Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tjáningarfrelsi í skugga stafrænna risa: Hver ræður umræðunni?

(Pistill 3 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um) Undanfarin ár hafa tæknirisarnir Meta (Facebook), Google (YouTube), X (Twitter) og TikTok öðlast áhrifastöðu sem jafnast á við stórveldi. Þeir stjórna ekki aðeins því hver fær að tala, heldur líka hvernig, hvenær og með hvaða orðalagi. Upphaflega voru þessir vettvangar kynntir sem opin torg lýðræðisins. En í dag gegna þeir hlutverki eftirlitsaðila, túlka og dómara. Þeir ritskoða ekki lengur aðeins samkvæmt eigin reglum, heldur í vaxandi mæli í samstarfi við evrópsk stjórnvöld og stofnanir. Þannig verða þeir miðlar, sem áður voru tæki almennings til tjáningar, að tækjum stjórnvalda til skilyrtra samskipta.

Hvernig tæknirisarnir urðu netlögregla Evrópu

Fyrstu skrefin voru tekin árið 2016 þegar helstu samfélagsmiðlar undirrituðu hegðunarreglur gegn hatursorðræðu í samstarfi við Evrópusambandið. Fljótlega komu lög eins og NetzDG í Þýskalandi, sem ákváðu einfaldlega að ef Facebook, Twitter, YouTube o.fl. fjarlægðu ekki "ólöglegt efni" innan 24 klukkustunda, mættu þau búast við sektum upp á allt að 50 milljónir evra.

Árið 2022 setti Evrópusambandið á laggirnar Digital Services Act (DSA), umfangsmikla og bindandi reglugerð sem skuldbindur stafræna vettvanga til að innleiða skilvirk, skýr og rekjanleg kerfi til að greina og fjarlægja efni sem talið er ólöglegt, hættulegt eða samfélagslega skaðlegt. DSA kveður á um að fyrirtækin verði að svara innan skamms tíma beiðnum frá svokölluðum „traustum aðilum“, s.s. netlögreglu, embættum ríkisins, stjórnvöldum eða sérstökum eftirlitsstofnunum. Slíkar beiðnir ná til efnis sem telst fela í sér hatursorðræðu, hvatningu til hryðjuverka, heilsufarslegar rangfærslur eða tjáningu sem er talin grafa undan „lýðræðislegum gildum“. Þau fyrirtæki sem verða ekki við þessu standa frammi fyrir sektum sem geta numið allt að 6% af veltu eða takmörkunum á starfsemi innan ESB. DSA krefst jafnframt að fyrirtækin haldi skrá yfir allar slíkar aðgerðir, geri viðeigandi útskýringar opinberar, og stuðli að gagnsæi, þó í framkvæmd hafi þessi upplýsingagjöf til almennings verið afar takmörkuð og óljós.

Margir tæknirisarnir tóku sjálfir frumkvæði að samstarfinu, jafnvel áður en þeir urðu lagalega skyldugir til þess. Facebook stofnaði sérstakt ritskoðunarteymi í Þýskalandi, YouTube virkjaði gervigreindarkerfi til að skanna og taka niður umdeilt efni, og Twitter (X), eftir að Elon Musk tók við, lenti strax í átökum við Evrópusambandið. Thierry Breton, framkvæmdastjóri innan ESB og helsti ábyrgðarmaður Digital Services Act, minnti Musk opinberlega á að Twitter væri bundið evrópskum lögum og bæri ábyrgð á að fjarlægja ólöglegt efni og hindra útbreiðslu rangfærslna. Breton sagði: „Þú getur ekki látið eins og þú sért í villta vestrinu á evrópskum markaði.“ Áhyggjur höfðu vaknað um að ný stefna Musk sem fól í sér aukið tjáningarfrelsi og endurheimt lokaðra reikninga gæti stangast á við DSA. Ef Twitter fylgdi ekki reglunum, stóð fyrirtækið frammi fyrir hárri veltusekt og jafnvel takmörkunum á starfsemi sinni innan Evrópu.

Raunveruleg dæmi – og raunveruleg afleiðing

Árið 2018 lokaði Twitter á reikning þýska tímaritsins Titanic eftir að það birti skopmynd sem gerði gys að rasískum ummælum þingmanns. Sjálfvirkt kerfi Twitter flokkaði póstinn sem hatursorðræðu. En hann var í raun gagrýni og háð. Ákvörðunin vakti reiði: Hver má gagnrýna hvern? Hver má skopast að valdi? Og hver tekur ákvörðunina? – algóritmi? Stjórnvald? Eða bæði?

Eftir að stríðið í Úkraínu hófst, tók Evrópusambandið þá fordæmalausu ákvörðun að banna rússnesku ríkismiðlana RT og Sputnik innan ESB. Þetta var í fyrsta sinn sem sambandið beitti formlegum lögum til að útiloka fjölmiðla að fullu, með rökstuðningi um að þeir væru áróðursvettvangar í þágu stríðsreksturs. Öll stærstu netfyrirtækin, Google, Meta, TikTok og Twitter fylgdu skipuninni samstundis, lokuðu aðgangi Evrópubúa að þessum miðlum og fjarlægðu jafnvel eldri efni þeirra af vefsíðum og leitarkerfum. Þó tilgangurinn hafi verið talinn réttlætanlegur í ljósi stríðsins, markaði þessi ákvörðun skýrt brot á fyrri reglu: hér var ekki um huglægt mat eða sjálfvirka síu að ræða, heldur beina pólitíska ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB, framkvæmd í gegnum einkaaðila sem hefur mikið vald yfir upplýsingaflæði til almennings.

Sjálfvirkni, notendavöktun og "stafrænt svigrúm"

Stærsti hluti þessarar ritskoðunar fer fram í þögn. Sjálfvirk síukerfi, byggð á gervigreind, skanna milljónir færslna á sekúndu og meta innihald þeirra á grundvelli huglægra viðmiðana sem eru oft eru ekki sýnileg. Setningar eins og „COVID lygi“ voru fjarlægðar sjálfkrafa á fyrstu stigum faraldursins, þar sem slíkar kenningar þóttu ganga gegn ráðandi sjónarmiðum stjórnvalda. Þegar slíkar fullyrðingar síðar fengu vísindalega umfjöllun og jafnvel stuðning, höfðu upprunalegu færslurnar löngu horfið og engin leið var að endurheimta þærÞannig mótast minnið og umræðan af stýrðri forritun, byggðri á fyrirfram ákveðnum forsendum sem skilgreina hvað fær að lifa í umræðunni og hvað hverfur úr sögunni

En sjálfvirknin starfar ekki ein og sér. Í síauknum mæli grípa einstaklingar sjálfir inn í umræðuna með því að taka að sér hlutverk óformlegrar netlögreglu. Ekki endilega vegna brota á lögum eða reglum, heldur af pólitískri samstöðu, eigin sannfæringu eða einfaldlega tortryggni. Þessir notendur merkja færslur sem „hatur“, „rangfærslur“ eða „hættulegt efni“ og valda þannig því að síukerfin virkjast. Algóritmarnir eru hannaðir til að bregðast hratt við slíkum tilkynningum, án þess að greina á milli skaðlegra og löglegra skoðana. Lögleg umræða getur því horfið, einfaldlega vegna kvartana. Færsla hverfur, reikningur lokast, og enginn veit hver kvartaði, né á hvaða forsendum. Það ríkir þögn sem enginn einstaklingur ber fulla ábyrgð á, en samfélagið viðheldur samtímis, með vanrækslu, samvinnu og ómeðvitaðri þátttöku.

Sama má segja um umræðu um loftslagsmál, bóluefni, innflytjendamál og meginstefnur vestrænna stjórnvalda. Þegar umræðan sker þvert á ríkjandi hugarfar eða andrúmsloft sem litað er af pólitískum gildum og viðkvæmni, grípur kerfið inn, hvort sem það gerist með beinum hætti (í gegnum lög og reglugerðir), óbeint (með þrýstingi frá yfirvöldum) eða með því að skapa andrúmsloft þar sem ákveðnar skoðanir teljast óæskilegar. Þessu má líkja við stjórn á upplifun: val á því sem sést og heyrist, til að viðhalda ákveðinni ímynd og forðast umræðu sem gæti skapað óþægindi, tortryggni eða mótstöðu.

Tjáningarfrelsisspurningin

Þetta samstarf stjórnvalda og tæknirisa kallar fram grunnspurningu: Hver ræður tjáningu í okkar tíma?

Ef ríkisvald hefur ekki bein afskipti, en stórfyrirtæki framkvæma ritskoðun af ótta við sektir, lagalega ábyrgð eða í kjölfar beinna tilmæla stjórnvalda, má þá tala um raunverulegt tjáningarfrelsi? Þegar fyrirtæki framkvæma ritskoðun fyrir hönd ríkisins, án þess að lagaframkvæmd sé opinber eða andmælaréttur tryggður, verður frelsið að nafninu einu. Þá er það ekki lengur val einkaaðila, heldur óformleg framlenging af ríkisvaldi sem starfar í gegnum einkafyrirtæki sem hafa ekkert lýðræðislegt umboð.

Notendur sem lenda í banni á Facebook fá sjaldnast að vita hvort um var að ræða brot á lögum, brot á samfélagsreglum, kvörtun frá yfirvöldum eða mistök gervigreindarinnar.

Afleiðingin er ekki aðeins sýnileg, bann, lokun, þöggun, heldur einnig ósýnileg og útbreidd. Hún birtist sem sjálfsritskoðun, óvissa og hljóðlátur ótti við afleiðingar. Þegar einstaklingur er ekki viss um hvort orð hans, spurningar eða gagnrýni séu leyfileg, fer hann að velja orð sín vandlega eða þegir alfarið. Færri tjá hugsanir sínar, færri deila upplýsingum, og sífellt fleiri hika við að segja það sem áður þótti eðlilegt. Smám saman dregur úr hugrekki, ekki vegna beinna refsinga, heldur vegna yfirvofandi óvissu. Þannig nær ritskoðun ekki aðeins til orðanna, heldur smýgur inn í meðvitund fólks, þar sem hún mótar hegðun áður en nokkur hefur talað.

Þögnin og reglurnar

Evrópa er að móta stafrænt umhverfi sem ætlað er að vernda borgara gegn hatri, rangfærslum og ofbeldi, markmið sem fáir eru ósammála. En þó tilgangurinn sé réttlætanlegur, þarf að staldra við og spyrja: Hverju erum við að fórna í leiðinni? Og hver ákveður hvað telst hatur, ósannindi eða ofbeldi, og í hvaða tilgangi?

Ef tjáningarfrelsinu er fórnað fyrir reglufestu, ef sannleikurinn má ekki heyrast fyrr en hann hefur fengið samþykki, og ef almenningur veit ekki af þeim afskiptum sem eiga sér stað bak við tjöldin, þá er netið ekki lengur frjálst svæði. Það hefur þá breyst í rími undir eftirliti, þar sem sýnilegt frelsi hylur ósýnileg mörk.

Og þegar tölurnar, reglurnar og síurnar hafa tekið við stjórn, er engu mótmælt sem enginn veit að hafi verið til. Það sem hverfur í hljóði, án þess að neinn taki eftir því, vekur enga andstöðu, aðeins hlédræga samvinnu.

Þess vegna ættum við öll að vakna. Og spyrja: Hver ritar reglurnar? Og fyrir hvern?


Núverandi löggjöf um hatursorðræðu og upplýsingastýringu í Evrópu

(Pistill 2 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um) Þú mátt segja hvað sem er, nema það sem öðrum finnst óæskilegt

Við segjum oft: „Auðvitað höfum við tjáningarfrelsi.“
En hvað ef ég segi eitthvað sem einhver annar túlkar sem „hatur“?
Eða ef ég spyr spurninga sem einhver stofnun kallar „upplýsingaóreiðu“?

Eimitt þetta er að breytast í Evrópu. Ekki í einu lagi, heldur í röð af lögum, reglugerðum og samkomulögum sem smá saman þrengja að umræðu. Og fæstir átta sig á því eða þora ekki að segja það upphátt.

Þegar lögin snúa ekki lengur bara að glæpum, heldur skoðunum

Hugtakið „hatursorðræða“ hjómar í fyrstu eins og eitthvað sem allir ættu að vera sammála um að stöðva. Enginn vill hatursfulla umræðu. En vandinn er að þetta hugtak er óljóst, og verður sífellt víðara.

Í dag er ekki bara verið að banna útlendingahatur, kynþáttaníð eða kynbundið ofbeldi í tali, heldur er gagnrýni á ákveðin stefnumál stundum líka flokkuð sem hatursorðræða.

Tökum dæmi:

  • Spurningar um afleiðingar innflytjendastefnu? Hættuleg orðræða.
  • Gagnrýni á kynjastefnu eða námskrár í skólum? Hatursorðræða.
  • Skoðanir sem stangast á við ríkjandi nálgun á loftslagsmálum eða bóluefni? Geta verið „skaðlegar“.

Og þegar þetta er komið á þetta stig, þá er ekki lengur verið að vernda fólk gegn hatri.
Þá er verið að vernda valda hugmyndafræði gegn gagnrýni.

Lög sem þú kaust ekki – en sem hafa áhrif á hvað þú mátt segja

Nýjar reglugerðir í Evrópu veita yfirvöldum og tæknifyrirtækjum áhrif á umræðuna, ritskoðun sem fer fram undir formerkjum ábyrgðar og öryggis

1. NetzDG ( Þýskaland )

  • Samþykkt árið 2017. Skyldar samfélagsmiðla til að fjarlægja "ólöglegt efni" innan 24 klst. eða borga háar sektir.
  • Vandinn: Hver ákveður hvað er ólöglegt? Ekki dómstóll, heldur fyrirtækið sjálft.
  • Útkoman: Löglegar en óþægilegar skoðanir hverfa og samfélagsmiðlar fjarlægja frekar of mikið en of lítið, af ótta við sektir og refsiaðgerðir.

2. Digital Services Act (DSA – Evrópusambandið)

  • Tók gildi 2024. Markmið: vernda notendur gegn "skaðlegu efni".
  • En „hvað er skaðlegt?“
  • ESB getur krafist þess að efni sé fjarlægt, jafnvel þótt engin lög hafi verið brotin og byggt á þeirra túlkun á því hvað telst skaðlegt.

Stofnanir ESB hafa nú aðgang að bakenda samfélagsmiðla, þar sem þær og áhrifavaldar geta falið, takmarkað eða stimplað umræðu sem „skaðlega“.

Ef þú heldur að þetta snúist bara um hatursorðræðu, skoðaðu eftirfarandi:

  • Umræða um afleiðingar bólusetninga → merkt sem rangfærsla
  • Gagnrýni á innflytjendastefnu ESB → takmörkuð dreifing
  • Gagnrýni á loftslagsráðstafanir → merkt sem „villandi“ eða „óábyrg umræða“
  • Skoðanir sem stangast á við ríkjandi stefnu → gerðar ósýnilegar

Sjálfritskoðun: Öflugasta form þöggunar

En það alvarlegasta eru ekki lögin sjálf.
Það er hvernig lögin og menningin breyta okkur sjálfum.

Tökum sem dæmi, þegar fólk:

  • segir ekki það sem það hugsar
  • þorir ekki að „læka“ eða deila greinum
  • þaggar niður eigin efasemdir
  • hugsar: "Ég veit að ég mætti segja þetta, en kannski er betra að þegja."
  • kennir sjálfu sér að segja minna til að forðast kastljósið

Þá er þöggunin orðin innvortis. Og þegar svo er, þá þarf enginn að ritskoða þig. Þú gerir það sjálf/ur.

Við vöxum ekki með samstöðu – heldur með deilum

Lýðræði þarf átök hugmynda. Ekki samræmda hugsun.
Ekki samræmdan sannleika.
Ekki samræmda umræðu sem samþykkt hefur verið af Meta, ESB, Google, eða "æskilegum" vefstjóra.

Ef við ætlum að verja tjáningarfrelsið, verðum við að verja réttinn til að segja það sem er óvinsælt, óþægilegt, umdeilt og jafnvel særandi.

Því annars verður tjáningarfrelsi aðeins frelsi til að segja það sem enginn mótmælir. Og þegar enginn óttast skoðanir, af því enginn þorir að segja þær, þá er þöggunin orðin fullkomin.


Hvernig varð tjáningarfrelsi að grundvallarrétti – og af hverju er það nú í hættu?

(Pistill 1 - Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um). Við hugsum oft um tjáningarfrelsi sem eitthvað sjálfsagt. Rétturinn til að segja það sem maður hugsar, gagnrýna valdhafa, skiptast á skoðunum, efast, spyrja, vekja umræðu, þetta tilheyrir lýðræðisþjóðfélagi. Það er súrefni samfélagsins.

En þetta frelsi kom ekki til okkar sem gjöf.
Það varð til í sársauka. Í skugga stríðs, ritskoðunar og ótta. Það varð til vegna þess að fólk vissi hvernig það er að búa í samfélagi þar sem ekkert má segja.

Og það sem fæstir átta sig á: þetta sama frelsi, sem Evrópa barðist fyrir í áratugi, er í dag að veikjast, ekki í einum hvelli, heldur í rólegheitum. Í nafni góðra markmiða.

Eftir stríðið: Þegar Evrópa sagði „aldrei aftur“

Eftir gjöreyðingarstríðið 1939–1945, með ritskoðun, þöggun andófs og niðurbroti sjálfs hugsunarfrelsis, sögðu þjóðir Evrópu: Aldrei aftur.

Það var ljóst að lýðræði og mannréttindi eru ekki sjálfgefin. Þau þurfa að vera skráð, vernduð og minnt á þau.

Þess vegna var árið 1950 undirritaður Mannréttindasáttmáli Evrópu. Þar var kveðið á um margt, rétt til lífs, vernd gegn pyndingum, og réttláta málsmeðferð.
En líka: tjáningarfrelsi. Í 10. grein stendur að hver maður eigi rétt á að tjá sig, að veita og þiggja upplýsingar, án afskipta yfirvalda.

Og síðar bætti Evrópudómstóllinn við:

„Tjáningarfrelsi á ekki aðeins við um hugmyndir sem fallið geta í kramið – heldur líka þær sem móðga, hneyksla eða stuða.“

Það er kjarninn í frjálsu samfélagi.
Því samfélag sem þolir ekki að heyra það sem það vill ekki heyra, þolir í raun ekkert nema samhljóm.

En frelsið fékk líka skorður

Evrópa vissi líka af biturri reynslu að orð geta kveikt í heilu samfélagi.
Að frjáls tjáning má ekki verða frjálst að hatast.

Þess vegna tóku mörg ríki upp strangari lög en t.d. Bandaríkin. Þýskaland bannaði nasískan áróður og afneitun helfararinnar. Frakkland og Austurríki settu sambærilegar takmarkanir.

Markmiðið var réttmætt:
Að koma í veg fyrir að orð yrðu vopn til útrýmingar. Að sögulegur hryllingur endurtæki sig ekki með því að leyfa sömu hugmyndum aftur að taka rætur, undir verndarvæng frelsis.

Þetta var ekki vantrú á frelsi. Þetta var varúð. En varúð getur snúist í ofvarkárni.

Tjáningarfrelsi sem jafnvægi milli hugrekkis og ábyrgðar

Í Evrópu hefur tjáningarfrelsi alltaf verið frelsi með ábyrgð.

  • Þú mátt segja það sem þú vilt – en þú mátt ekki hvetja til ofbeldis.
  • Þú mátt gagnrýna trúarbrögð – en ekki kalla til útrýmingar.
  • Þú mátt ögra – en ekki misnota.
  • Þetta hljómar eins og heilbrigt jafnvægi.

Og lengi vel virkaði það. Umræðan blómstraði. Gagnrýnin hugsun fékk rými. Margt var deilt um, margt þoldi dagsljós. Lýðræðið varð sterkara með því að leyfa ólíkar skoðanir, líka þær sem fóru gegn straumnum.

En eitthvað hefur breyst...

Á síðustu árum hefur þetta jafnvægi farið að hallast.

Hugtökin sem áður voru til verndar, eins og „hatursorðræða“, „upplýsingaóreiða“ eða „skaðlegt efni“ hafa víkkað út.

  • Það sem áður var bara ögrandi skoðun er í dag kallað óábyrgt.
  • Það sem áður mátti deila um er í dag merki um öfga.

Þessi breyting á sér stað alls staðar:

  • Í nýrri löggjöf sem þrengir ramma umræðu á netinu
  • Í samstarfi stjórnvalda og samfélagsmiðla sem „stýra sýnileika“
  • Í fjölmiðlum sem forðast umdeild viðfangsefni af ótta við skítkast
  • Í háskólum þar sem ögrandi skoðanir þola ekki lengur dagsljósið
  • Og hjá venjulegu fólki sem lærir að segja minna, bara til að eiga frið

Við köllum það oft „virðingu“, „samfélagsábyrgð“, „öruggt rými“ en stundum er þetta einfaldlega þöggun.

Og það gerist án þess að við tökum eftir því

Það hættulegasta er ekki beint bann á tjáningu einstaklingsins. Það hættulegasta er hversu eðlilegt þetta fer að virðast.

Við segjum:

  • „Auðvitað á að passa að enginn móðgist.“
  • „Auðvitað á að fjarlægja villandi upplýsingar.“
  • „Auðvitað má ekki dreifa óábyrgum skoðunum.“

Og smám saman hættum við að spyrja:
En hver ákveður hvað er móðgandi? Hver skilgreinir hvað er villandi? Hver hefur rétt á að þagga niður?

Þetta skiptir öllu máli

Tjáningarfrelsi er ekki lúxus. Það er ekki einhvers konar auka krydd í lýðræðissamfélagi.
Það er súrefnið.

Án þess getum við ekki rætt lausnir. Við getum ekki sagt frá ranglæti. Við getum ekki andmælt valdinu.
Við getum ekki vaxið sem samfélag, heldur einungis þagað, samþykkt og fylgt eftir.

Og sú staðreynd að þessi þróun gerist á friðartímum, í nafni öryggis, kurteisi og ábyrgðar, gerir hana bara hættulegri.

Þetta er ástæða þess að ég skrifa þessa röð færslna.

Við þurfum að rifja upp hvers vegna við fengum tjáningarfrelsi í upphafi.
Hvers vegna það var svo mikilvægt að tryggja að enginn gæti stjórnað umræðunni, slökkt á röddum eða mótað sannleikann eftir hentugleika.

Og því þurfum við að spyrja sjálf okkur:
Erum við að verja frelsið eða hjálpa til við að afnema það, brosandi, í nafni upplýsingaöryggis og „mildrar umræðu“?


Tjáningarfrelsið í Evrópu: Þögn sem enginn fjallar um

Við teljum okkur búa í frjálsum, opnum og lýðræðislegum samfélögum þar sem rétturinn til að tjá skoðanir sínar á að vera er sjálfsagður. En á undanförnum árum hafa æ fleiri Evrópubúar og líka Íslendingar, farið að þegja.

Þeir segja minna. Þeir skrifa varlega. Þeir láta ekki í ljós efasemdir eða skoðanir sem kunna að stangast á við ríkjandi línu, ekki endilega vegna þess að þeir hafi rangt fyrir sér, heldur vegna þess að þeir hræðast viðbrögðin:
– missa vinnuna, verða stimplaðir, kallaðir öfgafullir, útilokaðir eða jafnvel bannaðir.

Og það sem verra er: Almenningur veit oft ekki lengur hvar línan liggur, því hún færist stöðugt lengra.

Er tjáningarfrelsið enn til staðar, ef enginn þorir að nota það?

Hvers vegna hverfa saklausar færslur af netinu, þótt þær brjóti engin lög? Hvers vegna eru ákveðnar spurningar um faraldra, innflytjendamál, Evrópusambandið, jafnréttisstefnu eða trúarbrögð nánast orðnar óumræðanlegar nema með fyrirfram samþykktri afstöðu?

Og hvers vegna spyr enginn fjölmiðlanna: Hvað má í raun segja og hver ákveður það?

Þetta er ekki ímyndun – heldur róleg bylting

Á næstunni mun ég birta röð bloggfærslna þar sem ég rek á eftirtektarverðan og vanræktan sannleika:
Tjáningarfrelsið í Evrópu er að minnka, hægt og hljótt, og nánast enginn fjallar um það.

Þróunin er ekki augljós, því hún á sér stað í smáum en ákveðnum skrefum. Undir yfirskini baráttu gegn hatursorðræðu, rangfærslum og samfélagslegum ógnum hafa ríki, alþjóðastofnanir og tæknirisarnir byggt upp kerfi sem stýrir því hvað má segja, hver má segja það, og hvenær.

Í þessum greinaflokki mun ég meðal annars fjalla um eftirfarandi atriði:

  • Löggjöf og reglugerðir eins og Digital Services Act (ESB) og NetzDG (Þýskaland), sem gera samfélagsmiðla að lögbundnum ritskoðunarvettvangi.
  • Hvernig stjórnvöld og alþjóðastofnanir hafa fundið leiðir til að þagga niður gagnrýni, ekki með því að banna skoðanir beint, heldur með því að „útvista“ ritskoðun til fyrirtækja.
  • Hlutverk tæknirisa á borð við Meta, YouTube, Google og TikTok, sem í síauknum mæli stjórna því hvaða rödd fær að heyrast og hvaða rödd deyr út í þögn.
  • Raunveruleg dæmi um löglegar, en óþægilegar skoðanir sem eru teknar niður, merktar villandi eða gerðar ósýnilegar, jafnvel þótt þær byggist á opinberum gögnum eða vísindalegri umræðu.
  • Sjálfritskoðun og félagslegur þrýstingur, sem veldur því að venjulegt fólk hættir að tala. Þú mátt segja skoðun þína, en þú mátt bera afleiðingarnar einn.
  • Og loks: Afleiðingarnar fyrir lýðræðið sjálft. Hvað gerist þegar aðeins samþykkt sjónarmið fá að lifa? Þegar fjölræði víkur fyrir samhljómi? Þegar hræðslan við að segja eitthvað rangt verður sterkari en viljinn til að segja það sem er satt?

Þetta er ekki kenning. Þetta eru staðreyndir.

Þetta er ekki huglægt mat. Það eru til skýr gögn, staðfest lög, opinberar tilskipanir, tilvísanir í dóma, samninga og skýrslur sem sýna hvernig hugtök eins og „upplýsingastjórnun“, „öruggt stafrænt umhverfi“ og „barátta gegn hatri“ eru notuð, oft af góðum ásetningi, til að móta ramma umræðunnar og útiloka skoðanir sem eru pólitískt, hugmyndafræðilega eða siðferðilega óæskilegar.

Það er ekki spurning um hvort tjáningarfrelsið sé að veikjast.
Heldur hvort við tökum eftir því í tæka tíð.

Fyrsta færslan birtist á mörgun. Hún fjallar um uppruna tjáningarfrelsis í Evrópu:
Hvernig varð þetta frelsi að grundvallarrétti, og af hverju er það nú aftur í hættu?

Ef þú telur að umræðan í samfélaginu sé að þrengjast, þá hefur þú rétt fyrir þér. Ef þér finnst þú ekki lengur mega segja það sem þú hugsaðir áður, þá ertu ekki ein/n.

Tími er kominn til að tala um þetta, áður en við hættum alveg að tala.


Karlmennska og skynsemi – Tími til að hætta alhæfingum

Undanfarin ár hefur umræðan um karlmennsku orðið æ háværari – og jafnframt einhliða. Hugtök á borð við eitruð karlmennska og feðraveldi eru orðin að einhliða skýringum á vanda samfélagsins, á sama tíma og sífellt fleiri telja sig þurfa að afsaka það eitt að vera karlkyns. En hér er grundvallaratriði sem margir þora ekki að segja upphátt: það er ekkert sem heitir eitruð karlmennska – né heldur eitraður kvenleiki. Það er bara eitruð hegðun. Og hún getur birst hjá bæði körlum og konum.

Frá fordæmum til fordóma

Í gegnum vestræna sögu hefur karlmennska verið skilgreind sem dygð, ábyrgð og þjónusta:

  • Í Grikklandi fornu var andreía – hugrekki og sjálfsagi – talin dygð borgarans.

  • Í Róm var virtus ekki bara vald heldur siðferðileg ábyrgð.

  • Í kristinni arfleifð var þjónandi leiðtogi fyrirmynd karlsins.

  • Í nútíma lýðræðisríkjum var karlmennska tengd borgaravitund og fórnfýsi.

Í dag hefur þessi mynd verið afbökuð – og í staðinn hefur rutt sér til rúms hugmyndafræði sem lítur á karlmennsku sem óvin samfélagsins. En slík nálgun er hvorki fræðilega heiðarleg né siðferðilega sanngjörn.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Ef við kennum ungum drengjum að karlmennska sé mein, þá skerum við á leið þeirra til sjálfsvirðingar. Strákar þurfa ekki að vera minna karlmennskir, þeir þurfa að vera heilbrigðir, ábyrgir og sterkbyggðir – ekki brotnir og skammaðir fyrir kyn sitt.

Það sem við köllum „eitruð karlmennska“ er í raun oft skortur á leiðsögn, fyrirmyndum, tilgangi og aga. Sama má segja um það sem kallað er „eitraður kvenleiki“ – það eru ekki kvenleikinn sjálfur sem er vandamálið heldur hegðun sem byggist á stýringu, bælingu, fórnarlambshlutverki eða tilfinningalegri stjórnun. Þetta er ekki eitraður kvenleiki, einfaldlega: eitruð hegðun.

Eitruð hegðun er mannleg, ekki kynbundin

Við verðum að hætta að líta á skaðlega hegðun sem einkennismerki tiltekins kyns. Eitruð hegðun er ekki karlleg eða kvenleg – hún er mannleg. Hún birtist í mismunandi myndum:

  • Karlar geta beitt ofbeldi – og það geta konur líka, bæði líkamlega og andlega.

  • Karlar geta verið stjórnsamir, fjarlægir og valdbeitingarmiklir – en konur geta einnig beitt stjórnun, útilokun, baktali og félagslegri kúgun.

  • Konur geta nýtt tilfinningalega nánd til að stjórna – rétt eins og karlar geta bælt eigin og annarra tilfinningar með hörku.

Eitruð hegðun getur verið hljóðlát eða hávær, líkamleg eða andleg, skýr eða lúmsk – en hún er ekki kynbundin. Hún á rætur í skorti á sjálfsþekkingu, siðferðisvitund og heilbrigðum mörkum.

Mikilvægast er þetta: Við eigum að gagnrýna hegðun, ekki kyn. Ef við gerum það ekki, þá erum við ekki að leita lausna, heldur að festa í sessi kynbundna sekt og sundrung.

Innviðir samfélagsins – Hin gleymda ábyrgð

Í umræðu um þriðju vaktina – sem snýr að ósýnilegri umönnunarvinnu kvenna gleymist sú staðreynd að karlar axla meginábyrgð á innviðum samfélagsins:

  • Flest hlutverk sem halda rafmagnskerfum, sorphirðu, vegakerfi og grunnþjónustu gangandi eru karlmenn.

  • Þeir sinna störfum sem eru hættuleg, krefjandi og ósýnileg – oft á kostnað heilsu og frítíma.

Þetta er ekki minna virðingarvert en ólaunuð vinna inni á heimilinu. Bæði skipta máli – sérstaklega þar sem í dag sinna margir feður einnig heimilisverkum og taka virkan þátt í áhugamálum og daglegu lífi barnanna sinna.

Sálfræðin: Það sem karlar þurfa

Rannsóknir sýna að:

  • Strákar sem hafa föður eða fyrirmynd sem kennir þeim aga og tilgang eru líklegri til að sýna samkennd og ábyrgð.

  • Karlar sem fá viðurkenningu fyrir krafta sína verða ekki kúgarar – heldur verndarar.

  • Það er ekki karlmennskan sjálf sem skapar vandamál – heldur þegar samfélagið veitir engin viðmið, enga virðingu og enga leiðsögn.

Við þurfum nýja samtalsskrá – ekki nýtt stríð

Það er kominn tími til að hætta þessari keppni um fórnarlambastöðu. Kynin eru ekki í stríði. Þau eru samverkandi – og þau þurfa hvort annað!

  • Hættum að rífa niður karlmenn til að lyfta konum 

  • Hættum að gera lítið úr framlagi kvenna og setja þær í ábyrgð á öllum tilfinningalegum þörfum sambandsins.

  • Hættum að skamma kyn – og förum að ræða ábyrgð.

  • Hættum að byggja umræðu á sektarkennd – og förum að byggja hana á virðingu.

Fyrir manneskjulega nálgun, ekki kynbundin skotmörk

Við eigum ekki að spyrja hvort karlmennska sé eitruð – heldur hvort samfélagið okkar rækti dygð og ábyrgð. Það sem við þurfum er:

  • Heilbrigð karlmennska. Heilbrigður kvenleiki.

  • Sterka sjálfsmynd sem byggir á tilgangi og þjónustu – ekki forréttindaflótta eða sektarkennd.

Vandamálið er ekki karlmennskan sjálf – heldur hvernig við höfum afmyndað hana, afneitað dygðum hennar og kennt hana í neikvæðum búningi sem eitthvað varasamt eða skaðlegt.


Fjölmenning: Styrkleiki á pappír, veikleiki í framkvæmd

Hversu lengi ætlum við að láta pólitíska frasa duga í stað stefnu?

Nýlega flutti Víðir Reynisson, alþingismaður Samfylkingarinnar, tilfinningaþrungna og ljóðræna ræðu á Alþingi þar sem hann lýsti fjölmenningu sem „styrkleika okkar“. Þetta var ekki nýtt. Íslensk stjórnmálaumræða er full af fögrum lýsingum á fjölbreytileika, umburðarlyndi og samfélögum sem blómstra með menningarlegri fjölbreytni.

En það vantar alltaf það sama: Hvernig?

Vandinn við yfirborðskennd ræðuhöld

Það er auðvelt að segja að fjölmenning sé auðlind. Að innflytjendur auðgi samfélagið. Að fjölbreytileiki geri okkur sterkari.
En spurningarnar sem enginn svarar eru þær sem skipta máli:

  • Hvernig tryggjum við að þetta gerist í reynd?

  • Hverjir aðlagast hverjum?

  • Hvaða gildi standa óhögguð í íslensku samfélagi – og hver eru samningsatriðin?

Engin slík umræða á sér stað. Engar tölur. Engin ábyrgð. Engin áætlun.
Bara orð. Bara stemning.

En hvar er dæmið?

Ef fjölmenning er styrkleiki, hvar hefur hún þá sannarlega virkað?

Við fáum aldrei dæmi um borgir eða lönd þar sem fjölmenning hefur skilað aukinni samstöðu, bættum árangri í skólum, sterkari samfélagskennd og minni félagslegum átökum.
Það eina sem við fáum eru yfirborðsleg dæmi: sushi, falafel og fjölbreytt tónlist. En það eru ekki mælikvarðar á samfélagslega virkni.

Það væri í það minnsta hægt að vísa í gögn, stefnu, markmið og árangur. En það er ekki gert.
Þess í stað er almenningi sagt að trúa. Að gagnrýni sé ósiðleg. Að spurningar séu fordómar.

En ef fjölmenning krefst þess að við hættum að spyrja – þá er hún ekki styrkur. Þá er hún veikleiki í dulargervi.

Reynslan utan landsteinanna ætti að kenna okkur eitthvað

Bretland, Frakkland, Svíþjóð, Belgía og fleiri ríki reyndu þetta.
Þau litu á fjölmenningu sem siðferðislega dygð, en gáfu ekkert rými fyrir kröfur, mörk og sameiginleg gildi.

Niðurstaðan?

  • Klofnun samfélaga

  • Menningarlega einangruð gettó

  • Aukin glæpatíðni og óöryggi

  • Öfgastefnur og trúarlegar andstæður

  • Hryðjuverk innanlands

  • Hrapandi samstaða og hnignandi traust á stofnunum

Þetta eru ekki sögur sem einhverjir „popúlistar“ búa til, þetta eru staðreyndir sem skráðar hafa verið í opinberum skýrslum, rannsóknarniðurstöðum og fjölmiðlum um alla Evrópu.

Fjölmenningarstefna sem byggir á undanlátssemi, ótta við að móðga, og skorti á gagnkvæmri ábyrgð getur ekki gengið til lengdar. Þau samfélög sem trúa því verða á endanum tvískipt – ekki tvítyngd. Og það bitnar ekki á þeim sem skrifa tilfinningaþrungnar ræður. Það bitnar á almennum borgurum, á götunum, í skólunum, á vinnumarkaðinum.

Fjölmenning án sameiginlegra gilda er ekki styrkur

Ef fjölmenning á að verða styrkur, þarf hún að byggjast á traustum grunni. Hún krefst aðlögunar, samábyrgðar og samfélagslegrar þátttöku. Og það krefst þess að íslensk stjórnvöld hafi:

  • Skýra stefnu um aðlögun og þátttöku innflytjenda

  • Kröfu um tungumálanám og samfélagsfræðslu

  • Skilgreiningu á ófrávíkjanlegum grunngildum íslensks samfélags

  • Reglur og mörk um hvað er ásættanlegt – og hvað ekki

Án þessarar grunnvinnu er verið að byggja samfélag á sandi. Og þá verða „styrkleikarnir“ aðeins sýndarveruleiki, notaður til að slá ryki í augu fólks sem á eftir að bera byrðarnar.

Ekki bíða eftir leyfi

Það er kominn tími til að við vöknum. Að við spyrjum spurninganna sem stjórnmálamennirnir forðast.
Ekki af hatri, heldur af ást á landi okkar, menningu okkar og börnum okkar sem er ætlað að lifa í þessu samfélagi eftir okkur.

Það er ekki öfgaafstaða að vilja vernda það sem gott er. Það er ábyrgð.


Eru fjölmiðlar að segja rétt frá?

Hefur þú nokkurn tíma velt fyrir þér hvers vegna við höfum svo sterkar skoðanir á Donald Trump? Ekki byggt á því sem fjölmiðlarnir segja heldur á eigin reynslu, eigin hugsun. Hvað veldur því að afstaðan til hans virðist sjálfsögð, nánast ósnertanleg?

Einsleit viðhorf – eðlileg eða mótuð?

Samkvæmt Gallup könnunum 2020 og 2024 sögðust 96% og 91% Íslendinga vilja Hillary Clinton eða Kamölu Harris sem forseta Bandaríkjanna. Slíkur samhljómur minnir frekar á stýrða umræðu í einræðisríki en opið lýðræðislegt samfélag. Er það vegna þess að við höfum mótað eigin skoðanir?
Eða vegna þess að fjölmiðlarnir hafa gert það fyrir okkur?

Í vestrænum lýðræðisríkjum er upplýsingastýring oft óformleg. Hún gerist þegar fjölmiðlar, stórfyrirtæki og menntastofnanir tala með einni röddu. Þá verða aðrar skoðanir sjaldséðar, jafnvel óvelkomnar, ekki endilega rangar, en óþægilegar.

Hvers vegna varð Trump hættulegur?

Donald Trump fór gegn þessu kerfi. Hann sigraði í forvali gegn 16 reyndum stjórnmálamönnum og vann forsetakosningar gegn Clinton fjölskyldunni, einni valdamestu fjölskyldu Bandaríkjanna, án stuðnings fjölmiðla, stórfyrirtækja eða stjórnmálaelítunnar. Hann talaði ekki til valdsins, eða Wall Street, hann talaði til fólksins. Og fólk hlustaði.

Hugmyndir hans um þjóðerni, landamæri, kristin gildi, fjölskyldu og „America First“ voru ekki nýjar. En þær höfðu verið útskúfaðar úr opinberri umræðu. Með því að segja þær upphátt braut hann ekki lög heldur ósýnilegar reglur.

Tvö sjónarhorn

  • Victor Davis Hanson, í bókinni The Case for Trump, heldur því fram að Trump hafi verið nauðsynlegur til að raska spilltu kerfi sem hafi gleymt almenningi.

  • Levitsky og Ziblatt, í How Democracies Die, telja hins vegar að Trump hafi grafið undan lýðræðinu með því að hunsa stofnanir og ýta undir pólitíska sundrung.

Þessar andstæðu túlkanir sýna okkur að ekkert er svart og hvítt. En þær undirstrika mikilvæga spurningu: Erum við að fá að sjá báðar hliðar málsins?

Fjölmiðlar móta veruleikann

Trump afhjúpaði hvernig fjölmiðlar móta, ekki bara lýsa raunveruleikanum. Hann benti á hvernig alþjóðlegir hagsmunir og pólitískir embættismenn vinna saman gegn hagsmunum almennings. Þessi truflun á valdakerfinu gerði hann hættulegan, ekki vegna þess sem hann var, heldur vegna þess sem hann ógnar.

Viðbrögðin voru hröð og hörð: mortilraunir, ritskoðun, rannsóknir, lögsóknir, stöðug niðurlæging. En hann hvarf ekki. Því þegar hann talar, skjálfa þeir sem telja sig eiga rétt á valdinu. Þeir sem hafa hagsmuna að gæta af því að allt haldist eins og það er.

Þörf fyrir gagnrýna hugsun

Trump hvetur almenning til að hugsa sjálfstætt, til að hafna samþykktri hugmyndafræði fjölmiðla, stórfyrirtækja, Hollywood og háskólasamfélagsins. Hann stendur gegn hnattvæðingu sem hefur flutt störf út, grafið undan hefðum og breytt menningu án lýðræðislegrar umræðu.

Hann er ekki gallalaus. Hann er hrár, óheflaður og umdeildur. En kannski er það einmitt það sem þarf. Ekki annan fínpússaðan stjórnmálamann með tengsl við Davos heldur einhvern sem sker í gegn og talar hreint út.

Kannski er spurningin ekki hvort Trump sé hinn fullkomni leiðtogi.

Kannski ætti spurningin að vera:

Eru fjölmiðlar að segja rétt frá?


Þegar miðjan hreyfist – og þú ert skyndilega öfgamaður

Í pólitískri umræðu samtímans er sífellt oftar talað um "skautun", að heimurinn skiptist í tvær fylkingar sem færist stöðugt lengra frá hvor annarri. Margir benda á aukinn stuðning við íhaldsflokka eða þjóðernissinna sem dæmi um "hægriöfgastefnu" sem sé að rista djúpt í lýðræðisleg samfélög. En spyrja má: Hver hefur í raun hreyft sig?

Fyrir þá sem fylgjast grannt með stjórnmálaþróun síðustu tveggja áratuga er ekki útilokað að helsta hreyfingin hafi átt sér stað vinstramegin, ekki vegna almennrar sósíaldemókratískrar stefnu, heldur vegna verulegrar hugmyndafræðilegrar útvíkkunar vinstri armsins í menningar- og samfélagsmálum. Hugtök á borð við kynvitund, kerfisbundinn rasisma, örugg svæði, jákvæða mismunun og loftslagsskyldur hafa orðið hluti af daglegu stjórnmálamáli, en fyrir fáeinum árum voru þau varla til umræðu utan akademíu eða jaðarhópa.

Á sama tíma halda margir íhaldssamir einstaklingar, bæði til hægri og miðju áfram að tala fyrir einstaklingsfrelsi, þjóðarveldi, takmörkuðu ríkisvaldi og ábyrgð. Þetta eru sömu gildi og þau sem tíðkuðust meðal klassískra frjálshyggjumanna og hófstilltra miðjuflokka fyrir einungis tveimur áratugum. En í dag eru þessi sjónarmið orðin „íhaldssemi“ og jafnvel „hættuleg“ í augum þeirra sem taka nýja staðalinn sem gefinn.

Þetta fyrirbæri er stundum kallað "hreyfanleg miðja" (e. moving center): ef einn armur færist langt í eina átt, þá virðist hin hliðin sjálfkrafa færast til, jafnvel þótt hún standi í stað. Þegar vinstrihugsun færist inn á svið sem áður var einkamál einstaklinga, hefða og samfélagsvenja og gerir það að lögboðnum sannindum verður hver sá sem vill standa í stað skyndilega álitinn öfgamaður eða úreltur.

Dæmi um þetta má sjá í opinberri umræðu víða: Þeir sem mótmæla hormónameðferð á börnum eru kallaðir transfóbískir. Þeir sem spyrja gagnrýninna spurninga um innflytjendastefnu eru sakaðir um fordóma. Þeir sem vilja standa vörð um menningararf eru sagðir þjóðernissinnar eða rasistar. Þeir sem gagnrýna „kynjastefnu“ í skólum eru sagðir vinna gegn mannréttindum. Þeir sem gagnrýna umfang ESG- og DEI-stefnu í atvinnulífi eru sakaðir um afturhaldsemi.

Í öllum þessum tilfellum eru hefðbundin sjónarmið sem áður töldust eðlilegur hluti af lýðræðislegri umræðu orðin umdeild og jafnvel útlegð.

Í slíku andrúmslofti verður fjölmiðlum ógjörningur að sýna hlutleysi, ef mælistikurnar sjálfar eru hliðraðar. Þeir sem áður skrifuðu á miðjuna, standa nú hægri megin, jafnvel þótt málflutningurinn hafi ekki breyst. Þeir sem halda sig við það sem einu sinni þótti eðlilegt, þ.e. að kyn væri tvískipt, að ríki hafi landamæri, að skoðanaskipti séu heilbrigð eru skyndilega kallaðir öfga-hægrimenn.

Það er þess vegna sem umræðan um skautun er sjálf orðin hluti af vandamálinu. Það er ekki skautunin sjálf sem veldur klofningi, heldur sú staðreynd að ein hliðin færist hraðar og með meiri hugmyndafræðilegri kröfu um hlýðni, en hin má varla blása án þess að sæta stimplun.

Lýðræði byggir á því að ólíkar raddir fái að heyrast og að miðjan sé skilgreind af samtalinu, ekki af hugmyndafræðilegum yfirboðum. Þegar fólk finnur sig á jaðri fyrir að halda sömu skoðun og fyrir tíu árum, þá er ekki spurningin: "Af hverju varð hann svona hægrisinnaður?" heldur: "Af hverju færðist hitt svona langt til vinstri?"


Heimsmarkmiðin og The Great Reset - tvær hliðar á sömu mynt?

Í kjölfar heimsfaraldursins árið 2020 urðu hugmyndir sem áður þóttu róttækar skyndilega hluti af opinberri umræðu. Hugmyndin um „The Great Reset“, kynnt af World Economic Forum (WEF), lagði til að endurhugsa heimshagkerfið, innviði samfélaga og tengsl valds og borgara. Færri átta sig á hversu djúp tenging er milli þessarar framtíðarsýnar og heimsmarkmiðanna (SDG – Sustainable Development Goals), sem eru mótuð af Sameinuðu þjóðunum.

Báðar áætlanir stefna að því að umbreyta samfélögum heimsins fyrir árið 2030, leggja áherslu á sjálfbærni, félagslegt réttlæti og alþjóðlega samvinnu og hafa verið mótaðar án beinnar lýðræðislegrar þátttöku almennings.

Sameiginleg markmið og hugmyndafræði

Þó heimsmarkmiðin séu kynnt sem hagsmunamál allra, hefur mótun þeirra farið fram í lokuðum ferlum undir stjórn alþjóðlegra stofnana og sérfræðinga án lýðræðislegs umboðs. Lítil sem engin umræða hefur átt sér stað í þjóðþingum eða meðal almennings áður en lönd skuldbundu sig til þátttöku. Þetta hefur vakið gagnrýni á að ákvarðanir séu teknar án gagnsæis eða ábyrgðar, af fámennum hópi valdhafa.

Sjálfbærni er kynnt sem hlutlaus nauðsyn, en er í reynd hluti af samhæfðri alþjóðastefnu sem oft þjónar betur hagsmunum elítunnar en almennings. Þetta skapar vantraust og eykur tortryggni gagnvart markmiðunum.

Tæknin, fjármálavald og ESG

Bæði The Great Reset og heimsmarkmiðin fela í sér samþættingu tækni, fjármála og siðferðislegra viðmiða, einkum í gegnum ESG (Environmental, Social, Governance). Hún hefur orðið framkvæmdarrammi fyrir fyrirtæki og fjárfestingarsjóði sem vilja samræma starfsemi sína við heimsmarkmiðin, oft án aðkomu almennings.

Stórfyrirtæki eins og BlackRock hafa notað ESG til að hafa áhrif á stjórn fyrirtækja og móta fjárfestingar, og þannig beitt óbeinum þrýstingi til að fylgja pólitískum stefnum sem ekki hafa verið samþykktar lýðræðislega.

Í sumum tilvikum hafa ESG-viðmið verið notuð til að útiloka fyrirtæki sem standa sig vel fjárhagslega, en standast ekki hugmyndafræðileg viðmið. Grein í Wall Street Journal (2022) lýsti hvernig olíufyrirtæki fengu einkunnir lækkaðar vegna losunar koltvísýrings, þrátt fyrir að þau störfuðu samkvæmt lögum. Financial Times greindi einnig frá því að varnartæknifyrirtæki væru útilokuð úr ESG-sjóðum vegna siðferðilegra matsviðmiða, þrátt fyrir að starfa innan lagaramma.

Þannig verða heimsmarkmið og afleidd viðmið að valdatæki og fjárfesting háð hugmyndafræðilegri hlýðni fremur en raunverulegum árangri!

Hvar er lýðræðið?

Hvorki ESG-stefnan né The Great Reset hafa aðkomu almennings í mótun eða samþykkt. Stefna og markmið hafa verið samþykkt í nafni almannahagsmuna án þess að fara í gegnum lýðræðislegar rásir, og framtíðarsýnin kynnt á ráðstefnu í Davos, af fólki sem enginn kaus!

Framtíðarsýnin er kynnt sem nauðsyn, ekki valkostur. Gagnrýni er oft stimpluð sem „öfgafull“ eða „popúlísk“, sem þrengir rýmið fyrir opna umræðu.

Í mörgum löndum hafa sveitarfélög og hagsmunahópar mótmælt framkvæmd stefna sem byggja á heimsmarkmiðunum eða ESG. Í Hollandi mótmæltu bændur harðlega aðgerðum gegn köfnunarefnislosun. Í Sri Lanka hrundi efnahagurinn eftir tilraun til að innleiða lífrænan landbúnað samkvæmt sjálfbærniskyldum. Í Bandaríkjunum og Kanada hafa ESG-innleiðingar mætt andstöðu vegna skorts á gagnsæi og aukins kostnaðar.

Árið 2030 – og hvað svo?

Heimsmarkmiðin miða að því að umbreyta heiminum fyrir 2030, en hvað tekur við? Hver skilgreinir „árangur“ og hver ákveður framhaldið? Ef stefna heldur áfram sjálfkrafa, án lýðræðislegrar endurskoðunar, þá verða valdamiðstöðvar stofnanavæddar og aðgerðir ósnertanlegar fyrir gagnrýni.

Ef fólk hefur hvorki rödd í mótun né möguleika á að hafna stefnu, þá er hætt við að framtíðin verði ákveðin af fáum, en lífguð allra.

Lokaspurningin: Veldur í skjóli lausnar?

Það sem kynnt er sem lausn getur orðið hula yfir nýtt valdakerfi. Þegar hugtök á borð við „umbreytingu“ og „samvinnu“ verða tákn fyrir miðstýrðar aðgerðir án lýðræðislegrar umræðu, þarf almenningur að spyrja:

Hver gaf leyfið?

Réttlát framtíð byggist ekki aðeins á markmiðum, heldur á því hvernig við mótum þau og hver hefur vald til þess!


Framtíðin tekin yfir, án okkar vitundar?

Í síauknum mæli er rætt um sjálfbærni, samfélagslega ábyrgð og nýjar efnahagsleiðir í nafni almannaheilla. En á bak við þessi hugtök leynast flókin völd og hugmyndafræði sem fæstir hafa fengið að kjósa um og sameiginlegur þráður margra þessara stefna er hlutverk og áhrif World Economic Forum (WEF). Með því að virkja samspil fjármálafyrirtækja, tæknirisa, alþjóðastofnana og valdamikilla einstaklinga hefur WEF orðið eins konar óformlegt miðstöð valdamiðlunar, með sífellt meiri áhrif á stefnumótun í heiminum.

Þessi pistill byggir á heimildarmyndinni Stakeholder Communism (ég hvet alla til að horfa á þessa myndsem nýtir opinber gögn, fjölmiðlaumfjöllun og ræðu- og stefnuplögg frá WEF, BlackRock og öðrum lykilaðilum. Hún skoðar hvernig þessi yfirþjóðlega sýn, þar sem lýðræðisleg ferli víkja fyrir sameiginlegum „lausnum“ elítunnar hefur áhrif á daglegt líf fólks. Á meðan orð eins og sjálfbærni, endurreisn og samfélagsábyrgð fylla ræðupúltin, eru það fáir útvaldir sem móta veruleikann sem allir aðrir þurfa að lifa með.

Hvert stefnum við, og hver stjórnar því?

Covid-faraldurinn sem hraðall kerfisbreytinga

Heimsfaraldurinn COVID-19 varð ekki aðeins heilbrigðisvandi, heldur tækifæri. Fyrir yfirþjóðlegar stofnanir, alþjóðlega stjórnmálaleiðtoga og stórfyrirtæki var faraldurinn nýttur sem hvati til að innleiða hugmyndir sem áður hefðu verið of róttækar til að fá brautargengi. Undir formerkjum neyðarástands urðu samfélög móttækilegri fyrir takmörkunum á ferðafrelsi, rafrænum lausnum í opinberri þjónustu, gagnasöfnun og almennri samþjöppun ákvarðanavalds.

Hugmyndin um „The Great Reset“, sem kynnt var af WEF árið 2020, byggði einmitt á því að nota faraldinn sem tækifæri til að endurhugsa heiminn. Í orðum Klaus Schwab, stofnanda WEF: The pandemic represents a rare but narrow window of opportunity to reflect, reimagine and reset our world. Með öðrum orðum: heimsfaraldurinn var ekki aðeins ógn, heldur tækifæri fyrir yfirþjóðlegar valdablokkir til að endurmóta grunnkerfi heimsins á nýjum forsendum. Í WEF-hvítbókinni COVID-19: The Great Reset segir enn fremur: „The world must act jointly and swiftly to revamp all aspects of our societies and economies – from education to social contracts and working conditions.

En margir spurðu: Endurhugsa, fyrir hvern? Þegar lausnir eru kynntar í nafni almannaheilla en fela í sér fráhvarf frá lýðræðislegri ábyrgð, skerðingu á eignarrétti og veikingu einstaklingsfrelsis, er ljóst að ekki er verið að vinna í þágu almennings. Þá hættir „endurröðun kerfisins“ að vera uppbyggileg framtíðarsýn og verður að yfirhönnuðu stjórnkerfi þar sem vald flyst frá fólki til stofnana sem enginn kaus og fáir skilja. Slík þróun er ekki lausn, heldur ný áskorun fyrir lýðræði og frelsi.

Faraldurinn skapaði fordæmi: Þegar næsta kreppa kemur, hvort sem hún er loftslagsbundin, fjármálaleg eða pólitísk, er líklegt að sama líkan verði notað. Þá verða ekki bara skammtímaatvinnuleysi og sóttvarnaraðgerðir ræddar, heldur hvernig og af hverjum nýtt kerfi verður mótað.

The Great Reset – eða The Great Takeover?

Myndin tengir þetta allt við hugmyndina um "The Great Reset", sem kynnt var af WEF eftir heimsfaraldurinn. Þar er lögð áhersla á að byggja "betri heim" eftir COVID, með nýju efnahagskerfi þar sem "engin á neitt en allir eru hamingjusamir". En spyrja má: hver á þá, ef einstaklingurinn á ekki lengur sjálfur? Hver stjórnar, ef ákvarðanir eru teknar langt frá kjósendum og hver ber ábyrgð þegar niðurstöðurnar hafa áhrif á alla?

Ef eignarhald, frjáls framtaksréttur og lýðræðislegt ákvarðanavald víkur fyrir markmiðum sem mótuð eru á lokuðum fundum, af fólki sem enginn kaus og sem starfar innan stofnana sem enginn getur kallað til ábyrgðar, þá er þetta ekki samfélagsábyrgð. Þetta er ný tegund stjórnvalds án ríkis og án ábyrgðar. Það sem í fyrstu lítur út sem framtíðarsýn með siðferðilegan undirtón, getur í framkvæmd orðið til þess að færa valdið frá fólkinu til óáþreifanlegra kerfa og í því ferli tapast það sem kalla má lýðræði í raunverulegri merkingu.

Hlutverk tæknirisanna, BlackRock og áhrif einstaklinga með vald

Þó heimildarmyndin leggi áherslu á fjármálavald og alþjóðlegar stofnanir, má ekki gleyma áhrifum tæknirisanna og einstakra áhrifamanna. Fyrirtæki á borð við Google, Meta, Amazon og Microsoft gegna lykilhlutverki í því að byggja og viðhalda þeirri stafrænu innviða- og upplýsingastýringu sem þessi nýja hugsun byggir á. Þau safna gögnum, hafa áhrif á skoðanamyndun, takmarka aðgang að upplýsingum sem teljast óþægilegar og móta með óbeinum hætti samfélagsumræðuna sjálfa.

Þegar þessi fyrirtæki vinna í takti við ESG-stefnu, yfirþjóðleg viðmið og stefnumótun WEF verða þau ekki aðeins vettvangur, heldur virkir þátttakendur í því að framkvæma breytingar sem lýðræðisleg umræða hefur ekki tekið afstöðu til. Áhrif tæknirisanna eru því ekki aðeins tæknileg heldur líka pólitísk.

Á sama tíma gegna fjármálarisar á borð við BlackRock lykilhlutverki. BlackRock er stærsta eignastýringarfyrirtæki heims og hefur bein áhrif á stefnu stærstu fyrirtækja heims, ekki aðeins sem fjárfestir heldur einnig sem ráðgjafi ríkisstjórna og alþjóðastofnana. Fyrirtækið notar áhrif sín til að þrýsta á ESG-innleiðingu (umhverfis-, félags- og stjórnarstefnu) í rekstri fyrirtækja, oft án lýðræðislegrar umræðu eða samþykkis almennings. Með því að tengja fjárfestingarstefnu við pólitísk markmið mótar BlackRock bæði efnahagslegt landslag og samfélagsleg gildi, óháð vilja kjósenda.

Auk þess hefur BlackRock verið gagnrýnt fyrir að kaupa upp stóran hluta af fasteignamarkaði í Bandaríkjunum og víðar. Með því að kaupa íbúðir og hús sem áður voru í eigu einstaklinga og breyta þeim í leiguhúsnæði undir stjórn fjárfestingasjóða, eru þeir að umbreyta eignarhaldi í samfélaginu frá sjálfstæðum fjölskyldum til fjármálakerfisins sjálfs. Þetta veldur hækkandi fasteignaverði, þrengir að ungu fólki og veikir þann fjárhagslega stöðugleika sem sjálfstæð eign getur veitt. Eins og lýst var í grein Wall Street Journal: „If you sell a house these days, the buyer might be a pension fund or an investment firm. They’re competing with ordinary Americans and often winning.“ Fyrir marga er þetta táknmynd þeirrar þróunar þar sem valdið yfir lífsgæðum og framtíðaröryggi færist frá borgurunum sjálfum til ópersónulegra stofnana og alþjóðlegra sjóða. Í grein Bloomberg frá 2021 var bent á að fjárfestingasjóðir eins og BlackRock og Invitation Homes væru að kaupa upp heilu hverfin og keppa við fyrstu kaupendur: „You now have permanent capital competing with a young couple trying to buy a house.“

Þá hefur einstaklingur eins og Bill Gates gegnt áhrifamiklu hlutverki í þessum umbreytingum. Gates, í gegnum Gates-stofnunina og sem fjárfestir, hefur ekki aðeins stutt þróun og dreifingu bóluefna um allan heim, heldur einnig fjárfest beint í fyrirtækjum sem framleiða þau. Hann hefur jafnframt fjárfest milljörðum í matvælaframleiðslu, til dæmis í ræktun gervikjöts og landbúnaðartækni, og er nú orðinn einn stærsti einkafjárfestir í ræktunarlandi í Bandaríkjunum. Þar að auki hefur hann átt umtalsverða hagsmuni í fjölmiðlafyrirtækjum og tækniiðnaði.

Þannig hefur Gates ekki aðeins áhrif á þá stefnu sem er kynnt sem lausn heldur einnig á hvaða upplýsingar fá hljómgrunn og hvernig umræðan er mótuð. Hann hefur sjálfur sagt: If we do a really great job on new vaccines, health care, and reproductive health services, we could lower [global] population by perhaps 10 to 15 percent.” Þó að þessi ummæli hafi verið tekin úr samhengi að mati sumra, eru þau oft notuð sem dæmi um hvernig orð hans og stefna kalla á skýra umræðu og aðhald. Þegar áhrif slíkrar einstaklinga teygja sig yfir heilbrigðismál, matvælaframleiðslu og upplýsingaflæði, þá verða spurningar um lýðræðislega ábyrgð óhjákvæmilegar. Sumir gagnrýnendur segja að þetta blandi saman fjárhagslegum og hugmyndafræðilegum völdum á þann hátt að erfitt sé að greina hvar „framlagið“ endar og hvar áhrifin hefjast. Það vekur spurningar um gagnsæi, hagsmunaárekstra og lýðræðislega ábyrgð.

Gagnrýnendur spyrja: Hversu lýðræðislegt er það þegar fáeinir ofurríkir einstaklingar geta mótað stefnu í heilbrigðismálum, matvælaöryggi og upplýsingamiðlun á alþjóðavísu, án þess að þurfa að svara til kjósenda, fjölmiðla eða þjóðríkja?

Bændur, borgarar og brotthvarf sjálfstæðis

Myndin dregur sérstaklega fram dæmi um hvernig þessi stefna hefur áhrif á landbúnað og eignarhald. Þegar grænir fjárfestingasjóðir, ráðgjafafyrirtæki og milliríkjasofnanir leggja línurnar fyrir framtíðina án þess að taka mið af röddum smábænda eða sjálfstæðra framleiðenda, verður niðurstaðan ekki lýðræðisleg breyting, heldur miðstýrt eignarhald með pólítískum formerkjum.

Þar sem kallað er samfélagsábyrgð, getur reynst vera í dulargervi einhliða eignatilfærsla: frá einstaklingum og minni fyrirtækjum til stórra eininga sem starfa undir formerkjum sjálfbærni eða ESG-stefnu, en án gagnsæis eða raunverulegrar ábyrgðar.

Þögn, samþykki og vaxandi vantraust

Myndin bendir réttilega á að þetta ferli á sér stað án raunverulegrar fjölmiðlaumræðu og oft í umhverfi þar sem gagnrýni á "rétt" stefnumál eru stimpluð sem "popúlismi" eða "öfgar". En kannski erum við komin að vendipunkti: Fólk er farið að spyrja, hver ræður? Og ef svarið er ekki "við", heldur "hinir", þá er þetta ekki framfaraskref heldur varnarmerki.

Við verðum að geta spurt þessar spurningar án þess að vera þögguð. Ef við vöknum ekki núna, hvenær þá? Og ef við spyrjum ekki, hver gerir það fyrir okkur? Annars erum við ekki lengur þátttakendur í samfélaginu, heldur aðeins hluthafar í kerfi sem við fengum aldrei að kjósa um.

Heimildir og gögn sem myndin styðst við

  • World Economic Forum (WEF):

    • Klaus Schwab: „The pandemic represents a rare but narrow window of opportunity to reflect, reimagine and reset our world.“

    • Hvítbókin COVID-19: The Great Reset (2020).

    • Ræður og skjöl frá Davos-ráðstefnum 2020 og 2021.

  • BlackRock og fasteignamarkaðurinn:

    • Wall Street Journal: „If you sell a house these days, the buyer might be a pension fund or an investment firm. They’re competing with ordinary Americans and often winning.”

    • Bloomberg (2021): „You now have permanent capital competing with a young couple trying to buy a house.”

  • Gates-stofnunin og fjárfestingar:

    • The Land Report og NBC News: um landaeignir Bill Gates.

    • TED Talk (2010): um áhrif bólusetninga á fólksfjölda: „If we do a really great job on new vaccines, health care, and reproductive health services, we could lower [global] population by perhaps 10 to 15 percent.”

  • Fjölmiðlaumfjöllun og gagnrýni á ESG-stefnu:

    • Financial Times, Reuters, Politico – um samþjöppun valds, sjálfbærnimarkmið og lýðræðislegt aðhald.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hvers vegna spyr enginn af hverju?

Höfundur

Arnar Freyr Reynisson
Arnar Freyr Reynisson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 56
  • Sl. sólarhring: 97
  • Sl. viku: 496
  • Frá upphafi: 9673

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 376
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband