annars:

„Ísrael mun rísa og halda áfram að vera þar til Íslam útrýmir því, eins og það útrýmdi öðrum áður.“
(28. grein, Hamas Charter, 1988)

Í stofnskrá Hamas kemur skýrt fram í 13 grein að samtökin hafna öllum friðarviðræðum og alþjóðlegum sáttatilraunum. Slíkar leiðir séu að þeirra mati aðeins blekking, leið til að tefja fyrir því sem þau telja helga skyldu sína: að ná fram eyðingu Ísraels með vopnaðri baráttu.

Leiðtogar samtakanna hafa haldið þessari stefnu til streitu. Í mars 2022 sagði Yahya Sinwar, yfirmaður Hamas í Gaza:

„Okkar verkefni er að uppræta Ísrael. Við gerum það með blóði.“

Eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael þann 7. október 2023, þar sem yfir 1.200 óbreyttir borgarar voru myrtir, þar af börn, eldri borgarar og heilu fjölskyldurnar lýsti Hamas yfir að um „guðlegan sigur“ væri að ræða og hvatti aðrar fylkingar til að feta í fótspor þeirra.

Á sama tíma bárust myndir frá hverfum á Gaza þar sem fagnaðarlæti brutust út, flögg Hamas voru dregin að húni og sælgæti dreift á götum úti, fyrir opnum tjöldum og fyrir framan myndavélar fjölmiðla.

Tvöfaldir mælikvarðar

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er almennt litið á Gazabúa sem saklaus fórnarlömb, án ábyrgðar á þeirri stjórn sem þeir kusu til valda. Ísraelsmenn, aftur á móti sem lifa í virku lýðræðissamfélagi þar sem opinber gagnrýni og fjölmiðlafrelsi ríkir eru oft metnir sem samábyrgir fyrir stefnu eigin stjórnvalda.

Þetta bendir til ákveðins tvískinnungs í alþjóðlegri umræðu. Í einu tilfelli er beitt hugtakinu „sameiginleg sekt“, í hinu „sameiginlegt sakleysi“. Slíkt ósamræmi dregur úr trúverðugleika umræðunnar og þjónar síður réttlæti en pólitískum þóknunarsjónarmiðum.

Ef það er réttlætanlegt að útiloka Ísrael vegna aðgerða stjórnvalda sinna, hlýtur það sama að eiga við um samfélag sem kaus Hamas til valda, þolir kúgun þeirra og sýnir þeim ítrekað beinan eða óbeinan stuðning.

Siðferðileg mótsögn sem á erindi í dagsljósið

Á meðan Ísrael hefur lýðræðislega stjórn sem sættir sig við gagnrýni og fjölbreytni í skoðunum, hefur Hamas beitt kúgun, hernaðarvæðingu samfélagsins og hatursáróðri. Samt er það Ísrael sem stendur undir háværum kröfum um útilokanir.

Sú krafa að beita sameiginlegri sekt á eina þjóð en veita sameiginlegt sakleysi annarri er ekki hugrekki. Það er ekki friðarvilji. Það er pólitísk þöggun sem elur á ranglæti.

Ef við ætlum að styðja við hugmyndina um sameiginlega ábyrgð á þjóðarvísu, verðum við að vera tilbúin að beita henni á jafnræðisgrundvelli, eða hafna henni alfarið. Að öðrum kosti er hætt við að siðferðileg afstaða víki fyrir valdastjórnmálum, þar sem réttar kröfur eru gerðar á suma, en öðrum veitt skilyrðislaus undanþága.


Bloggfærslur 15. maí 2025

Um bloggið

Hvers vegna spyr enginn af hverju?

Höfundur

Arnar Freyr Reynisson
Arnar Freyr Reynisson

Bloggvinir

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 80
  • Sl. sólarhring: 96
  • Sl. viku: 542
  • Frá upphafi: 1074

Annað

  • Innlit í dag: 62
  • Innlit sl. viku: 398
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband