Sunnudagur, 5. október 2025
Æskulýðsvettvangurinn sem hugmyndafræðivettvangur?
Íslenskt æskulýðsstarf á að byggja á trausti, samstöðu og sameiginlegum gildum. Það á að efla börn og ungmenni til ábyrgðar, samvinnu og virðingar, ekki innleiða pólitíska hugmyndafræði sem kemur utan að landinu.
Þess vegna er það alvarlegt mál að á vef Æskulýðsvettvangsins, samstarfi Skátanna, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, KFUM/K og UMFÍ birtist fræðsluefni sem byggir á bandarískum hugmyndum um hvítleika og hvít forréttindi. Þar er staðhæft að hvítt fólk hafi kerfisbundin forréttindi og að vestræn menning sé sjálfkrafa sett fram sem alheims-norm sem annar húðlitur eigi ekki samræmi með.
Einhliða hugmyndafræði sem hunsar raunveruleikann
Engar samsvarandi skilgreiningar eru gerðar á öðrum húðlitum eða menningarheimum. Ekki er minnst á að í Asíu, Afríku og Mið-Austurlöndum eru aðrir húðlitir og uppruni normið og þar lenda minnihlutahópar undir þrýstingi. Þar eru forréttindin ekki hvít heldur byggð á því að tilheyra meirihlutanum hvort sem það er indverskt, kínverskt, arabískt eða afrískt samfélag.
Þetta er því ekki hlutlaus fræðsla heldur hugmyndafræðileg (critical race theory) nálgun sem á rætur að rekja til bandarísks menningastríðs, einkum meðal Demókrata. Hún málar Ísland, Norðurlönd og Evrópu upp sem hluta af sama hvíta kerfinu og Bandaríkin þrátt fyrir að veruleikinn sé allt annar.
Hvað er critical race theory?
Upphaflega var critical race theory (CRT) fræðileg nálgun í bandarískum lagaskólum á níunda áratugnum, þar sem reynt var að útskýra hvernig lög og kerfi gætu viðhaldið mismunun.
Á síðustu árum hefur CRT þó orðið að pólitísku vopni hjá Demókrötum í Bandaríkjunum. Hugmyndafræðin heldur því fram að allur vestrænn heimur byggist á hvítu forréttindakerfi og að allir sem tilheyri hvítum meirihluta njóti kerfisbundinna yfirburða, hvort sem þeir geri sér grein fyrir því eða ekki.
Slíkar hugmyndir hafa þegar skapað djúpstæðan klofning í bandarískum og breskum skólum. Börnum er kennt að líta á sig fyrst og fremst út frá húðlit, að flokka bekkjarfélaga sína sem forréttindahópa eða þolendur kerfisins. Í stað þess að sameina fólk um jöfn tækifæri veldur þetta tortryggni og sundrungu.
Þegar þessi hugmyndafræði er flutt til Evrópu, þar sem söguleg staða, menning og samfélagsgerð eru allt önnur verður hún ekki aðeins óviðeigandi heldur beinlínis hættuleg.
Raunveruleikinn: Hvítt fólk er minnihluti heimsins
Tölurnar tala sínu máli: hvítt fólk er aðeins um 1112% af íbúum jarðar. Í Evrópu og Norður-Ameríku búa vissulega margir hvítir, en á heimsvísu eru þeir langt frá því að vera normið. Stærstur hluti mannkyns býr í Asíu og Afríku, þar sem meirihlutinn hefur sín eigin norm, sín eigin forréttindi og þar eru minnihlutahóparnir þeir sem þurfa að glíma við kerfisbundna mismunun.
Að kenna íslenskum börnum að hvítleiki sé alheimsregla er því ekki aðeins villandi það er rangt. Það kennir þeim að líta fyrst og fremst á húðlit í stað þess að meta einstaklinginn.
Börn sem tilraunadýr
Þegar slíkt efni er innleitt í æskulýðsstarf er ekki lengur verið að tala um fræðslu heldur hugmyndafræðilega innrætingu. Börn og ungmenni eiga ekki að vera tilraunadýr í pólitískri tilraun með bandarískt orðfæri sem hefur þegar valdið sundrungu þar vestra.
Sema Erla sem höfðingi hugmyndanna
Ekki bætir úr skák að efnið er merkt Semu Erlu Serdaroglu, þekktum aktívista og stofnanda Solaris. Hún er sögð höfundur verkfæranna og jafnframt sett fram sem námskeiðshaldari fyrir félög. Hvernig gat fjögurra stoða æskulýðssamstarf, þ.e. rótgrónar íslenskar hreyfingar látið slíkan boðskap fara óáreitt inn í starf sitt?
Landsbjörg í vörn
Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur nú brugðist við og segist endurskoða efnið. Það er jákvætt. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta var sett fram opinberlega, merkt fjórum félögum með þúsundir barna og ungmenna innan sinna raða.
Spurningin sem eftir stendur
Af hverju á íslenskt æskulýðsstarf, sem á að efla samstöðu, vináttu og sameiginleg gildi að flytja inn hugmyndafræði sem byggir á því að flokka fólk fyrst og fremst eftir húðlit og uppruna?
Viljum við að börn læri að meta hvort annað eftir því hvort þau séu hluti af forréttindum eða minnihlutahópum í stað þess að sjá hvern einstakling sem jafningja?
Íslensk æskulýðssamtök bera ábyrgð á að standa vörð um íslenskar aðstæður, íslensk gildi og íslenskt samfélag. Það er þeirra skylda að byggja upp einingu og traust, ekki að flytja inn hugmyndafræði sem aðeins leiðir til sundrungar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 5. október 2025
Um bloggið
Hvers vegna spyr enginn af hverju?
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.10.): 36
- Sl. sólarhring: 36
- Sl. viku: 412
- Frá upphafi: 10274
Annað
- Innlit í dag: 21
- Innlit sl. viku: 309
- Gestir í dag: 20
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar